Hraðpúsl Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Rut Steinarsdóttir æfa sig fyrir fyrsta mótið í hraðpúsli sem Hið íslenska púslsamband heldur á laugardag.
Hraðpúsl Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Rut Steinarsdóttir æfa sig fyrir fyrsta mótið í hraðpúsli sem Hið íslenska púslsamband heldur á laugardag. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mörgum þykir það skemmtileg dægradvöl og góð hugarleikfimi að raða saman stórum púsluspilum. En félagar í Hinu íslenska púslsambandi hafa tekið þennan leik upp á hærra stig og æfa nú stíft fyrir fyrsta mótið í hraðpúsli, sem haldið verður á laugardaginn

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Mörgum þykir það skemmtileg dægradvöl og góð hugarleikfimi að raða saman stórum púsluspilum. En félagar í Hinu íslenska púslsambandi hafa tekið þennan leik upp á hærra stig og æfa nú stíft fyrir fyrsta mótið í hraðpúsli, sem haldið verður á laugardaginn. Einnig munu nokkrir þeirra taka þátt í Norðurlandamóti í púsli í vor og heimsmeistaramóti, sem haldið verður á Spáni í haust.

„Þetta er auðvitað klassísk íslensk tilviljun,“ segir Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, einn af forsvarsmönnum Hins íslenska púslsambands, um aðdraganda þess að sambandið var stofnað fyrr á þessu ári.

Ágústa Dan Árnadóttir, vinkona Jóhönnu, tók þátt í heimsmeistaramótinu í hraðpúsli á síðasta ári ásamt Andreu systur sinni og Hrefnu Guðlaugardóttur. Ágústa kynntist þar norrænum púslurum sem eru að undirbúa að stofna norrænt púslsamband. Þegar heim var komið ræddi Ágústa við Jóhönnu um hvort ekki væri hægt að koma á formlegum púslfélagsskap.

„Við ákváðum að stofna til hittings og þar mætti fullt af fólki þannig að þetta vatt upp á sig og við höfum haldið þessu áfram,“ segir Jóhanna.

Hún segir að það sé nokkuð stór hópur sem hafi gaman af að púsla og skiptist m.a. á púslum gegnum síður á Facebook. „Það er til dæmis mikið púslað í minni fjölskyldu,“ segir Jóhanna.

Keppt verður í parakeppni á laugardaginn þar sem öll pör fá sama 500 bita púslið, sem fyrirtækið Margt og mikið hefur gefið, til að spreyta sig á. Pörin hafa tvær klukkustundir til að raða púslinu saman en það par sem er fljótast vinnur og bestu púslararnir eru innan við klukkutíma að því.

Blár flötur eða litrík dýr

Sextán lið eru skráð til leiks og hluti þeirra var að æfa sig í húsnæði Skáksambands Íslands í vikunni en þar fer mótið fram og púslsambandið hefur þar aðstöðu. Jóhanna Björg er varaforseti Skáksambandsins og starfar þar m.a. við skák­kennslu og uppbyggingu ungmennastarfs, einkum hjá stúlkum. Þá er hún í kvennalandsliðinu í skák.

Púslin sem lágu í bitum á borðunum voru af ýmsu tagi, bæði landslagsmyndir og teiknaðar myndir. Ágústa Dan var að raða upp púsli, sem blaðamanni sýndist við fyrstu sýn aðeins vera blár flötur en við nánari athugun sást að þetta var mynd af smábátahöfn og næturhimni með stjörnum.

Ágústa sagði að það væri ekki svo erfitt púsl, keppnispúslið sem þátttakendur fengu á heimsmeistaramótinu í fyrra, litrík teiknuð mynd af dýrum í skógi, hefði verið miklu snúnara.

Heimsmeistaramótið í hraðpúsli verður síðan haldið í Valladolid á Spáni í september og þangað stefnir íslenskur hópur en reiknað er með að nærri tvö þúsund manns taki þátt í mótinu frá fjölda landa.

Á mótinu er keppt í einstaklingskeppni, parakeppni og hópakeppni. Í einstaklingskeppninni þurfa keppendur að raða saman 500 bita púslum á innan við einum og hálfum tíma, í parakeppninni hafa pörin 75 mínútur til að ljúka púslinu og í liðakeppninni, þar sem fjórir eru í liði, þarf að púsla tveimur 1.000 bita púslum á þremur klukkustundum. Það þarf því að hafa hraðar hendur en sigurvegarinn í einstaklingspúslinu í fyrra þurfti aðeins 26 mínútur til að ljúka því.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson