Viðtal
Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
„Það má rekja þessa plötu til covid þegar ég var lokaður inni með sellóið mitt og hafði góðan tíma til að spila á það en upptökutæknin er orðin þannig að ég gat verið að taka upp 20 selló saman á einfaldan hátt,“ segir Eyþór Arnalds, sellóleikari og lagahöfundur, sem gaf út sólóplötu sína, The Busy Child, í síðustu viku.
„Þegar við vorum öll lokuð inni með okkar hugsunum var þessi stóra bylting með gervigreindina að byrja. Þá velti ég því fyrir mér hvert við værum að fara og hvað það væri sem gerði okkur mennsk. Er vélgreind endilega gervigreind eða er hún kannski einfaldlega framandi greind? Ég horfði því á þessa sviðsmynd, hvert við gætum verið að stefna, en málið er að við vitum það eiginlega ekki enn þá.“
Gervigreindin er út um allt
Inntur eftir því hvort mikill munur sé á því að semja tónlist upp á gamla mátann eða nýta tæknina með aðstoð gervigreindar segir Eyþór vélgreindina enn takmarkaða.
„Hún hefur þó verið að taka stökk, liggur við í hverjum mánuði núna, og við erum að sjá breytingar sem kannski fólk átti ekki von á að gætu náðst. Auðvitað er fólk aðallega búið að sjá þetta í texta og myndum en það sem hefur kannski komið því á óvart er að gervigreindin getur verið mjög öflug í því sem við teljum vera mennskt, eins og t.d. tungumálinu, myndum og hljóði,“ segir hann og bætir því við að flestir hafi kannski átt von á því að gervigreindin myndi leysa fyrst af hólmi einföld störf en hún sé hins vegar út um allt.
„Hún mun bylta störfum, listum og tilvist fólks á næstu árum. Að vissu leyti eru þessar breytingar eins og Heinz-tómatsósa. Fyrst kemur lítið og svo kemur allt.“ Tekur hann verkföllin í Hollywood sem dæmi. „Þau voru að miklu leyti út af gervigreindinni því stúdíóin hafa rétt á að nota leikarana áfram í öðrum myndum sem þeir ætluðu sér kannski aldrei að leika í. Það sama á við um handritshöfunda og fleiri. Við sjáum það líka á umræðunni þessa dagana um íslenska rithöfunda að gervigreindin er búin að vera að borða bækur þeirra á laun. Þannig að allt þetta vekur spurningar um hvað það sé sem geri okkur mennsk. Titill plötunnar er ákveðið hugtak í gervigreindarfræðunum, það er að mannkynið hefur búið til alls konar hluti en yfirleitt hafa það verið dauðir hlutir sem við stjórnum. En þessi afurð er „busy“ og við getum kallað hana Hið iðna barn eða The Busy Child sem í raun og veru getur farið að búa til hluti sjálfstætt. Það er stór breyting á þróun lífs.“
Spurður í kjölfarið hvort framtíðin í tónsmíðinni liggi þá í gervigreindinni segist hann nokkuð viss um að hún verði notuð í auknum mæli. „Hins vegar verðum við líka að horfa á mannlega þáttinn og hvað aðgreinir okkur frá gervigreindinni. Ég held að gervigreindin sé að vissu leyti eins og spegill. Hún lærir af okkur og við af henni. Það er sama hvort það er í listum, framleiðslu eða öðru, þá erum við að búa til nýja vídd í mannlegu samfélagi með öflugasta tóli sem við höfum haft.“
Frábær viðbrögð á YouTube
Á plötunni eru 12 lög án söngs þar sem tugir sellóa spinna dáleiðandi hljóðheim en hljóðblöndun var í höndum Bjarka Ómarssonar. Hvert lag er sviðsmynd um mögulega framtíð þar sem því er velt upp eins og fyrr segir hvað það sé sem geri okkur mennsk og hvert vélgreindin kunni að leiða okkur. Platan kom út í síðustu viku á streymisveitum og stefnt er að því að gefa hana út á vínil seinna á árinu en þrjú lög hennar hafa þegar verið gefin út á YouTube með myndböndum eftir Vikram Pradham og Tómas Örn Tómasson. Spurður hvort myndböndin séu einnig gerð með aðstoð gervigreindar segir Eyþór þau að mestu tekin upp á gamla mátann.
„Ég vann myndböndin að mestu með Vikram, sem er indverskur myndlistarmaður búsettur á Íslandi. Mest af efninu er tekið upp á gamla mátann en svo unnið áfram í tölvu. Við notuðum gervigreindina í einstaka tilfellum. Við vorum til dæmis með drónaskot yfir jökli og þá notuðum við hana til að fara lengra með skotin en sjálf myndavélin getur gert. Þannig að þetta var blanda.“
Þá hafa myndböndin nú þegar fengið frábærar viðtökur og mikið áhorf en myndbandinu við lagið „Closer“ hefur til að mynda verið streymt nærri 300.000 sinnum á einungis fjórum mánuðum. Spurður út í viðtökurnar segir Eyþór gott að finna fyrir slíkum meðbyr.
„Það er mjög gaman bæði með YouTube og Spotify að þó að margir séu að kvarta yfir göllunum á þessu þá getur fólk núna fundið það sem er við hæfi og hentar því. Tónlistarbransinn var þannig að það voru fáar plötur í hillunum því hilluplássið var takmarkað en nú er það ekki þannig lengur. Það sama má segja um myndböndin; hér áður fyrr voru fá myndbönd sem fengu þann sess að vera spiluð í sjónvarpinu en núna erum við með ótakmarkað hillupláss sem gefur fólki færi á að finna það sem það vill. Líka þeir sem eru aðeins skrýtnir, þeir geta fundið sitt skrýtna hólf,“ segir hann kíminn.
Höggmynd af mannslíkama
Eyþór á að baki langan og glæstan feril í tónlistinni. Hann lærði tónsmíðar hjá Atla Heimi Sveinssyni og Louis Andriessen og stundaði sellónám hjá Gunnari Kvaran og framhaldsnám hjá Frances Marie Uitti. Þá hefur hann samið tónlist fyrir leikhús, dansverk, kvikmyndir og sinfóníuhljómsveitir en einnig var hann í pönkhljómsveitinni Tappa tíkarrassi með Björk og fleirum. Síðar stofnaði hann rokk/poppsveitina Todmobile með þeim Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni og Andreu Gylfadóttur og varð fljótt þekktur fyrir einstakan leik sinn á sellóið. Inntur eftir því hvers vegna það hljóðfæri hafi orðið fyrir valinu á sínum tíma svarar Eyþór því til að sellóið sé í ákveðnum sérflokki þar sem það sé svolítið mannlegt.
„Bæði er raddsviðið á sellóinu líkt mannsröddinni, en það spannar í rauninni bæði karlmanns- og kvenmannsrödd, og svo er það mjög mannlegt í tóni, tíðni og í laginu því það er í raun eins og höggmynd af mannslíkama.“
Hringekja í tónlist
Sjálfur var Eyþór bara unglingur þegar hann var á kafi í pönkinu en fljótt heillaðist hann þó af andstæðu þess og skipti yfir í rólegri gír.
„Ég fór meðal annars í klaustur í Frakklandi þar sem ég kynnti mér munkasöng, gregorískan söng, og því má segja að ég hafi farið alveg út úr hávaðanum. Síðan hóf ég nám hjá frænda mínum og læriföður, Gunnari Kvaran, og var hjá honum í sellónámi í átta ár. Í framhaldinu fór ég til Uitti, mikillar snilldarkonu, en hún opnaði nýja heima með sellóinu því hún gat spilað með tveimur bogum og stillt sellóið með ýmsum hætti. Þannig sýndi hún mér hvernig hægt væri að búa til sérstakan hljóðheim með hljóðfærinu,“ segir hann til útskýringar. „Í kjölfarið og fyrir röð tilviljana stofnuðum við Þorvaldur Bjarni og Andrea svo Todmobile þar sem sellóið og klassískur bakgrunnur okkar þriggja fékk að njóta sín. Þannig að þetta var svona hringekja í tónlist. Ég fór úr pönki yfir í gregorískan söng, þaðan í klassíkina og svo í poppið,“ segir hann og nefnir í kjölfarið að hann hafi reyndar bæði lært á trompet og fiðlu sem lítill drengur en tekið sellóið fyrir frekar seint. „Ég fann það þó mjög fljótt að þetta væri mitt hljóðfæri.“
Langar í fleiri selló
Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvað Eyþór eigi mörg selló og einnig hvort hann eigi sér eitthvert uppáhalds. „Ég á tvö selló en væri alveg til í að eiga eitt í viðbót. Það sem ég er búinn að eiga lengst er tékkneskt en uppáhaldssellóið mitt er hins vegar argentískt en smíðað á Ítalíu. Hvert selló hefur sinn karakter,“ segir hann og tekur fram að á plötunni notist hann stundum við 20 selló. „Það sem ég gerði síðan á Airwaves er að ég skrifaði verk fyrir strengjasveit og Viktor Orri Árnason stjórnaði. Við fórum síðan í framhaldinu í Hörpu og tókum þær útgáfur upp og í kjölfarið munu svo koma „live“ upptökur af sumum þessara laga.“
Fyrir utan störf sín í tónlistinni hefur Eyþór einnig starfað sem stjórnmálamaður og stjórnandi í viðskiptalífinu. Spurður að lokum hvað standi upp úr á fjölbreyttum og skemmtilegum ferli segir hann svarið nokkuð einfalt. „Það er bara alltaf það sem maður er að gera hverju sinni sem er mest spennandi. Það er alla vega þannig hjá mér því mér finnst gaman að vera ekki bara í einhverju einu. Ég held líka að maður geti lært af ólíkum hlutum og reynslu. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá spilar þetta allt saman.“