Í Kólumbíu Fjölskyldan í heimsókn hjá tengdafjölskyldu Önnu um áramótin 2023/2024.
Í Kólumbíu Fjölskyldan í heimsókn hjá tengdafjölskyldu Önnu um áramótin 2023/2024.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Lúðvíksdóttir fæddist 4. apríl 1975 í Reykjavík og ólst upp að mestu í Laugarneshverfinu í Reykjavík að undanskildum árunum 1977-1979 þegar foreldrar hennar stunduðu framhaldsnám í London í Kanada

Anna Lúðvíksdóttir fæddist 4. apríl 1975 í Reykjavík og ólst upp að mestu í Laugarneshverfinu í Reykjavík að undanskildum árunum 1977-1979 þegar foreldrar hennar stunduðu framhaldsnám í London í Kanada.

Eftir skólagöngu í Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð, þaðan sem Anna útskrifaðist af náttúrufræðibraut árið 1995. Eftir útskrift lá leiðin til Sevilla á Spáni, þar sem hún lagði stund á spænsku, og um tíma bjó hún í London í Bretlandi. Þegar heim var komið hóf Anna nám í Háskóla Íslands í spænsku en eftir eitt ár skipti hún yfir í mannfræði og lauk BA-gráðu í þeirri grein 2001. Anna lauk mastersnámi í alþjóðasamskiptum og stjórnmálafræði í University of Westminster í London í Bretlandi. Þaðan flutti hún til Montréal í Kanada og stundaði nám í frönsku, aðstoðaði við rannsókn á börnum með málraskanir við McGill-háskólann og kenndi einnig íslensku hjá íslensk-kanadíska félaginu í í Montréal.

Eins og algengt var fóru unglingar tiltölulega snemma að vinna á sumrin og var Anna 13 ára þegar hún byrjaði að passa börn og starfaði einnig í sumarbúðunum Ölveri. Næstu sumrin á eftir starfaði Anna sem starfsstúlka á þjónustuíbúðunum við Dalbraut og tók að sér ýmis störf sem mörg hver tengdust náminu.

Starfsferill Önnu eftir háskólanám hefur einkennst af störfum innan frjálsra félagasamtaka, fyrst sem framkvæmdastjóri Alþjóðlegra ungmennaskipta, verkefnastjóri hjá SEEDS-sjálfboðaliðasamtökum og nú síðastliðin ellefu ár í stöðu framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Amnesty International. Í millitíðinni starfaði Anna sem verkefnastjóri innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Anna kynntist manni sínum, Oscari Uscategui sem er frá Kólumbíu, þegar hún starfaði hjá Alþjóðlegum ungmennaskiptum, en hann hafði komið hingað til lands í heimsókn eftir sjálfboðaliðastörf og verkfræðinám í Þýskalandi. Það sem tengdi þau var áhuginn á sjálfboðaliðastörfum, félagasamtökum og að veita ungu fólki tækifæri til að taka þátt í sjálfboðastarfi og hafa þannig áhrif á samfélagið sem og að öðlast reynslu á erlendri grund.

„Sem framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International hef ég fengið frábært tækifæri til að vinna að framgangi mannréttindamála um allan heim. Á þeim rúmu ellefu árum í starfi sé ég glögglega hvernig grafið er undan þeim réttindum sem við í hinum vestræna heimi höfum talið nánast sjálfsögð. Má þá benda á bakslag í tjáningarfrelsinu í Evrópu og Bandaríkjunum, í kyn- og frjósemisréttindum, þá sérstaklega kvenna, og beinni aðför að réttindum hinsegin fólks í löndum sem við höfum talið vera á sömu vegferð og Ísland í að tryggja öllum grunnréttindi sín.

Þegar ég hitti samstarfsfólk mitt á alþjóðlegum fundum sést skýrt hvað við búum við mismunandi veruleika. Framkvæmdastjórar og formenn deilda í löndum þar sem mannréttindi eiga undir högg að sækja hafa fengið líflátshótanir og þurfa að búa við ógnanir vegna skoðana sinna og starfa. Það er mikil gæfa að fæðast og búa í landi sem er laust við stríð og átök og þar sem mannréttindi eru að mestu leyti virt. Ég held þó að stundum gleymist hvað það hefur þurft að berjast fyrir sumum réttindum og það má ekki láta sem við séum komin í örugga höfn og þurfum ekki að halda baráttunni áfram.

Lífsviðhorf mitt er að taka sjálfa mig ekki of alvarlega en taka þau verkefni sem ég fæst við alvarlega, en það hefur reynst mér vel í starfi þar sem frábært starfsfólk og stjórn berst gegn óréttlæti og mannréttindabrotum.

Eftir að börnin fæddust minnkaði tíminn til að sinna áhugamálum en ég fann þá meira fyrir mikilvægi þess að gefa mér tíma fyrir sjálfa mig. Ég hef alltaf haft áhuga á matargerð og það að búa í mismunandi löndum opnaði sjóndeildarhringinn í þeim efnum. Í amstri dagsins gefst ekki oft tími til að dunda sér við matargerðina og prófa nýja hluti, frekar reyni ég að reiða eitthvað fljótlegt fram sem fellur að bragðlaukum barnanna. Svo er ég svo heppin að eiga mann og frábæra tengdafjölskyldu frá Kólumbíu og við höfum farið þangað flest jól og áramót. Ferðalög eru því órjúfanlegur þáttur af fjölskyldulífinu.

Á síðustu árum hef ég stundað hlaup, sem gefur mér orku, gleði og betri svefn. Ég er svo lánsöm að vera hluti af frábærum kvennagönguhópi, Stikunum, sem fer í fjögurra daga hálendisgöngu ár hvert. Þetta er mikill lúxus, allt trússað, ísmolar ferjaðir á hina afskekktustu staði til að kæla drykkina og oftar en ekki er kokkur með í för. Ég reyni að vera alltaf með eitthvað á prjónunum og finnst dásamlegt að geta prjónað á sjálfa mig og mína nánustu.

Ég ætla að taka mér frí í dag til þess að ná áttum á afmælistölunni og þakka fyrir hvert einasta ár. Ég á alveg eins von á að vakna snemma í morgunsárið við eldhúsbras og finna ilminn af vöfflum, en það er afmælishefð hjá okkur að vekja afmælisbarn dagsins með nýbökuðum vöfflum og heitu kakói. Í hádeginu hitti ég góðar vinkonur, sem er æðisleg hefð sem hefur skapast síðastliðin ár. Maðurinn minn verður einnig fimmtugur, rétt á eftir mér, og því ákváðum við að skella upp sameiginlegri veislu í kvöld og vonandi verður dansað fram eftir nóttu. Ég hef verið ótrúlega heppin að eiga góða fjölskyldu og vini sem hafa stutt mig í gegnum allt mitt bras og ég lít björtum augum til næstu 50 ára.“

Fjölskylda

Eiginmaður Önnu er Oscar Mauricio Uscategui, f. 18.5. 1975, framkvæmdastjóri og stofnandi SEEDS-sjálfboðaliðasamtaka. Þau eru búsett í Skerjafirði í Reykjavík. Foreldrar Oscars: Hjónin José Uscategui, f. 1945, d. 9.11. 2003, og Lucila Clavijo, f. 1941, búsett í Kólumbíu.

Börn Önnu og Oscars eru Andri Mateo, f. 4.2. 2009, nemi í Hagaskóla; Styrmir Camilo, f. 31.1. 2012, og Matthildur María, f. 21.2. 2017, nemar í Melaskóla.

Bróðir Önnu er Viðar Lúðvíksson, f. 15.12. 1972, lögmaður og einn eigenda lögmannsstofunnar Landslög, búsettur á Seltjarnarnesi. Kona hans er Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar.

Foreldrar Önnu eru hjónin Lúðvík Ólafsson, f. 28.7. 1944, og Hildur Viðarsdóttir, f. 4.6. 1945. Þau eru bæði læknar, bjuggu lengst af í Laugarneshverfinu en fluttu í Kópavoginn 2021.