Bárðarbunga Íbúum leist ekki á blikuna þegar jörð skalf í janúar.
Bárðarbunga Íbúum leist ekki á blikuna þegar jörð skalf í janúar. — Morgunblaðið/RAX
„Veðurstofan er búin að vera að vinna fyrir okkur nýtt áhættumat í vetur, aðallega varðandi flóðamál sem gætu komið annars vegar niður Skjálfandafljót og hins vegar niður Jökulsá á Fjöllum,“ segir Hermann Karlsson, fulltrúi Almannavarna og lögreglumaður á Norðurlandi

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Veðurstofan er búin að vera að vinna fyrir okkur nýtt áhættumat í vetur, aðallega varðandi flóðamál sem gætu komið annars vegar niður Skjálfandafljót og hins vegar niður Jökulsá á Fjöllum,“ segir Hermann Karlsson, fulltrúi Almannavarna og lögreglumaður á Norðurlandi. Boðað hefur verið til íbúafundar vegna mögulegs eldgoss í Bárðarbungu bæði í Þingeyjarsveit og Norðurþingi 9. apríl nk.

Hermann segir að íbúar hafi farið að kalla eftir frekari upplýsingum þegar jörð skalf í janúar og jafnvel var talið að drægi til tíðinda í Bárðarbungu. „Við búumst í sjálfu sér ekki við að það fari að gjósa, en það kom nýtt áhættumat í janúar sem við vildum kynna fyrir íbúum þar sem farið er betur yfir flóðavarnir ef til goss kæmi.“

Hermann segir að aðgerðaáætlun sé til fyrir sveitirnar frá 2015 og í nýju áhættumati sé bara verið að bæta aðeins við upplýsingarnar. „Við erum með skýrari mynd á t.d. rýmingarsvæðin, en það eru ákveðnir bæir og svæði í byggð sem eru ekki jafn útsett og var í fyrri áætluninni.“

Verkefnið var byrjað löngu áður en jarðhræringarnar urðu í janúar segir Hermann. „Þetta nýja áhættumat skerpir bara á upplýsingunum sem voru þegar til og við förum yfir allar sviðsmyndir,“ segir hann að lokum.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir