Hafsteinn Reykjalin Jóhannesson fylgdist með eldsumbrotunum á Reykjanesi: 1. apríl gos upp gaus, við Grindavíkur bæinn. Eins og fjandinn léki laus, en lést um miðjan daginn. Ísblómið með var víst ekki aprílgabb og varð það Jóni Jens Kristjánssyni að …

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Hafsteinn Reykjalin Jóhannesson fylgdist með eldsumbrotunum á Reykjanesi:

1. apríl gos upp gaus,

við Grindavíkur bæinn.

Eins og fjandinn léki laus,

en lést um miðjan daginn.

Ísblómið með var víst ekki aprílgabb og varð það Jóni Jens Kristjánssyni að yrkisefni:

Beikon ísblóm eitt er

Bónus sem færir mér

eflaust við eitthvað rugl

orðið var til

varast slíkt verð ég nú

virðist það útúr kú

loks í því lífræna

lendir það hér.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir yrkir jákvætt um ellina:

Þó ellin læðist að oss hljóð

og afturför sé mikil synd

er fjarsýnin þó frekar góð

hún fegrar okkar spegilmynd.

Í kvöld verður fundur Kvæðamannafélagsins Iðunnar í Tónskóla Sigursveins kl. 20. Kennir þar meðal annars kveðskapar í fornaldarsögum Norðurlanda, skoskra þjóðlaga, fuglavísna og bragfræðihorns. Að auki fastir liðir á við, samkveðskap, litla hagyrðingamótið og afla Skáldu. Ólína Andrésdóttir orti eitt sinn:

Hjá þér, Iðunn, mild og mær,

mörg var staka kveðin,

söngnum stýrðu systur tvær,

samúðin og gleðin.

Látra-Björg orti um Kristján Bastján, kaupmann á Akureyri og þótti dýrseldur á tóbak:

Tjáir ekki að biðja Bast,

Bastján kemur ekki fyrst

laufið selur hann með hast

og hastarlega sver við Krist.

Hún orti líka í kerskni um Jón nokkurn, er hundur sveikst frá:

Jón kallar hátt á hund

hundurinn gegnir ei.

Ei ber hann ljúfa lund,

lundillt er þetta grey,

greyið, sem hljóðar hátt,

hátt eins og grenji ljón,

ljóns ber hann geðið grátt,

gráttu’ ekki rakkann Jón.

Og Eyjólfur Ó. Eyjólfsson:

Ég fyrrum var fremstur og mestur

og í fræðunum dýpstur og bestur

en nú veit ég það eitt

að ég veit ekki neitt

og verð því að herða minn lestur.