Viktoría Jensdóttir
Viktoría Jensdóttir
Rannsóknin Lífsgæði eftir krabbamein býður 16.000 Íslendingum að taka þátt til að bæta líf og heilsu krabbameinsgreindra.

Viktoría Jensdóttir

Hefur þú fengið boð um að taka þátt í rannsókninni Lífsgæði eftir krabbamein? Þá ertu í hópi þeirra 16.000 Íslendinga sem hafa tækifæri til að leggja sitt af mörkum til að bæta líf og heilsu þeirra sem greinast með krabbamein.

Hvers vegna skiptir máli að taka þátt?

Fyrir þá sem greinast með krabbamein breytist svo margt. Fyrst þarf að takast á við meðferðirnar en svo þegar þeim lýkur erum við kannski ekki alveg eins og við vorum. Þetta tengist inn á vitundarvakningu Krafts stuðningsfélags, „Ég á lítinn skrítinn skugga“, en Ragnhildur Þóra lýsir þessu vel:

„Skugginn birtist fyrst sem hræðslan við að deyja frá strákunum mínum en skuggi sem liggur þungt á mér í dag er óttinn við að endurgreinast.“

Við sem þekkjum krabbamein, hvort sem við höfum greinst sjálf eða staðið með ástvinum í baráttunni, eigum öll okkar skugga. Skugginn er alltaf til staðar – stundum stór, stundum nánast ósýnilegur, en ávallt hluti af ferðalaginu.

Hvað gerist með þátttöku þinni?

Með því að taka þátt í rannsókninni leggur þú þitt af mörkum til að:

Auka þekkingu á langtímaáhrifum krabbameins og meðferða

Bæta heilbrigðisþjónustu fyrir fólk í krabbameinsmeðferð

Þróa nýja þjónustu fyrir þá sem glíma við skert lífsgæði eftir krabbamein

Einfalt að taka þátt

Þátttaka felst í að svara rafrænum spurningalista (eða óska eftir honum á pappír) og tekur aðeins um 10 mínútur. Allar upplýsingar eru varðveittar á dulkóðuðu formi og rannsóknin hefur fengið samþykki Vísindasiðanefndar og Persónuverndar.

Hvernig nýtast niðurstöðurnar?

Rannsóknin er samvinnuverkefni Krabbameinsfélags Íslands, Háskóla Íslands, Landspítala og sérfræðings við hollenskar rannsóknarstofnanir. Niðurstöðurnar munu verða grundvöllur að bættri þjónustu og stuðningi við þá sem greinast með krabbamein, bæði á meðan á meðferð stendur og eftir að henni lýkur.

Þitt framlag skiptir máli

Hvort sem þú ert í hópi þeirra 10.000 sem hafa greinst með krabbamein eða í 6.000 manna samanburðarhópnum er þátttaka þín ómetanleg. Saman getum við byggt upp meiri skilning á raunverulegum áhrifum krabbameins á daglegt líf og lífsgæði.

Ég hef fengið boð og hlakka til að svara þessum spurningum og leggja mitt af mörkum.

Taktu þátt – því lífið er núna.

Höfundur er formaður Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

Höf.: Viktoría Jensdóttir