Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti á miðvikudag tollskrá sína fyrir heimsbyggðina og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, hvort heldur horft er til helstu viðskiptaríkja, markaða vestanhafs eða uggandi efnahagssérfræðinga.
Trump segir að með þessu vilja hann frelsa Bandaríkin undan oki óréttmætra viðskiptahátta annarra ríkja með því að leyfa þeim að kenna á eigin meðölum tolla og viðskiptahindrana.
Það má hafa skilning á því sem að baki býr hjá Trump; umkvartanir hans eru ekki úr lausu lofti gripnar. En hitt er alls óvíst að þessar aðferðir beri tilætlaðan árangur og herkostnaður þessarar áhættusömu tilraunar gæti reynst ógnvænlegur. Fyrir Bandaríkin og fyrir heimsbyggðina alla.
Ómögulegt er að fullyrða nokkuð á þessari stundu um hverjar afleiðingar tollastefnu Trumps muni reynast, en það er erfitt að nefna nokkra efnahagsaðgerð í sögunni sem kemst í hálfkvisti við þessa að umfangi. Líkurnar á að illa fari eru töluverðar, en hér er svo mikið í húfi að ef það fer illa getur það farið hræðilega illa, víða og lengi. Heimskreppa er alls ekki óhugsandi.
Hér ræðir þó ekki aðeins um hið efnahagslega, því með þessu er Trump enn og aftur að skora gamalgróna bandamenn sína á hólm, ekki síður en keppinauta. Munu þeir láta það yfir sig ganga? Munu þeir allir áfram fylgja forystu Bandaríkjanna meðal vestrænna ríkja? Kæra Bandaríkin sig um þá forystu lengur?
Allt er þetta á huldu, en það gerir illt verra að markmið Trumps eru ekki að fullu ljós. Hann kveðst með þessum verndartollum vilja endurreisa framleiðslugreinar í Bandaríkjunum og draga úr vöruviðskiptahalla, en þó að þeir muni hafa tilætluð áhrif að einhverju leyti verður það skammgóður vermir.
Verndartollarnir eru fyrst og fremst viðskiptaþvinganir á bandaríska neytendur. Það eru þeir sem þurfa að þola hærra vöruverð, minna framboð og að lokum minni samkeppnishæfni og lakari vöru. Er víst að bandarískir neytendur, kjósendur, vilji bera þann kostnað til að styrkja atvinnulífið?
Sjö áratuga tímabil vestrænnar velmegunar í boði Bandaríkjanna virðist nú á enda, þar sem Trump hafnar lærdómum þeirra Adams Smiths og Davids Ricardos, tileinkar sér nýja kaupauðgisstefnu eftir nokkurra alda hlé og skimar eftir nýlendum. Ómögulegt er að segja hvernig það allt fer, en sögulegt verður það.
Íslendingar geta prísað sig sæla yfir því að hafa „aðeins“ fengið á sig 10% toll. Það er helmingi minna en velflest Vestur-Evrópuríki önnur, svo þar í kunna að felast tækifæri. Enginn skyldi þó efast um það eitt augnablik að sem stendur eru ógnirnar fleiri.
En hvað á Ísland að gera í öllu þessu umróti? Ekki er að heyra á ráðamönnum þjóðarinnar að þeir eigi mörg ráð um það. Hins vegar vekur áhyggjur hvað ríkisstjórnin horfir ákaflega til Evrópusambandsins (ESB) á ýmsum sviðum, þar á meðal þessum.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, lýsti í gær yfir tollastríði á hendur Bandaríkjunum í refsiskyni, full hneykslunar (og hræsni). Tollahjaðningar eru einhver verstu viðbrögð sem hugsast má, öllum til tjóns. Það væri hörmuleg ógæfa ef Ísland léti teymast í slíkt sameyki.
Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra vildi ekkert gefa út á spurningar um það á Alþingi, sem vonandi veit á gott. En svo bætti hann við að raunar væri Ísland hátollaland, ekki „eitthvert höfuðból tollfrelsis, þvert á móti stöndum við frekar illa í samanburði við önnur lönd hvað þetta varðar“.
Það er illt að yfirmaður tollamála tali á þann veg og opinberi fákunnáttu sína. Í skýrslu um utanríkisviðskiptastefnu landsins frá 2021 kom fram að meðaltollur á Íslandi væri 4,6% en 6,3% í Evrópusambandinu. Hér á landi bæru 90% tollnúmera engan toll, en aðeins 27% í ESB. Það hefur ekki breyst síðan.
Ísland á allt sitt undir góðum og greiðum viðskiptum við heiminn. Þar kemur ekkert í stað frjálsrar verslunar. Það vissi Jón Sigurðsson forseti þegar hann 1843 færði sömu rök og þeir Smith og Ricardo fyrir verkaskiptingu og viðskiptum sem lyklinum að auðsæld og framförum í landinu. Allt gekk það eftir og á nokkrum áratugum fór Ísland úr því að vera fátækasta land álfunnar í að verða eitt auðugasta ríki heims. Því má ekki gleyma.
Ísland vinnur engin tollastríð. Raunar vinnur enginn tollastríð, þar tapa allir. Því þurfa Íslendingar að setja traust sitt áfram á frjálsa verslun; auka hana en ekki þrengja að.