Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Leitin að húsnæði fyrir Konukot
hefur staðið mjög lengi,“ segir
Kristín I. Pálsdóttir framkvæmdastjóri Rótarinnar sem sér um rekstur Konukots samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg. Í skipulagsgátt hefur verið í grenndarkynningu byggingarleyfisumsókn fyrir 2. og 3. hæð Ármúla 34 fyrir tólf skjólstæðinga, en kynningunni er nú lokið.
„Þetta er hugsað sem bráðabirgðahúsnæði þar til annað húsnæði finnst,“ segir Kristín og bætir við að það séu kostir og gallar við húsnæðið. „Að mörgu leyti er það ekki illa staðsett, því konurnar hafa aðgang að Skjólinu í Grensáskirkju, sem er dagvist, rekin af hjálparstofnun kirkjunnar og í göngufæri frá Ármúlanum.“
Óhressir nágrannar
Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær eru nágrannar við húsnæðið í Ármúla ekki ánægðir með að fá Konukot á svæðið og óttast rask vegna skjólstæðinganna, sem þurfa að vera annars staðar en í húsnæðinu sjö tíma daglega. Einn nágranninn hefur fengið lögmenn til að senda Reykjavíkurborg bréf vegna málsins og lýsir þar áhyggjum af því að fá reksturinn í hverfið.
„Þetta kemur mér ekki á óvart,“ segir Kristín, sem segir það frekar regluna en hitt að nágrannar hafi áhyggjur af stuðningshúsnæði af þessum toga. Reynslan í Eskihlíð hafi þó verið góð og þær hafi fundið fyrir velvilja nágrannanna. „Hver úrvinnsla þessara umsagna verður er alveg í höndum Reykjavíkurborgar og við verðum að sjá hvað verður.“