Það er breytt hljóð í Evrópu. Vopnaframleiðendur, sem áður lágu nánast í dvala, taka nú við sér á ný og margir tala eins og hættan á stríði hafi ekki bara aukist, heldur sé stríð í vændum.
Þegar kalda stríðinu lauk slaknaði verulega á hernaðarviðbúnaði í Vestur-Evrópu. Hættan var liðin hjá. Það fækkaði í herjum og dregið var úr vígbúnaði.
Með innrás Rússa í Úkraínu snerist allt við. Grannar Rússa á borð við Pólverja og Eista höfðu fyrir daufum eyrum hamrað á því að ekki mætti vanmeta hættuna sem stafaði af Rússum. Nú fór sú hætta ekki á milli mála.
Bandaríkjamenn hafa iðulega gagnrýnt Evrópu fyrir að leggja ekki nóg af mörkum í varnarsamstarfinu í Atlantshafsbandalaginu og hvatt þá til að bæta í. Donald Trump er ekki eini Bandaríkjaforsetinn sem hefur lýst yfir gremju sinni, þótt hann hafi verið aðgangsharðastur. Trump hefur gengið svo langt að hóta að verja ekki ríki sem hafa komið sér undan því að axla sínar byrðar.
Yfirlýsingar Trumps hafa hrist upp í umræðunni. Friedrich Merz, verðandi kanslari Þýskalands, gekk svo langt að segja að ef til vill myndi NATO innan skamms heyra sögunni til.
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundaði með utanríkisráðherrum NATO í Brussel á fimmtudag og reyndi að slá á ólguna sem ummæli Trumps hafa vakið.
„Sumt af þessari móðursýki og ýkjum sem ég hef orðið var við í heimspressunni og sumum fjölmiðlum heima fyrir í Bandaríkjunum er án innistæðu,“ sagði hann. „Trump forseti hefur gert ljóst að hann styður NATO. Við ætlum að vera áfram í NATO,“ sagði hann.
Um leið ítrekaði Rubio að framlag aðildarríkja NATO til varnarmála yrði að hækka og Bandaríkjamenn væru þar ekki undanskildir. Hann mætti með þá kröfu á fundinn að aðildarríkin hækkuðu framlag sitt til varnarmála í 5% af landsframleiðslu. Það er mun meira en talað hefur verið um hingað til.
Í Bandaríkjunum er tæplega 3,4% af landsframleiðslu varið í varnarmál. Til að komast í 5% yrðu Bandaríkjamenn að leggja 400 milljarða dollara að auki til þessara mála. Alls yrðu ríki NATO að leggja til 1,1 billjón dollara umfram það sem nú er.
Pólland og Eystrasaltslöndin eru farin að nálgast 5% en önnur aðildarríki í Evrópu og Kanadamenn eru langt undan og mörg þeirra í efnahagslegum kröggum.
Þjóðverjar hafa lýst yfir því að þær ætli að slá í klárinn og stefna á að hækka útgjöldin upp í 3,5% af landsframleiðslu. Óhætt er að tala um að þýski herinn hafi drabbast niður og er talað um að hann sé jafnvel ekki bardagafær. Bæði vanti hergögn og hermenn. Hann sé svo illa birgur að eitt sinn hafi liðsmenn þýska hersins mætt á æfingu hjá NATO vopnaðir svartmáluðum kústsköftum í stað riffla.
En það er ekki aðeins í Þýskalandi sem veikleika er að finna. Hvort sem það eru sprengjuflaugar, eldflaugavarnir, varnir gegn tölvuhernaði eða gervihnettir er Evrópa berskjölduð.
En spurningin er ekki aðeins að eyða peningum í varnir heldur í hvað þeir eigi að fara. Ítrekað hafa herir gert þá skyssu að undirbúa sig undir síðasta stríð en ekki það næsta. Á að smíða skriðdreka eða orrustuþotur? Hvað með flugmóðurskip? Eða á að setja púðrið í drónahernað?
Þá þarf ekki aðeins að finna peningana til að smíða hergögn. Það þarf einnig að finna mannskap til að beita þeim.
Í Evrópu hefur spurningin um herskyldu einnig vaknað á ný. Í fjölmennustu aðildarríkjum NATO er samkvæmt skoðanakönnunum meirihluti fyrir því að taka upp herskyldu – en reyndar aðeins minnihluti þeirra sem eru á herskyldualdri.
Svo er það spurningin hvers NATO-ríkin í Evrópu þurfa að vera megnug. Verður ávallt hægt að reiða sig á Bandaríkin eða þurfa Evrópuríkin að hafa burði til að verja sig alfarið sjálf?
Á utanríkisráðherrafundinum í vikunni var verið að leggja línurnar fyrir leiðtogafund bandalagsins í júní. Þótt Rubio reyndi að róa taugar kollega sinna á fundinum í Brussel mátti finna fyrir gremjunni.
Bart De Wever, forsætisráðherra Belgíu, sagði í viðtali að ógerningur væri að ná 5% markinu í bráð. „Það er dálítið flókið mál að gera kröfur á hendur okkur eftir að hafa látlaust niðurlægt og móðgað okkur,“ bætti hann við.
Meiri sáttatónn var í máli Espens Barths Eides, utanríkisráðherra Noregs. „Það er eining um að við þurfum að gera meira og við munum vinna að því í aðdraganda leiðtogafundarins í Haag að setja nýtt markmið,“ sagði hann en bætti þó við: „Fimm prósent eru auðvitað mun meira en Bandaríkjamenn eyða sjálfir og það er mjög háleitur metnaður og við erum á þessari stundu ekki tilbúin að skuldbinda okkur við tölu.“
Fróðlegt verður að sjá hvernig mun ganga að leggja gremjuna til hliðar á næstu vikum og hvort tekst að finna niðurstöðu fyrir leiðtogafundinn, sem mun gera Trump kleift að segja að hann hafi náð sínu fram. Ekki verður síður forvitnilegt að sjá hvernig ríkisstjórn Íslands ætlar að máta sig inn í þessa umræðu.