Hermann Nökkvi Gunnarsson
hng@mbl.is
Víðtækar tollahækkanir Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á innflutningi til Bandaríkjanna frá löndum um allan heim vöktu hörð viðbrögð víða.
Stjórnvöld í Kína sögðu að þau „væru algjörlega á móti“ nýjum tollum á útflutning sinn og hétu „gagnráðstöfunum til að verja sinn eigin rétt og hagsmuni“.
Tollarnir eru „mikið áfall fyrir heimshagkerfið“, varaði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, við.
Hún sagði sambandið vera „að undirbúa frekari gagnráðstafanir“ en bætti við að það væri „ekki of seint að takast á við málin í gegnum samningaviðræður“.
Það voru ekki bara stjórnmálamenn sem brugðust illa við því bandarískir hlutabréfamarkaðir lækkuðu skarpt. S&P 500-vísitalan lækkaði um 4,8% sem er mesta lækkunin á einum degi síðan í mars árið 2020, en það var vegna viðbragða við Covid-19. Hlutabréfaverð Apple, Nvidia, Amazon og META lækkaði verulega. Miklar lækkanir voru á hlutabréfamarkaði á Íslandi í gær einnig. Úrvalsvísitalan lækkaði um tæp 4% en hefur lækkað um rúm 12% frá ársbyrjun. Mestu lækkanir voru á bréfum JBT Marel (-7,83%) og Oculis (-6,56%) sem eru með talsverðan rekstur í Bandaríkjunum.