Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Óskandi væri að vitræn umræða færðist í gjaldmiðlamál í landi hér. Umræðan á að snúast um gjaldmiðil sem greiðslumynt, varðveislumynt og lántökumynt.

Vilhjálmur Bjarnason

Eitt sinn heyrði ég um barn sem reyndist erfitt að feðra. Um það var sagt að barnið væri fjölgetið. Á sama veg hefur ritara verið hugleikið fjölmyntahagkerfi.

Peningaviðskipti eiga sér ekki langa sögu á Íslandi. Takmörkuð peningaviðskipti hafa sennilega verið við lýði í tvær aldir. Við fornminjauppgröft finnst vart gangsilfur eða göfugri málmar.

Sennilegt er að í Sparisjóði Múlasýslna, sem stofnaður var á Seyðisfirði 1868, hafi verið stunduð peningaviðskipti. Viðskipti sem stunduð voru á Seyðisfirði voru fjölbreytt, innlend viðskipti með danska ríkisdali, viðskipti með síld í sænsk/norskum ríkisdölum og viðskipti með sauði og hross í enskum pundum. Krónur urðu gjaldmiðlar á Norðurlöndum árið 1874.

Orðið seðlabanki kemur fyrst fyrir í Alþingistíðindum árið 1847 í ræðu konungsfulltrúa. Annars var umræðan um þjóðbanka. Í Bandaríkjunum höfðu mistraustir banka seðlaútgáfu með höndum. Gengi „dollars“ innan Bandaríkjanna var ekki alltaf á nafnverði þar til Sameignlegur varasjóður (Federal Reserve) varð til í Bandaríkjunum árið 1913.

Fríhöfnin í Keflavík

Viðskipti í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli voru um margt svipuð viðskiptum á Seyðisfirði 1868. Í komuverslun gátu farþegar losað sig við afgangsseðla úr ferðalaginu, kassi gjaldkera tók skilmerkilega við hverri mynt fyrir sig og að lokum var greitt með ávísun eða greiðslukort. Fullkomið fjölmyntakerfi. Nú virðast viðskipti að mestu fara fram í sjálfsafgreiðslu og með greiðslukortum. Tekið er við greiðslukortum útgefnum í mismunandi löndum. Því eimir eftir af fjölmyntakerfi í Fríhöfninni.

Efnahagssvæðið Djúpivogur

Um langt skeið var staðbundin gangmynt við lýði í landinu. Það voru „brauðpeningar“. Ekki er ritara kunnugt um hvernig gengi gagnvart öðrum myntum var ákvarðað. Eftir miðja síðustu öld var gefin út staðbundin mynt í Berufirði. Útgefandi var Kaupfélag Berufjarðar. Útgefnir seðlar voru skuld Kaupfélagsins. Eftirlitsmaðurinn með þessari seðlaútgáfu var sóknarpresturinn.

Seðlar kaupfélagsins ganga kaupum og sölu á háu verði hjá myntsöfnurum.

Ritara er ekki kunnugt um staðbundna seðlaútgáfu nú um stundir. Því eru almennt notaðir seðlar úr útgáfu Seðlabanka Íslands og greiðslukort sem samþykkt eru í alþjóðlegum viðskiptum. Kortin hafa þar með ígildi peninga, þar sem þau eru almennt samþykkt til lúkningar skulda.

Fjölmyntasvæði

Nú um stundir er mjög til siðs að ræða við hámenntaða hagfræðinga, sem hafa enga skoðun, en aðeins rökstutt álit. Þegar hlustað er með athygli fer rökhyggjan út í veður og vind en skoðunin kemur í ljós. Ríkisskattstjóri er aldrei spurður um staðreyndir máls.

Það kemur í ljós að 1% fyrirtækja á Íslandi er með 30% veltunnar og gerir rekstur sinn upp í starfrækslumyntum sínum. Starfrækslumynt er talin vera sú mynt sem skilar mestum tekjum.

Örfá fyrirtæki eru með uppgjör í bandaríkjadölum. Landsvirkjun og Icelandair eru fyrirferðarmest.

Sjávarútvegsfyrirtæki gera upp í evrum. Þau eru mjög á móti aðild að Evrópusambandinu en nýta alla kosti aðildar, þar á meðal myntina.

Fyrirtækin afla tekna í erlendri mynt, verkafólk fær greitt í íslenskum krónum og notar íslenskar krónur til að greiða fyrir kaffi í veitingahúsum og vörur í stórmörkuðum.

Engin mynt í veröldinni, meðal siðaðra þjóða, nýtur jafn mikillar verndar og íslenska krónan. Það er í raun ótrúlegt að það þurfi að vernda jafn traustan gjaldmiðil. Íslensk alþýða er nauðbeygð til að nota íslenska krónu sem lántökumynt. Íslensk fyrirtæki hafna íslenskri krónu sem lántökumynt.

Væri það eðlilegt að Málmey í Svíþjóð væri afmarkað myntsvæði? Íbúar eru jafn margir og íbúar Íslands, án ferðamanna.

Norðausturkjördæmi

Ekkert kjördæmi er jafn fjölmyntavætt og Norðausturkjördæmi. EUR, USD og ISK eru í fullri notkun. Í engu kjördæmi er jafn mikil andstaða við aðild að Evrópusambandinu.

Í Norðausturkjördæmi vantar ekkert upp á fullkomið fjölmyntakerfi, nema að Krónan og Bónus selji vörur sínar í þeirri mynt sem viðskiptavinurinn velur. Sennilega er neysluvöruhluti Festi hf. og Haga hf. með starfrækslumynt sem heitir evra, ef heimilt væri að telja sem starfrækslumynt þá mynt sem innkaupin eru gerð í.

Góður hluti viðskiptavina Bónus á Egilsstöðum veit ekkert um íslenska krónu, því krónan er starfrækt í vernduðu umhverfi sem jarðarbúar vita ekkert um.

Þróun gjaldmiðla

Frá þeim tíma sem evra varð til, það er í janúar 1999, hafa gjaldmiðlar hækkað sem hér segir í íslenskum krónum, (án nafnvaxta):

Bandaríkjadalur 94%

Breskt pund 51%

Svissneskur franki 203%

Evra 80%

Verðtryggð króna 248%

Sennilega er hagstæðri þróun erlendra gjaldmiðla velt inn í íslenskt verðlag og íslensk alþýða nýtur þess með beinum hætti í lífskjörum. Þó eru áhugamenn um svissnesk úr og súkkulaði ekki vel haldnir.

Eftir stendur spurningin: Hvenær eru tekjur í erlendum gjaldmiðli og hvenær eru tekjur ekki í erlendum gjaldmiðli? Það er efinn eins og hjá Jóni Hreggviðssyni, sem vissi ekki hvort hann hefði drepið mann eða hvort hann hefði ekki drepið mann.

Sjómenn fá greiddan aflahlut í íslenskum krónum en þó grundvallast aflahluturinn að mestu leyti á evrum eða bandaríkjadölum.

Hræsni

Umræða um gjaldmiðlamál á Íslandi einkennist af mikilli hræsni. Mest er hræsnin þegar hálærðir hagfræðingar vitna.

Mærin Aldinblóð segir: „Ég er viss um að þú ert að narra mig. Þú ert meira að segja að hugga mig og það er hundrað þúsund sinnum svívirðilegra en að láta narra sig.“

Hálærðu hagfræðingarnir narra og hugga til skiptis. Niðurstaðan er sú að ekki kemur vitglóra frá þeim fyrir sjónir almennings. Flestir nærast á vísdómi sjálflærðra hagfræðinga. Þeir eru ekki síður misvitrir en þeir hálærðu.

Það er eins og þegar sósíalistinn ræddi um mikilvægi niðursuðu og skuttogara fyrir Íslendinga í kosningum 1971. Sósíaldemókratinn spurði: „Heldur þú að framtíð þjóðarinnar ráðist af niðursuðu og skuttogurum?“ Auðvitað vann misvitri sósíalistinn kosningarnar.

Óskandi væri að vitræn umræða færðist í gjaldmiðlamál í landi hér. Umræðan á að snúast um gjaldmiðil sem greiðslumynt, varðveislumynt og lántökumynt.

Höfundur var alþingismaður og lektor í fjármálum.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason