„Við erum þjóðin sem horfir á heiminn út um bílrúðu,“ skrifar höfundur.
„Við erum þjóðin sem horfir á heiminn út um bílrúðu,“ skrifar höfundur. — Morgunblaðið/RAX
Við erum land huldufólksins. Já, það er til eftir allt saman, þessar ósýnilegu verur sem lifa lífinu við hlið okkar.

Smitberinn

Halldór Armand

halldorarmand@- gmail.com

Í liðinni viku lauk kvöldfréttatíma RÚV á svipmyndum úr Grasagarði Reykjavíkur. Dramatísk fiðlutónlist hófst og áhorfendur virtu fyrir sér skot frá þessum yndislega stað, einum fallegasta stað borgarinnar þegar út í það er farið. Þar sáust mannlausir bekkir, skítugur, óvirkur gosbrunnur, auðir göngustígar. Það var enginn í garðinum. Að lokum fór myndatökumaðurinn að súmma inn á dauða runna, mold og trjágreinar, en fann að lokum örlítið lífsmark; haltrandi svartþröst. Fuglinn var eina vísbending okkar um að myndefnið væri ekki frá póst-apókalyptískum heimi. Ekki laust við að manni vöknaði um augu. Þetta var átakanlegra en nokkurt stofudrama. Palli einn í heiminum með GoPro-vél og kjökrandi fiðlu. Myndefnið átti að gleðja en fyllti áhorfandann djúpstæðri einsemdartilfinningu í staðinn.

Þessar nöturlegu svipmyndir úr Laugardalnum komu þó ekki áhorfanda, sem þekkir garðinn vel, á óvart. Farðu í göngutúr um garðinn á fullkomnu sumarkvöldi og það eru meiri líkur en minni á því að þú hittir engan. Ekki sálu. Það sem gerir þetta ennþá merkilegra er sú staðreynd að fáir staðir í Reykjavík eru veðursælli en dalurinn. Hvar eru allir? Hvar er íslenska þjóðin?

Augljósa svarið er væntanlega að við séum inni. Alltaf. Þjóðin vakni inni hjá sér, aki í vinnuna inni í bíl, vinni inni, aki svo í líkamsrækt til að svitna inni, aki næst heim og sé inni þangað til hún leggst til svefns – inni. Er það kuldinn, rokið og rigningin? Er það veðrið sem fangelsar okkur inni í litlu kössunum? Er það mannfæðin? Hvorugt. Veðrið hér er sjaldan gott, en þeir dagar á ári þar sem það er beinlínis erfitt að vera utandyra eru sárafáir. Þetta er ekki stórborg, en ekki smáþorp heldur. Hér er nóg af fólki.

Rétta spurningin er ekki hvar fólkið sé, heldur samfélagið. Hvar fer íslenskt samfélag fram? Það er svo sannarlega ekki úti á götunum – hér ekkert mannlíf eða götulíf fyrir utan ferðamennina sem skrölta milli lundabúða á Laugaveginum – og það er heldur betur ekki á grænu svæðunum. Íslendingar hittast í umferðinni og í sundi – laugarnar eru okkar mikilvægustu staðir – og þess vegna er tragikómískt að fylgjast með glórulausu stjórnmálafólki skerða opnunartíma þeirra. Ef það væri einhver tilfinning fyrir íslensku samfélagi, eða öllu heldur skortinum á því, meðal stjórnmálastéttarinnar þá væri opið til miðnættis í laugunum.

Hvenær horfast Íslendingar í augu? Á árum áður var það víst á 17. júní. Þar kom þjóðin saman til að líta af virðingu í augu samborgara sinna, þeirra sem unnu saman að því að byggja upp samfélagið, byggja upp hið unga lýðveldi. Hvað varð um þennan dag? Maður fær á tilfinninguna að nú liggi annar hver maður andvaka um nætur yfir áhyggjum af fullveldi Íslands, en hvaða samfélag er það, nákvæmlega, sem er í húfi? Fullveldi hvers? Hvar birtist þessi menning, þessi saga, þetta samfélag?

Svipmyndirnar úr Laugardalnum – tómleikinn, mannlausu stígarnir, dauðu runnarnir og halti þrösturinn – eru mynd af samfélaginu okkar; hinu kerfislæga tómarúmi þess. Var samfélagið pottþétt til einu sinni? Það birtist í sögubókum, í ræðum fyrirmenna, er þekkt af afspurn, en ekki í lífinu sjálfu. Hér er spurt í gamni og alvöru: Er eitthvað sem sameinar þjóðina meira en Júróvisjón-útsending í sjónvarpinu? Fyrirfinnst eitthvert bræðralag á Íslandi í líkingu við ástríðuna inni á Ölver þegar Liverpool er að spila? Hver er áhrifamestur í innra lífi Íslendinga, nóbelsskáldið, Vigdís eða Jürgen Klopp? Höfum við kannski aldrei staðið saman nema í skáldaðri minningu um samfélag sem aldrei var til? Sést mögulega enginn neins staðar vegna þess að fólk upplifir sig ekki sem hluta af samfélagi – það finnst hvergi?

Við erum þjóðin sem horfir á heiminn út um bílrúðu. Við erum land huldufólksins. Já, það er til eftir allt saman, þessar ósýnilegu verur sem lifa lífinu við hlið okkar. Þetta huldufólk er þjóðin sjálf. Íslenskt samfélag verður ekki til fyrr en við byrjum að trúa á það. Fyrsta skrefið er að fara út úr húsi. Það verður tekið vel á móti þér.