40 ára Una ólst upp í Mosfellsbænum en líka á Hólum í Hjaltadal eitt eftirminnilegt ár á meðan móðir hennar stundaði nám við bændaskólann. „Tvennt frá mínum æskuárum stendur upp úr sem sérstaklega mótandi lífsreynsla, þessi vetur á Hólum og…

40 ára Una ólst upp í Mosfellsbænum en líka á Hólum í Hjaltadal eitt eftirminnilegt ár á meðan móðir hennar stundaði nám við bændaskólann. „Tvennt frá mínum æskuárum stendur upp úr sem sérstaklega mótandi lífsreynsla, þessi vetur á Hólum og þegar ég fór ein í fimm vikna málaskóla til Englands sumarið eftir fermingu. Á báðum stöðum fékk ég tækifæri til að sjá sjálfa mig í nýju samhengi við umheiminn, sem var mikið þroskastökk.“

Tvítug fluttist Una til miðborgarinnar þegar hún hóf háskólanám. Þar býr hún enn, í aldargömlu bárujárnshúsi og lítur nú á sig sem Reykvíking. „Eitt sinn heyrði ég barn í götunni vísa til mín sem „konunnar í rauða húsinu“ sem lét mér líða eins og skáldsagnapersónu og gamalli konu um leið.“ Una flutti síðar til Barcelona í mastersnám en hefur einnig búið í St. Paul í Minnesota, Kabúl og Tbilisi, þar sem hún starfaði fyrir NATO.

Starfsferill Unu hófst sem blaðamaður á Morgunblaðinu árin 2006-2014, en síðar vann hún einnig á fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis. „Þegar ég var 12 ára skrifaði ég í dagbókina mína að mig langaði að verða blaðamaður, svo fjölmiðlabakterían er nánast meðfædd. Ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa slitið barnsskónum hjá Mogganum. Það var einn besti skóli sem ég hef gengið í.“ Í dag er Una sérstakur ráðgjafi á skrifstofu forseta Íslands og segir alla fyrri reynslu nýtast í því fjölbreytta starfi.

Í frítíma sínum nýtur Una þess að stunda útivist og ferðast. „Þegar ég var á hvað mestu flakki um heiminn stefndi hraðbyri í að ég myndi heimsækja 100 lönd fyrir fertugt, án þess þó að það væri sérstakt markmið. En svo hægðist á mér og löndin eru ekki nema 78, en ætli þau verði ekki orðin hundrað fyrir fimmtugt.“

Fjölskylda Foreldrar Unu eru Sighvatur Lárusson og Ólína Margrét Ásgeirsdóttur. Systkini hennar eru Sturla, Kári og Brynhildur Sighvatsbörn.