Valgerður Kristjánsdóttir fæddist 5. nóvember 1932. Hún lést 15. febrúar 2025.

Útför Valgerðar fór fram í kyrrþey.

Við systkinin vorum svo lánsöm að fá að alast upp nokkra metra frá húsi ömmu og afa. Ef vel viðraði þurfti ekki einu sinni nauðsynlega að fara í skó til að skjótast yfir til ömmu, reka nebbann inn í eldhús og athuga hvernig kökur hún ætti þann daginn.

Á kveðjustundu birtast minningabrot fyrir hugskotssjónum, mörg þeirra hljóma hversdagsleg en ylurinn sem fylgir þeim og vermir hjartarætur mun fylgja okkur um ókomna tíð.

Að skoða frælista garðyrkjufélagsins á vorin til að velja okkar eigin fræ sem við settum svo niður með ömmu og hugsuðum eftir hennar leiðsögn um plönturnar sem komu upp. Amma að lesa fyrir okkur. Amma í vorverkum í garðinum og úthlutar okkur beði og afleggjurum svo við getum gert „okkar eigin smágarð“. Að setja niður og taka upp kartöflur með ömmu. Smákökubakstur fyrir jólin með ömmu. Laufabrauðsútskurður. Að skoða jólaskrautið þegar við komum yfir til þeirra á aðfangadagskvöld og sjá hvar jóladvergarnir þrír væru staðsettir þetta árið. Amma að syngja með útvarpsmessunni á sunnudögum. Sunnudagskaffihlaðborð, dúkað borð með fínustu bollum, glösum og kökufötum, hlaðin kökum, þ. á m. hringkökunni með karamellukreminu. Amma að baka bestu pönnsur í heimi. Að sitja við eldhúsborðið hjá ömmu og æfa „fullorðinsskrautskrift“. Gæsaspilið og langar stundir að spila lönguvitleysu við ömmu. Amma standandi yfir pottunum. Kvöldkaffi hjá ömmu og þá auðvitað heitt vatn og mjólk með. Stopp hjá ömmu til að kyssa hana bless áður en farið var á sjóinn. Góðar stundir í saumastofunni. Þegar við opnuðum verslun, héldum tombólu og seldum egg við gamla grásleppuskúrinn var amma alltaf dyggasti (tja, og næstum eini) viðskiptavinurinn sem keypti af okkur. Amma að horfa á eftir okkur heim þegar það var komið myrkur.

Amma átti alltaf gómsætar kökur, margar þeirra verða alltaf í uppáhaldi. Eftir að fullorðinsaldri var náð og planið var að fá uppskriftir hjá ömmu vandaðist oft málið. Sumar kökurnar bakaði hún oft bara eftir hendinni, það var nefnilega svolítið misjafnt hvað var til að baka úr í hvert skipti og helsta heilræði ömmu var: „Hafa skal það sem hendi er næst og hugsa ekki um það sem ekki fæst.“

Takk fyrir allt, elsku amma.

Fræ í frosti sefur,

fönnin ei grandar því.

Drottins vald á vori

vekur það upp á ný.

Elska hans gefur

öllu líf og skjól.

Guðs míns kærleiks kraftur,

kom þú og ver mín sól.

(Þýð. Sigurbjörn Einarsson)

Ömmubörnin í hinum bænum,

Guðrún, Páll,
Kristján og Hafþór.