Bandamenn Marco Rubio átti fund með ráðamönnum NATO og sagði Bandaríkin hvergi vera á förum þaðan.
Bandamenn Marco Rubio átti fund með ráðamönnum NATO og sagði Bandaríkin hvergi vera á förum þaðan. — AFP/Nicolas Tucat
Bandaríkin hafa ekki í hyggju að yfirgefa Atlantshafsbandalagið (NATO) eða snúa baki við bandamönnum sínum þar. Þau leggja hins vegar áherslu á að aðildarríki bandalagsins leggi meira að mörkum til að tryggja sameiginlegar varnir, þ

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Bandaríkin hafa ekki í hyggju að yfirgefa Atlantshafsbandalagið (NATO) eða snúa baki við bandamönnum sínum þar. Þau leggja hins vegar áherslu á að aðildarríki bandalagsins leggi meira að mörkum til að tryggja sameiginlegar varnir, þ. á m. Evrópu. Þetta sagði Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna á fundi í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel.

„Trump [Bandaríkjaforseti] hefur sagt það skýrt: Hann styður NATO. Og við munum halda áfram að starfa innan NATO,“ sagði Rubio, en nokkur ólga hefur ríkt innan aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins að undanförnu og hafa sumir efast um hollustu Bandaríkjanna í garð bandamanna sinna í Evrópu. Utanríkisráðherrann sagði slíkt tal vera óþarft. Það væri hins vegar nauðsynlegt fyrir Evrópu að herða róðurinn þegar kæmi að útgjöldum til varnarmála.

„Við viljum yfirgefa þennan fund vitandi að aðildarríki NATO muni á næstunni stefna að fimm prósenta markinu. Og það á einnig við um Bandaríkin,“ sagði Rubio og vísaði þar til hluta af þjóðarframleiðslu.

Ekkert skyndilegt brotthvarf

Spenna á milli Bandaríkjanna og Kína hefur farið vaxandi að undanförnu og hafa sumir sérfræðingar áhyggjur af því að hún kunni að leiða til vopnaðra átaka áður en langt um líður. Í ljósi þessa hafa sömuleiðis vaknað áhyggjur í Evrópu og þá um hvort Bandaríkin muni halda úti herliði sínu þar, komi til átaka í Asíu.

Mark Rutte framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins segir engin áform vera uppi um að Bandaríkjamenn dragi úr viðbúnaði sínum í Evrópu.

„Þeir hafa ekki í hyggju að draga skyndilega úr herliði sínu hér í Evrópu,“ segir hann og bætir að við ákveði Bandaríkin einhvern tímann í framtíðinni að draga lið sitt að hluta eða alfarið út úr álfunni muni það taka nokkur ár í framkvæmd. Breyting sem þessi á vörnum Evrópu yrði alltaf tekin í samvinnu við ríki Evrópu og þeim gert kleift að fylla upp í skarðið. „Bandaríkin eru heimsveldi og í ljósi þessa er eðlilegt að þau fylgist með fleiri ógnum í einu en einni.“

Rússland óvinur NATO

Árásarstríð Rússlands inn í Úkraínu var einnig til umræðu á fundi Atlantshafsbandalagsins. Aðildarríkin voru sammála um að mikilvægt væri að halda áfram að styðja við bakið á Kænugarðsstjórninni og voru Bandaríkin sömuleiðis sérstaklega hvött til þess sama, en ný ríkisstjórn vestanhafs hefur staðið fyrir aðgerðum að undanförnu sem höfðu neikvæð áhrif á frammistöðu Úkraínuhers á vígvellinum. Var það m.a. gert með því að stöðva um stund vopnasendingar þangað og halda aftur af upplýsingaflæði til Úkraínuhers.

Kestutis Budrys forsætisráðherra Litháens segir einungis einn árásaraðila vera innan landamæra Úkraínu, þ.e. Rússland.

„Það er mikilvægt að viðurkenna þá staðreynd að Rússland er og hefur alltaf verið hernaðarleg ógn við NATO í heild. Og einnig ógn við Úkraínu. Við þurfum réttlátan og langvarandi frið,“ segir Budrys og bætir við að einungis verði hægt að tryggja það með ósigri Moskvuvaldsins og öryggistryggingu fyrir Úkraínu inn í framtíðina.

Þá hefur einnig komið til tals að Evrópa sendi herlið inn í Úkraínu, takist að koma á vopnahléi milli stríðandi fylkinga. Er þá helst rætt um að Bretland og Frakkland leiði þær sveitir og þá hugsanlega með aðstoð frá flugher Bandaríkjanna, sem fengi það verkefni að loka lofthelginni yfir Úkraínu. Ekkert hefur þó verið ákveðið í þeim efnum og er möguleg friðargæsla sögð afar umfangsmikil og flókin í framkvæmd.

Moskvuvaldið hefur tekið illa í þær hugmyndir að Vesturlönd sendi herlið inn í Úkraínu. Segja Rússar slíkar sveitir verða löggilt skotmark.

Undir þetta hafa sumir sérfræðingar tekið og bent á að hugsanlega verði hægt að senda friðargæslusveitir þangað inn, en þá verði herliðið að koma frá ríkjum sem eigi ekki aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Höf.: Kristján H. Johannessen