Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Uppbygging íbúðarhúsnæðis á bensínstöðvarlóðum í Reykjavík heldur áfram. Nú er röðin komin að lóð Orkunnar, áður Skeljungs, við Birkimel.
Þetta verða eflaust eftirsóttar íbúðir enda í nágrenni við Landsbókasafnið, Eddu, Hótel Sögu, Melaskóla og Háskólabíó. Umhverfis- og skipulagsráði var falið að afgreiða málið.
Í kynningu á nýju deiliskipulagi, sem unnið er af arkitektastofunni Nordic Office of Architecture, kemur fram að stærð lóðarinnar er 1.452 fermetrar og byggingareiturinn er 880 fm. Áformað er að byggja 4-5 hæða hús með 42 íbúðum af ýmsum stærðum og gerðum. Byggingin verður brotin upp og skipt í þrjá hluta sem stallast og hliðrast til meðfram Birkimel, eins og segir í kynningunni. Í henni eru birtar tölvumyndir sem sýna drög að útliti.
Byggingamagn ofanjarðar verði 4.120 fm og neðanjarðar 1.452 fm, eða samtals 5.572 fermetrar. Sameiginlegar miðlægar þaksvalir verði 222 fm. Nú er á lóðinni eitt hús, 100 fermetra bensínstöð og veitingastaður. Húsið verður fjarlægt og sömuleiðis bensíndælur. Nýtingarhlutfall fari úr 0,05 í 3,84.
Samið við borgina um fækkun
Deiliskipulagsbreytingin er í samræmi við samkomulag Reykjavíkurborgar við olíufélögin um að fækka bensínstöðvum og byggja í staðinn íbúðir. Samkomulagið nær til bensínstöðvarlóðarinnar að Birkimel 1 en það var undirritað í júní 2021 af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Lóðarhafi var Skeljungur hf., sem síðar framseldi réttinn.
Hefðbundinn lóðarleigusamningur til 75 ára fyrir Birkimel 1, sem verður leigulóð, verður gefinn út.
Samkvæmt samkomulaginu er lóðarhafa heimilt að koma fyrir íbúðum ásamt atvinnuhúsnæði á jarðhæð. Það er áformað næst Sögu.
„Markmiðið með deiliskipulagsbreytingunni er að fjölga íbúðum og auka við þjónusturými í hverfinu og þar með styrkja umhverfið og samfélagið á miðsvæðinu,“ segir m.a. í kynningunni.
Með fyrirspurninni fylgdi samgöngumat Eflu. Þar kemur m.a. að hið nýja hús við Birkimel muni höfða vel til til fólks sem vilji lifa bíllausum lífsstíl. Kannanir hafi sýnt að íbúar á þessu svæði noti vistvæna ferðamáta meira en íbúar í öðrum hverfum borgarinnar.
Breyting á bensínstöðvarlóðinni við Birkimel hefur áður komið á borð skipulagsyfirvalda. Sumarið 2023 var send inn fyrirspurn um það hvort möguleg væri uppbygging á lóðinni og enn fremur nærliggjandi lóðum, þ.e. milli bensínstöðvarinnar og Eddu, húss íslenskunnar. Þær lóðir eru í umsjá Háskóla Íslands og í dag nýttar undir bílastæði.
Í tillögunni voru sýnd 16 hús á lóðunum, samtals 15.500 fermetrar. Húsin áttu eða verða 3-5 hæðir. Þessi áform náðu ekki fram að ganga.
Nýtt hlutverk Hótels Sögu
Undanfarið hafa staðið yfir miklar breytingar og endurbætur á Bændahöllinni/Hótel Sögu við Hagatorg. Hótelstarfsemi var hætt í kjölfar covid-faraldursins. Innnréttuð voru kennslurými og stúdentaíbúðir. Háskólinn tók við byggingunni og háskólaráð ákvað að framvegis myndi húsið heita Saga.
Sem fyrr segir gerði Reykjavíkurborg samning við olíufélögin árið 2021 um fækkun bensínstöðva um 11 á næstu árum og uppbyggingu húsnæðis á lóðunum. Gert var ráð fyrir því að 700-800 íbúðir gætu risið þar.
Í fyrra var upplýst að væntanlega yrði reyndin sú að fjöldi íbúða yrði ekki svo mikill. Er nú reiknað með að fjöldi íbúða verði 387-464 á reitunum 11. Uppbygging er þegar hafin á nokkrum lóðum og aðrar lóðir eru í undirbúningi og skipulagsferli.
Til að tryggja félagslega blöndun eru settar kvaðir af hálfu borgarinnar. Allt að 20% íbúða verði leiguíbúðir, búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða.