Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Fasteignafélagið Íþaka áformar að hefja í haust uppbyggingu 304 herbergja hótels í Borgartúni í Reykjavík. Á lóðinni eru nú tæplega 3.000 fermetra byggingar, sem verða fjarlægðar, og verður hótelið um 12 þúsund fermetrar ofanjarðar. Drög að hótelinu eru sýnd hér fyrir ofan, en þau eru unnin af T.ark Arkitektum. Með uppbyggingunni verða lóðirnar í Borgartúni 1 og 3 og í Guðrúnartúni 4 sameinaðar í eina lóð.
Jóhann Sigurðsson, sem rekur Hótel Cabin í Borgartúni, Hótel Örk í Hveragerði og Hótel Klett í Mjölnisholti í Reykjavík, mun reka hótelið, sem áformað er að opna vorið 2028.
Það merki sem vex hraðast
„Við erum með sérleyfi frá Marriott og ætlum að opna hér Moxy-hótel, sem er það vörumerki innan Marriott-keðjunnar sem hefur vaxið hraðast síðustu ár. Útgangspunkturinn hjá Marriott er að Moxy-hótelin séu upplifunarhótel fyrir ungt fólk eða fólk sem er ungt í anda,“ segir Jóhann.
Fyrirtæki hans er með 260 herbergi á Hótel Cabin, 157 herbergi á Hótel Örk og 166 herbergi á Hótel Kletti, eða alls um 580 herbergi. Með Moxy-hótelinu verður fyrirtækið því með rúmlega 880 herbergi í rekstri. Jafnframt verður Moxy-hótelið eitt stærsta hótel landsins í herbergjum talið.
Jóhann segir hótelið munu höfða til breiðs hóps viðskiptavina, ekki síst Bandaríkjamanna, sem séu mjög tryggir vörumerkjum hótela.
„Við reiknum með að stór hluti gesta muni koma í gegnum sölusíður Marriott og að jafnvel allt að 60% bókana komi úr því kerfi,“ segir Jóhann. Það muni styrkja rekstur hótelsins mikið að fá svo vel þekkt alþjóðlegt vörumerki, en Marriott eigi milljónir tryggra viðskiptavina um heim allan.
Skapar rekstrarhagkvæmni
Stærð hótelsins skapar rekstrarhagkvæmni, en flest herbergin verða í millistærð, eða um 20 fermetrar. Að sögn Jóhanns gerir það kleift að bjóða gistingu á samkeppnishæfu verði, en slík hótelherbergi séu einmitt þau eftirsóttustu á Íslandi í dag.
Gunnar Valur Gíslason, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Íþöku, segir búið að tryggja fjármögnun vegna þessarar uppbyggingar, en heildar fjárfestingarkostnaður er um 10,5 milljarðar króna án virðisaukaskatts. Lokið er samningagerð við alþjóðlegu Marriott-hótelkeðjuna og eru rekstraraðilar hótelsins því orðnir sérleyfishafar Moxy-vörumerkisins. Næsta skref er að leggja inn teikningar til samþykktar hjá byggingarfulltrúa en deiliskipulag liggur fyrir.
Staðsetningin skiptir máli
Pétur Freyr Pétursson, viðskiptastjóri hjá Íþöku, reiknar með að mikil eftirspurn verði eftir herbergjum á hótelinu. „Við horfum fram á 2-4% fjölgun erlendra ferðamanna á hverju ári og því er fullvíst að það verði mikil eftirspurn eftir herbergjum á svo vel staðsettu hóteli í miðborginni.
Við höfum jafnframt vakið athygli á því að fjöldi fólks starfar orðið eða býr í Borgartúninu og á Höfðatorgi. Hótelið verður því frábær staður til að sækja sér einhverja upplifun eftir vinnu, en á hótelinu þurfa að vera að minnsta kosti tveir viðburðir í hverri viku,“ segir Pétur Freyr, enda leggi Marriott-keðjan mikla áherslu á upplifun á Moxy-hótelunum.
Jóhann útskýrir svo að kveðið sé á um það í sérleyfissamningnum við Marriott-keðjuna að reglulega fari fram viðburðir á hótelinu gestum til afþreyingar. Hann reiknar með að ráða viðburðastjóra til að halda utan um dagskrána. Uppákomurnar muni skapa mikil tækifæri í íslensku menningarlífi, ekki síst hjá tónlistarfólki.
Alex Steinbach, forstöðumaður hótelþróunar á Norðurlöndum hjá Marriott, segir í tilkynningu að fyrirtækið sé spennt að kynna Moxy-hótelkeðjuna til Reykjavíkur.
„Moxy býður upp á skemmtilega og félagslega upplifun sem hentar fullkomlega bæði Íslendingum og erlendum gestum sem leita að líflegri og óhefðbundinni gistingu. Þetta verkefni sýnir áframhaldandi vöxt Marriott-hótela á Norðurlöndunum og styrk Marriott Bonvoy-vildarkerfisins. Við erum afar þakklát fyrir náið samstarf okkar við Cabin ehf. og fasteignafélagið Íþöku ehf. og hlökkum til þessa spennandi ferðalags saman.“