„Ég undrast þessi áform verulega og ekki síður afstöðu Framsóknarflokksins sem sleit nýlega meirihlutasamstarfi vegna ágreinings um flugvöllinn. Nú situr flokkurinn hjá og ég furða mig á því,“ segir Snorri Másson alþingismaður eftir að borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti tillögu borgarfulltrúa Viðreisnar um að færa umferð einkaþotna og almennt kennslu- og þyrluflug frá Reykjavíkurflugvelli.
Hann segist hugsi yfir þeim ummælum Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur borgarfulltrúa Viðreisnar að það þurfi að hætta þessari draumapólitík um að flugvöllurinn sé á förum.
„Hvernig getur það verið draumapólitík hjá borgarfulltrúa Reykvíkinga að kippa stoðunum undan mikilvægri efnahagslegri starfsemi í Reykjavík sem getur haft mjög víðtækar og afdrifaríkar afleiðingar á atvinnulífið í borginni og landinu öllu?“
Snorri segir að fágætisferðaþjónusta sé það sem Íslendingar eigi að leggja áherslu á. Sá hópur sem lendir á Reykjavíkurflugvelli sé einn öflugasti viðskiptavinahópurinn og horfi til þess að tveggja klukkustunda munur er á því á hvorum staðnum er lent.
„Ef meirihlutanum tekst að girða fyrir þetta er það algjörlega andstætt því að hér verði áfram hægt að taka á móti þeim sem mest skilja eftir sig að lokinni heimsókn til landsins. Þetta er óskiljanleg aðgerð eins og þetta snýr að mér sem þingmanni Reykvíkinga.“
Engin lausn fyrir þyrluflugið
Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður segir það mjög mikilvægt í allri flugkennslu að nemarnir fljúgi í stjórnuðu loftrými. Umferðin á Keflavíkurflugvelli leyfi ekki að koma fyrir kennsluflugi á litlum flugvélum inn í þá miklu umferð sem þar er.
„Þeir sem eru með þyrluflugið hafa ítrekað óskað eftir samtali við borgina um einhverja lausn á sínum málum en hafa ekki fengið áheyrn. Það er sérstök nálgun gagnvart þessum atvinnurekstri að svara ekki beiðnum um viðtal um lausnir og samþykkja svo bara bókun um að þyrluflugið fari.“
oskar@mbl.is