Gunnar Birgisson
Gunnar Birgisson
Ótakmarkaðan stuðning Bandaríkjanna við Ísrael má rekja til áhrifaríkra hagsmunahópa.

Gunnar Birgisson

Margir eru hissa á linnulausum stuðningi Bandaríkjanna við Ísrael, sama hvað er að gerast og hvaða flokkur stjórnar í Washington. BNA hafa undanfarið snúist gegn bandamönnum, t.d. Kanada og Úkraínu, en stuðningur þeirra við Ísrael minnkar aldrei, eins og sést varðandi tillögur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að flytja alla Palestínumenn frá Gasa. E.t.v. er best að skilja þetta í ljósi hagsmunagæslu innan BNA og áhrifa stuðningsmanna Ísraels.

Fremst í hópi eru hagsmunasamtök sem lengi hafa verið meðal þeirra öflugustu í Washington, American Israel Public Affairs Committee (AIPAC). Meðal annarra eru t.d. Democratic Majority for Israel og Christians United for Israel, en þau síðarnefndu eru samtök kristinna sem telja að stuðningur við Ísrael sé samkvæmt Biblíunni. Hér vísa ég til þeirra í heild, þ. á. m. einstaklinga, sem stuðningsmanna Ísraels.

Í grein frá 13. febrúar lýsti ég hvernig hagsmunagæslan í Washington samanstendur af þremur þáttum: 1) Að fá jákvæðar niðurstöður hjá þinginu og forsetanum, 2) að afla fjár fyrir frambjóðendur í kosningaslag og 3) að skapa hjálplegar umræður, s.s. spuna, um sín málefni. Í öllum þessum þáttum hefur stuðningsmönnum Ísraels gengið gífurlega vel.

1) Stuðningsmenn Ísraels hafa átt mikla sigurgöngu hjá þinginu og forsetanum, sama hvaða flokkur stjórnar, enda hefur Benjamín Netanjahú stært sig af því hve auðvelt er að stýra BNA. Frá stofnun Ísraels hafa BNA veitt Ísrael fjárhagsstuðning sem nemur tæplega fjórum billjónum dala á ári (um hálf trilljón ISK), yfir 300 billjónir dollara (leiðrétt fyrir verðbólgu, um 40 trilljónir ISK) frá stofnun Ísraels 1948, og við það bætast um 20 billjónir dala (þrjár trilljónir ISK) í vopnum eftir árásina frá Hamas 7. okt. 2023.

BNA hafa líka veitt árlegan fjárhagsstuðning til Jórdaníu og Egyptalands frá því að þessi nágrannalönd Ísraels gerðu við það land sáttmála. Egyptaland hefur fengið u.þ.b. 1,4 billjónir dollara á ári (200 milljarða ISK) frá BNA eftir að Camp David-samningarnir voru undirritaðir árið 1979. Frá því að Jórdanía skrifaði under Wadi Araba-samkomulagið árið 1994 hafa BNA gefið því landi um 1,7 billjónir dollara á ári (240 milljarða ISK).

Ekki er pláss hér til að telja upp alla sigra stuðningsmanna Ísraels, en þó má geta flutnings sendiráðs BNA frá Tel Aviv til Jerúsalem á fyrra kjörtímabili Trumps, en aðeins örfáar þjóðir hafa tekið það skref. Velgengni stuðningsmanna Ísraels byggist á nánum samskiptum við þingmenn og AIPAC hefur borgað kostnað við fjölmargar heimsóknir þingmanna til Ísraels, sem er langalgengasti áfangastaðurinn fyrir utanlandsferðir þingmanna BNA sem borgaðar eru af einkaaðilum.

Þingmenn á bandi Ísraelsmanna eru alltaf fljótir að halda opinbera þingfundi þegar það hjálpar málstaðnum, t.d. þegar ásakanir bárust um að mótmæli í ýmsum háskólum gegn aðgerðum Ísraelshers í Gasa bæru keim af gyðingaandúð. Leiðtogar virtra skóla voru hundskammaðir af þingmönnum fyrir slíkt. En í gegnum árin hefur ekki borið mikið á þingfundum í Washington um lífskjör Palestínumanna eða meint mannréttindabrot Ísraela gagnvart þeim.

Margir þingmenn BNA keppast við að bjóða fram tillögur til að hjálpa málstað Ísraels á hvaða hátt sem er. Sem dæmi má nefna að þingmaður Arkansas úr öldungadeildinni, Tom Cotton, bauð fram frumvarp um að bandaríska ríkið hætti að nota orðið Vesturbakkinn og notaði í staðinn Júdea og Samaría, því þau nöfn væru í takt við biblíulegar kröfur Ísraels til svæðisins. Margir slíkir stuðningsmenn eru eða hafa verið á þinginu, t.d. Elia Stefanik, þingkona frá New York, sem Trump tilnefndi til að verða fastafulltrúi BNA hjá Sameinuðu þjóðunum, en hún heldur því fram að Gamla testamentið gefi Ísrael rétt á að eigna sér Vesturbakkann.

2) Stuðningsmenn Ísraels eru mjög öflugir í að gefa fé til og hjálpa frambjóðendum sem styðja þeirra málstað, hvort sem er Repúblikönum eða Demókrötum. Lengi einbeitti AIPAC sér að því að þrýsta á ríkisstjórnina varðandi sín málefni, og lét aðra um að gefa í kosningasjóði. En AIPAC stofnaði eigin sjóð með tugum milljóna dollara fyrir kosningarnar 2022, og hefur notað það fé til að berjast gegn þingmönnum sem hafa gagnrýnt Ísrael eða stuðning BNA við Ísrael. Með því að styrkja andstæðinga þeirra í prófkjöri árið 2022 tókst AIPAC og öðrum að sigra þingmennina Andy Levin og Marie Newman, og sömuleiðis 2024 tókst þeim að bola út Cori Bush og Jamaal Bowman. AIPAC stærir sig af því að 96% frambjóðenda sem þeir styðja sigruðu í síðustu kosningunum. Þ. á m. eru leiðtogar beggja flokka í fulltrúadeildinni, Mike Johnson Repúblikani og forseti fulltrúadeildarinnar og Hakeem Jeffries leiðtogi Demókrata.

Einstaklingar sem styðja Ísrael gefa sömuleiðis ríflega í kosningasjóði. Einna þekktust er Miriam Adelson, milljarðamæringur sem á spilavíti og NBA-körfuboltaliðið Dallas Mavericks. Hún hefur hvatt til þess að Ísrael innlimi Vesturbakkann og gaf um 100 milljónir dollara (14 milljarða ISK) til kosningasjóða sem studdu Donald Trump í kosningunum 2024.

Það eru háar upphæðir sem stuðningsmenn Ísraels gefa til að styrkja ákveðna frambjóðendur en það er frábær fjárfesting, því þótt mörgum milljónum dollara sé eytt í kosningaherferðir þá skilar það sér vel þegar BNA gefa milljarða dollara til Ísraels.

3) Stuðningsmenn Ísraels hafa alltaf verið mjög fimir í að miðla upplýsingum og sínum túlkunum á atburðum til þingmanna, fjölmiðla og almennings til þess að reyna að stýra umræðum.

Þegar áhyggjur fóru að aukast á síðasta ári um hve margir voru að láta lífið í Gasa af hernaðaraðgerðum Ísraels, þá voru flestallir stjórnmálamenn í BNA alveg í takt að segja alltaf sömu atriðin; að þetta væri allt afleiðing þess sem gerðist 7. okt., Ísrael ætti rétt á að verja sig, og að aðalatriðið væri að frelsa gíslana. Umræður um heildarástandið á þessu svæði og söguna á bak við voru að mestu útilokaðar.

Í gegnum árin hefur stuðningsmönnum Ísraels tekist að stýra umræðum í BNA um þennan heimshluta. Því er stöðugt haldið fram að Palestínumenn eigi ekki rétt á að vera á neinum af þessum svæðum, að þeir séu í raun ekki til sem þjóðflokkur, að samúð með Palestínumönnum jafngildi því að styðja hryðjuverkaðgerðir, að Guð hafi gefið Ísrael þetta land, að Ísrael sé gífurlega mikilvægur bandamaður BNA o.s.frv. (Þó hefur Donald Trump viðurkennt að BNA vilji einfaldlega vernda Ísrael.)

Ekki er pláss hér til að rekja hér svör við þessum fullyrðingum um mikilvægi Ísraels fyrir hagsmuni BNA, en ýmsir hafa skrifað um þessi mál, og má sérstaklega nefna John Mearsheimer, prófessor við Chicago-háskóla.

Í BNA er málflutningur sem tekur upp hanskann fyrir Palestínumenn (jafnvel fyrir 7. okt. 2023) mjög fljótlega málaður annaðhvort sem stuðningur við hryðjuverk eða gyðingaandúð. Enda er sókn besta vörnin. Margir í BNA myndu telja að næstum hvaða mótmæli sem er varðandi Ísrael samsvöruðu gyðingaandúð. Þó myndi varla neinn í BNA segja, t.d., að gagnrýni á kínversk yfirvöld sýndi kynþáttahatur gagnvart Kínverjum.

Sjálfur hef ég lent í því að fá fráleitar ásakanir um gyðingaandúð í umræðum sem þessum. Þá hef ég fallið í þá gildru að þurfa að útskýra vináttu mína við marga gyðinga, o.s.frv., s.s. farið í vörn. En það er undantekning ef ásakanirnar eru dregnar til baka. Margir sem hafa í gegnum árin mest mótmælt aðgerðum Ísraels gagnvart Palestínumönnum og stuðningi BNA eru einmitt gyðingar, þ. á m. Noam Chomsky og Norman Finkelstein, og hópar eins og Jewish Voice for Peace. Svo fráleitt sem það virðist, þá eru gyðingar sem verja málstað Palestínumanna oft ásakaðir af öðrum um sjálfshatur og gyðingaandúð.

Það má dást að því hve stuðningsmenn Ísraels eru flinkir við að sjá um sína hagsmuni í Washington, og það er skiljanlegt að eftir hræðileg örlög milljóna gyðinga í seinni heimsstyrjöld skyldu margir vilja vernda landið sem var skapað þar á eftir. En ef hugsað er til flóttamannanna sem hafa búið í næstum átta áratugi í Gasa og Vesturbakkanum, með minni mannréttindi en nokkur okkar myndi sætta sig við, og hvernig voldugasta þjóð í heimi styður þá sem kúga þetta fólk, þá er myndin svartari. Ljóst er að ef einhvern daginn næst réttlæti eða sanngirni í landadeilum Ísraela og Palestínumanna, þá er lítil von til að BNA valdi slíkum breytingum. Aðrar þjóðir verða að gera það – ef þær þora að takast á við BNA.

Höfundur hefur starfað sem lögmaður í Washington DC í tæp 30 ár.

Höf.: Gunnar Birgisson