Björg Ásta Þórðardóttir er nýr framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Hún tekur við starfinu af Þórði Þórarinssyni sem hefur gegnt því í ellefu ár. Þetta kemur fram í tilkynningu flokksins.
Björg Ásta nam lögfræði við Háskóla Íslands og hefur m.a. starfað sem yfirlögfræðingur Samtaka iðnaðarins, lögfræðingur hjá Félagi atvinnurekenda og fulltrúi hjá Málflutningsstofu Reykjavíkur. Þá hefur hún starfað hjá lögreglunni á Suðurnesjum og síðast sem aðstoðarmaður Guðrúnar Hafsteinsdóttur, nýs formanns Sjálfstæðisflokksins, þegar hún var dómsmálaráðherra.
Framkvæmdastjóraskiptin fóru fram á miðstjórnarfundi flokksins í gær. Á fundinum færði Guðrún Þórði bestu þakkir fyrir hans starf. Þórður mun starfa við hlið nýs framkvæmdastjóra næstu vikurnar og sem ráðgjafi flokksins næstu mánuði.