Heiða Björg Hilmisdóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fulltrúar meirihlutans í borgarráði Reykjavíkur samþykktu í gær að veita vilyrði fyrir uppbyggingu félagslegra íbúða á fyrirhuguðum þéttingarreitum í Grafarvogi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kusu á móti tillögunum

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Fulltrúar meirihlutans í borgarráði Reykjavíkur samþykktu í gær að veita vilyrði fyrir uppbyggingu félagslegra íbúða á fyrirhuguðum þéttingarreitum í Grafarvogi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kusu á móti tillögunum.

Meirihlutinn samþykkti að veita Félagsbústöðum vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að átta íbúðum á nýju þróunarsvæði við Hverafold 7. Á sama þróunarsvæði var samþykkt að veita Bjargi íbúðafélagi vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 16 íbúðum.

Meirihlutinn samþykkti einnig að veita Bjargi íbúðafélagi vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 18 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Starengi og vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 14 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Veghús.

Þá samþykkti meirihlutinn að veita Búseta húsnæðissamvinnufélagi vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 52 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Sóleyjarima.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, höfnuðu öllum tillögum en borgarráðsfulltrúar meirihlutans samþykktu þær allar.

Markmiðið að fjölga íbúðum

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri segir í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins að undirbúningur uppbyggingaráforma í Grafarvogi eigi ekki að koma á óvart þar sem málið hafi verið í umræðunni tengt húsnæðisstefnu borgarinnar.

„Markmið verkefnisins er að fjölga íbúðum í borginni til að mæta þörf á húsnæðismarkaði. Í þessum anda stefnum við einnig að því að nýta innviði betur og skapa grunn fyrir árangursríka nærþjónustu. Samhliða þessu er einnig unnið að byggðaþróun í öðrum hverfum borgarinnar,“ segir Heiða.

Hún segir vilyrðin háð skýrum skilyrðum um skipulag þar sem lögformlegt samráð um deiliskipulag fyrir reitina þurfi að fylgja.

„Þau taka einnig mið af þróun mála, hvort sem drög að skipulagsáætlunum breytast meðan á samráðinu stendur eða ekki. Að úthluta vilyrðum á þessum tímapunkti skapar samstarfsgrundvöll með uppbyggingaraðilum og íbúum um þróun endanlegs skipulags.“

Hvernig bregst þú við gagnrýni Sjálfstæðisflokksins um að uppbyggingin í Grafarvogi hafi verið skipulögð í mikilli andstöðu við íbúa hverfisins? Hvernig hefur verið leitað eftir þeirra sjónarmiðum í þessu ferli?

„Við höfum verið í miklum samskiptum við íbúa Grafarvogs um þetta verkefni og hafa tillögurnar verið endurskoðaðar verulega í kjölfar athugasemda þeirra. Byggingarmagn hefur verið minnkað og íbúðum fækkað um meira en þriðjung,“ segir Heiða og bætir við:

„Í stóra samhenginu í byggðaþróun borgarinnar er þessi uppbygging í Grafarvogi ekki umfangsmikil. Orkureiturinn og Heklureiturinn, hvor um sig, bjóða upp á mun fleiri íbúðir en samtals í Grafarvogi, sem er þó mikilvægt skref í að byggðaþróun í borginni.“

Falla eigi frá áformunum

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir í samtali við Morgunblaðið að Sjálfstæðisflokkurinn vilji falla frá öllum uppbyggingaráformum meirihlutans í Grafarvogi og byrja frá grunni.

„Við höfum fyrst og fremst verið þeirrar skoðunar að það væri réttast að falla frá þessum uppbyggingaráformum í Grafarvogi og byrja upp á nýtt. Taka einn reit til umræðu í einu og vinna málið í góðri sátt við íbúa hverfisins. Það hefur verið mjög mikið vantraust og óánægja með núverandi fyrirkomulag,“ segir Hildur.

Sjálfstæðismenn í borgarráði lögðust gegn lóðavilyrðunum og sögðu ljóst að fyrirhuguð uppbygging og þétting byggðar í Grafarvogi hefði verið skipulögð í mikilli andstöðu við íbúa hverfisins.

„Nú hefur meirihlutinn samþykkt viljayfirlýsingar þess efnis að úthluta nokkrum lóðum í Grafarvogi inn í þessi niðurgreiddu húsnæðisverkefni, en það hafa engin áform verið kynnt um uppbyggingu á því húsnæði sem helst er kallað eftir í hverfinu,“ segir Hildur og nefnir í því samhengi íbúðir fyrir eldri íbúa.

Meirihlutinn bar fyrir sig í bókunum í borgarráði að mikil þörf væri á húsnæði á viðráðanlegu verði.

Er það ekki rétt hjá meirihlutanum?

„Það gengur ekki að hér sé öll áherslan á uppbyggingu á niðurgreiddu húsnæði í Reykjavík. Langstærstur hluti fólks reiðir sig á almenna húsnæðismarkaðinn, sem hefur reynst þungur, ekki síst vegna framboðsskorts á húsnæði, sem er afleiðing lóðaskorts síðustu ára,“ segir Hildur.

Hún segir að það þurfi að byggja upp heilbrigðan húsnæðismarkað þar sem er nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði. Þannig muni þröskuldurinn til að komast inn á markaðinn lækka.

Hildur segir að Grafarvogur sé fullbyggt hverfi og íbúar hafi ekki átt von á því að ráðist yrði í meiri uppbyggingu.

„Ég hef hins vegar alveg heyrt í íbúum hverfisins sem gætu hugsað sér einhverja frekari uppbyggingu en það þarf þá að svara þörfunum sem eru innan hverfisins og það þarf að virða hverfisandann í Grafarvogi. Fólk hefur ekki fengið það á tilfinninguna með verkefnin eins og þau líta út í dag,“ segir Hildur.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson