Gunnar Hrafn Birgisson
Ofbeldi skýrist af mörgum og flóknum samverkandi þáttum. Meðal þeirra þátta eru reynsla af misþyrmingum og áföllum, erfðir, persónuleikaraskanir, fátækt, rétttrúnaður, stríð, vímuefnaneysla og lagaumgjörð. Þó að ofbeldi tengist kynhlutverkum er kyn aðeins einn þeirra þátta sem máli skipta. Kyn hefur jákvæða merkingu en ofbeldi neikvæða. Kynhegðun birtist í nánd, ástleitni og kynlífi. Bundið við ofbeldi fær kyn neikvæðan blæ.
Þó að kynbundið ofbeldi (KBO) sé orðið þekkt fyrirbæri er óstaðfest að kyn valdi ofbeldi, en vanda þarf til slíkra orsakaskýringa. Sem fræðilegt hugtak skortir KBO réttmæti. En hugtakið hefur pólitískan tilgang og er í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynja skilgreint svona: „Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.“
Það að nota orðið ofbeldi til að skýra KBO kallast hringskýring. Það teljast ótæk rök. Hugtakið KBO spannar mjög vítt svið. Undir það gætu fallið móðgun eða það að stíga á tá einhvers og allt yfir í mansal eða stríðshörmungar. Það að tala um ofbeldi á grundvelli kyns sem „gæti leitt til“ skaða eða þjáninga er umhugsunarvert. Hvaða ofbeldi leiðir ekki til skaða eða þjáninga?
Í jafnréttislögunum er látið ósagt hvaða kyn teljist vera bundið við ofbeldi. Auðvitað gefur þó staðalímynd karlkynið í skyn. KBO bendir til sekra karla og saklausra kvenna. Sú skautun kippir stoðum undan mögulegri og mikilvægri samstöðu kynja í baráttu gegn ofbeldi. Við höfum almenn hegningarlög og barnaverndarlög sem væri hægt að ná samstöðu um og styrkja verkferli eftir.
Þó að ofbeldisvandinn sé mikill beitir aðeins brot af körlum og konum ofbeldi. Opinberlega fremja karlar mun meira ofbeldi en konur. En kynjamunur á ofbeldi er minni í nánum samböndum (ONS). Höldum því til haga að flest pör leysa ágreining án ofbeldis.
Félagssálfræðingurinn dr. Donald Dutton (drdondutton.com) hefur, ásamt samstarfsfólki við British Columbia University í Kanada, rannsakað ONS í hálfa öld. Þau söfnuðu gögnum úr hundruðum rannsókna. Þær sýna að ONS finnst í öllum gerðum sambanda. Um 98% karla og kvenna voru á móti stjórnun á maka með ofbeldi. Nær 2-8% karla og kvenna hafði þolað ONS nýliðin ár. Um 21% kvenna hafði þolað ofbeldi á ævinni en um 10% karla.
Í parasamböndum er gagnkvæmt ONS algengasta formið (50%). Sömu einstaklingar teljast þá vera gerendur og þolendur. Næst kemur það sem konur beita (35%) og loks karlar (15%). Ofbeldi karla á konum er því ekki algengasta formið eins og margir halda. Alvarlegir líkamlegir áverkar voru hjá konum í 2,7% tilvika og körlum í 2,0%. Þeir misþyrma aðallega með líkamskröftum og sumar konur gera það líka en þær meiða þó oftar með hlutum, t.d. með högg- og eggvopnum.
Umræða um karlkyns þolendur og kvenkyns gerendur er lítil og virðist stundum nánast tabú. Þetta fólk burðast oft með skömm og því þykja spor þung eftir hjálp. Þessi tilvera kvennanna er á skjön við sjónarmið í baráttu kvenna gegn feðraveldi. Fyrir vikið fá þær síður áheyrn. Stíf norm um karlmennsku í samfélaginu gera sumum körlum sem þola ofbeldi það erfitt að leita hjálpar. Þeir sem þó opna sig mæta gjarnan vantrú eða þeim er vísað frá og sagt að þeir séu gerendurnir. Fyrir vikið hefur þessi vandi verið vantalinn í opinberum skrám.
Ef satt væri að karlkyn ylli ofbeldi beittu feður börn sín ofbeldi en mæður gerðu það lítið eða ekki. Nýlegar tölur frá Barnavernd Reykjavíkur um alvarlegt ofbeldi á börnum sýna annað. Gerendur voru feður (38%), mæður (34%), báðir foreldar (13%) og stjúpfeður (12%).
Með KBO er látið í veðri vaka að karlar beri ofbeldiskyn. Þannig eru þeir sem heild gerðir samábyrgir fyrir ofbeldi. Við það léttist ábyrgð af raunverulegum gerendum. Þeir gætu sagst bara hafa verið að haga sér eftir almennu kyneðli karla.
Vinnu í ofbeldismálum er brýnt að haga út frá bestu þekkingu og horfa til málsatvika óháð kyni gerenda og þolenda. Kanna þarf atvik vel og greina mál vandlega frá báðum hliðum. Leita faglegra lausna og varast sleggjudóma. Ef einföld sýn á vonda karla og vesalings konur stýrir för fara málin afvega.
Kennsla um feðraveldi er mikið notuð til að betra karlkyns gerendur og hindra ofbeldi þeirra. Rannsóknir sýna að það virkar ekkert. Sérhæfð sálfræðimeðferð hefur skilað marktækum árangri. Hún miðast við gerendur óháð kyni og raunverulegar aðstæður þeirra, en ekki látið eitt yfir alla ganga.
Um KBO-viðhorf næst seint almenn samstaða hjá konum og körlum. Þau beina spjótum almennt að kyni karla, þ.e. gegn nær hálfu mannkyni. Það sundrar frekar en stuðlar að bandalagi kynja í baráttu gegn ofbeldi.
Þó að tilgangurinn sé annar ramba viðhorf um KBO á barmi kynþáttahyggju. Þau lýsa fordómum í garð drengja og karla almennt, þ.e. að þeir hafi meðfætt líkamlegt ofbeldiskyn. Það eru öfgar. Vert er að huga að áhrifum þessara viðhorfa á drengi, s.s. á sjálfsmyndir þeirra sem eru í mótun.
Höfundur er sérfræðingur í klínískri sálfræði.