Hildur Sverrisdóttir
Hildur Sverrisdóttir
Síðastliðið miðvikudagskvöld kynnti Bandaríkjaforseti fyrirætlanir sínar um álagningu innflutningstolla á flest ríki heimsins. Forsetinn hyggst þess utan ná sér niður á þeim löndum sem, að hans mati, hafi á einhvern hátt leikið Bandaríkin grátt í viðskiptum landanna á milli

Síðastliðið miðvikudagskvöld kynnti Bandaríkjaforseti fyrirætlanir sínar um álagningu innflutningstolla á flest ríki heimsins. Forsetinn hyggst þess utan ná sér niður á þeim löndum sem, að hans mati, hafi á einhvern hátt leikið Bandaríkin grátt í viðskiptum landanna á milli. Tókst forsetanum bandaríska með þessu að færa alþjóðaviðskipti aftur um áratugi í einni svipan.

Segja má að Ísland hafi sloppið vel en á íslenskan útflutning á að leggja lágmarkstoll. Nágrannaþjóðir okkar eru margar hverjar ekki jafn heppnar, ef svo má að orði komast. Á norskar vörur leggjast 15%, 20% á vörur frá Evrópusambandsríkjum og yfir 30% á vörur frá hinum EFTA-þjóðunum tveimur, Sviss og Liechtenstein. Bitna aðgerðirnar þó mest á löndum Asíu.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær spurði undirrituð fjármálaráðherra um að þar sem Evrópusambandið hefur sagt að það sé tilbúið að ráðast í hefndaraðgerðir gegn Bandaríkjunum vegna tollanna, hvort til greina kæmi að taka þátt í slíkum aðgerðum með Evrópusambandinu. Ráðherra sagði ekkert liggja fyrir um viðbrögð Íslands í þeim efnum. Í framhaldi spurði ég ráðherrann hvort hann teldi að hagsmunum Íslands væri betur borgið innan ESB í þessum efnum. Ráðherra svaraði því engu.

Frjáls alþjóðaviðskipti hafa leikið æði stórt hlutverk í vaxandi lífskjörum um allan heim. Sérstaklega í tilfelli lítilla opinna hagkerfa eins og þess íslenska. Það er enda augljóst að tollar hafa hamlandi áhrif á viðskipti ríkja á milli. Þeir hækka verð á innfluttri vöru og draga úr eftirspurn eftir henni. Lækkun og afnám tolla vænkar þannig augljóslega hag neytenda. Með það að augnamiði hafa íslensk stjórnvöld löngum lagt kapp við að liðka fyrir viðskiptum við umheiminn. Sjálfstæðishetja lands og þjóðar, Jón Sigurðsson, var enda mikill brautryðjandi í þeim efnum.

Skemmst er að minnast þess að fyrir rétt rúmum áratug afnam þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, almenn vörugjöld og tolla á innflutning, fyrir utan þá sem lagðir eru á innflutta matvöru. Afnám tolla og vörugjalda hefur sannanlega vænkað hag íslenskra heimila, neytenda og fyrirtækja í landinu. Ísland er í dag meðal þeirra sem lægsta hafa tollana. Við stöndum þó enn vörð um íslenskan landbúnað, rétt eins og Evrópusambandið og Bandaríkin.

Ísland er í reynd lítið, opið hagkerfi á sterum í augum fræðimanna og langt frá því að vera sjálfu sér nógt um lífsins nauðsynjar. Með viðskiptum við umheiminn geta fólkið og fyrirtækin í landinu varið kröftum sínum í það sem þau gera best og átt viðskipti um aðrar nauðsynjar og lífsins gagn. Hér verður lykilatriði nú sem áður að standa vörð um hagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Höfundur er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Hildur Sverrisdóttir