Baksvið
Guðm. Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Læknar eru ósáttir við reglugerð sem Alma Möller heilbrigðisráðherra setti í janúar um vottorð, álitsgerðir, faglegar upplýsingar og skýrslur heilbrigðisstarfsmanna. Segja þeir að skilgreining á hugtakinu vottorð í reglugerðinni sé ekki í samræmi við tillögu vinnuhóps sem heilbrigðisráðherra skipaði og samdi upphaflegu drögin að reglugerðinni og hún sé einnig rýmri en lög um heilbrigðisstarfsmenn gera ráð fyrir.
Í reglugerðinni er skilgreining á vottorði eftirfarandi: „Lýsing heilbrigðisstarfsmanns á samskiptum sínum og sjúklings, sem hann hefur sjálfur veitt heilbrigðisþjónustu og veit sönnur á eða byggir á því sem fram kemur í sjúkraskrá sjúklingsins. Vottorð er gert að beiðni sjúklings eða opinberra aðila.“
Í drögum starfshópsins er skilgreiningin þannig: „Lýsing heilbrigðisstarfsmanns á samskiptum sínum og sjúklings sem hann hefur sjálfur veitt heilbrigðisþjónustu og byggir á því sem hann veit sönnur á og fram kemur í sjúkraskrá sjúklings. Vottorð eru gerð að beiðni sjúklings eða opinberra aðila.“
Í bréfi sem Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands (LÍ), hefur sent heilbrigðisráðherra segir að LÍ telji það mjög miður að heilbrigðisráðuneytið skuli, þrátt fyrir endurteknar ábendingar lækna, hafa ákveðið að skilgreina hugtakið vottorð rýmra en bæði lagaákvæðið sem reglugerðin byggir heimild sína á og læknar hafi óskað eftir.
Vísað er í bréfinu til minnisblaðs, sem LÍ tók saman í febrúar sl. fyrir Félag íslenskra heimilislækna vegna málsins. Þar kemur fram að í 1. málsgr. 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn segi að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn skuli votta það eitt er þeir vita sönnur á. LÍ telji það í beinni andstöðu við þetta skýra orðalag laganna, að reglugerðin um vottorð o.fl. leyfi læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum að gefa út vottorð sem byggist eingöngu á upplýsingum í sjúkraskrá, engu öðru.
„Það er augljóst og hlýtur að liggja í hlutarins eðli að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn vita ekki sönnur á því, sem fram kemur í sjúkraskrá og annar heilbrigðisstarfsmaður hefur ritað.“
Í berhögg við siðareglur
Í bréfinu til heilbrigðisráðherra er einnig vísað til þess að í reglugerðinni segi að læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður skuli ekki staðhæfa annað í vottorði en það sem hann hefur sjálfur sannreynt eða byggir á því sem fram kemur í sjúkraskrá sjúklings. Það sé að mati LÍ of rúm túlkun á hugtakinu vottorð að leyfa að byggja eingöngu á færslum annarra í sjúkraskrá og það stangist einnig á við annað ákvæði í reglugerðinni þar sem segir að læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum beri að gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna og gefa aðeins út það eitt er þeir vita sönnur á.
Þá segist LÍ einnig vilja benda á að samkvæmt 15. gr. siðareglna félagsins skuli læknir vera óvilhallur í vottorðagjöf. Í vottorði komi fram hvert er tilefni þess og tilgangur og það hljóti að staðfesta það eitt sem máli skiptir hverju sinni og aðeins það sem læknirinn hefur sjálfur gengið úr skugga um.
„LÍ telur útilokað að skilja öðruvísi orðalagið staðfesta ... aðeins það sem læknirinn hefur sjálfur gengið úr skugga um öðruvísi en svo að læknir geti ekki gefið út vottorð sem hann byggir eingöngu á skráningu annarra í sjúkraskrá. Það hefur hann sjálfur ekki getað gengið úr skugga um. Ekki verður því betur séð en að skilgreiningin á hugtakinu vottorð sé að gera læknum skylt að gefa út vottorð sem ganga mögulega í berhögg við ákvæði siðareglna LÍ,“ segir síðan í bréfinu.
Of mörg vottorð
Starfshópurinn, sem fyrr er getið, var skipaður árið 2022. Í skýrslu sem hann skilaði sama ár er m.a. vísað til þess að á aðalfundi Félags íslenskra heimilislækna árið 2020 hafi félagið skorað á heilbrigðisráðherra að láta endurskoða tafarlaust fyrirkomulag vottorðamála hér á landi sem væru í ólestri og orðin mjög íþyngjandi í starfi heimilislækna.
Ástæðan sé að hinar ýmsu stofnanir, tryggingafélög, lífeyrissjóðir og lögfræðingar, auk annarra aðila, krefjist vottorða í töluverðum mæli. Stærstur hluti heilbrigðiskerfisins sé innan almannatrygginga og eðlilegt að settar séu skýrar reglur um hvað skuli votta þaðan og hvað ekki.
Í skýrslunni segir að reglur varðandi vottorðamál séu mun skýrari annars staðar á Norðurlöndunum. Í Svíþjóð geti tryggingafélög, lífeyrissjóðir og lögfræðingar t.d. ekki farið fram á vottorð eins og hér. Einnig geti atvinnuveitendur og skólar ekki farið fram á vottorð nema veikindi standi yfir í meira en viku.