Refapar Mórautt refapar gægist fram af brúninni í Harðviðrisgjá og fylgist grannt með mannaferðum.
Refapar Mórautt refapar gægist fram af brúninni í Harðviðrisgjá og fylgist grannt með mannaferðum. — Ljósmyndir/Ester Rut Unnsteinsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Búast má við að minnsta kosti fimm óðulum með yrðlinga í austanverðri Hornvík næsta sumar, en sú er niðurstaða vettvangsferðar sem farin var á vegum Náttúrufræðistofnunar á Hornstrandir, þar sem fylgst var með lífríki svæðisins undir lok vetrar

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Búast má við að minnsta kosti fimm óðulum með yrðlinga í austanverðri Hornvík næsta sumar, en sú er niðurstaða vettvangsferðar sem farin var á vegum Náttúrufræðistofnunar á Hornstrandir, þar sem fylgst var með lífríki svæðisins undir lok vetrar. Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur var leiðangursstjóri ferðarinnar en með í för var kvikmyndateymi frá Humblebee productions, sem vinnur að heimildarþætti um lífshætti refa í Hornvík. Frá þessu greinir á vef Náttúrufræðistofnunar, en ferðin stóð yfir 13.-23. mars sl.

Á meðan á dvölinni stóð sáust 14 eða 15 tófur í austanverðri Hornvík, allt frá fjörunni við Hornvíkurós og upp í bjargbrúnir Hornbjargs. Voru sum dýrin í tilhugalífi en önnur ekki og ráfuðu þau um í fjörunni í ætisleit. Flestir refirnir sem sáust voru sagðir í góðu standi og með þykkan feld, þannig að talið var að þau hefðu haft að nægu æti að ganga í vetur. Voru allir refirnir, utan einn, af mórauðu litarafbrigði, en breytileikinn í litarhafti talsverður svo að hægt var að þekkja suma einstaklinga frá öðrum.

Breytileiki í litum

„Til dæmis er einn ryðrauður á litinn, tveir steingráir með móbrún eyru og fætur, þrír steggir kaffibrúnir og ein læða móbrún með hvíta tá á framfæti og hvíta neðri vör. Þetta auðveldar að þekkja dýrin í sundur og fylgjast með ferðum þeirra og atferli,“ segir í frásögn af ferðinni á vef stofnunarinnar.

Segir þar að refirnir pari sig í mars og mikill munur sé á atferli dýra sem eru í tilhugalífi og hinna sem eru geld. Læður séu aðeins móttækilegar í stuttan tíma og þá sé mikilvægt fyrir steggina að halda sig nærri til að missa ekki af tækifærinu.

Refirnir þurfa að sanna sig

„Ekki nóg með það, þeir þurfa virkilega að sanna sig því læðurnar eiga það til að fara yfir stór svæði og láta þá elta sig tímunum saman. Steggirnir vilja gjarnan hvíla sig en læðurnar eru eirðarlausar og stöðugt á ferðinni. Stundum kemur fyrir að steggurinn hefur sofið á verðinum og læðan horfið á brott á meðan. Þá hefst leit, hann kallar til hennar og oft er hún skammt undan og svarar. Þetta getur verið mikið sjónarspil en erfitt er að fylgja dýrunum eftir, þar sem þau ferðast hratt yfir víðáttumikið svæði. Þau virðast óþreytandi þegar þau fara upp í kletta, inn í dali og aftur niður að sjó á örfáum mínútum. Þá er best að koma sér fyrir á hæð með góðan sjónauka og vona að yfirsýnin nægi til að fylgja þeim eftir,“ segir í frásögninni.

Þar segir einnig að eftir mökun merki grendýrin sér óðul og dragi þá úr yfirferð um svæðið. Sum dýrin haldi sig á ákveðnum stöðum en önnur fari í langa könnunarleiðangra. Á tveimur stöðum í bjarginu séu djúpar holur í snjónum sem refir hafi sést fara ofan í. Mögulega hafi þeir verið að ná sér í gömul fuglshræ frá fyrra ári. Ekki sé líklegt að refir hafi getað náð í sjófugl á þessum tíma, þar sem fuglinn hafi enn ekki verið sestur upp, þótt farinn sé að halda sig við björgin. Fýll sitji þó í björgum nánast veturlangt, á milli þess sem hann heldur til hafs í ætisleit.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson