Það skiptir máli að konur séu sýnilegar í áhrifastöðum í þjóðfélaginu, segir Silja Bára.
Það skiptir máli að konur séu sýnilegar í áhrifastöðum í þjóðfélaginu, segir Silja Bára. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fólk sem vann fyrir mig í rektorsframboði mínu heyrði daglega: Ég ætla ekki að kjósa enn eina konuna. Það að ég er kona var ekki að vinna með mér hjá öllum.

Silja Bára Ómarsdóttir verður sett í embætti rektors Háskóla Íslands 1. júlí næstkomandi. Hún verður önnur konan til að gegna því embætti.

Hún er prófessor í alþjóðasamskiptum við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá University College Cork á Írlandi, MA-prófi í alþjóðasamskiptum frá University of Southern California og BA-prófi í sömu grein frá Lewis & Clark College í Bandaríkjunum. Að auki hefur hún lokið diplómanámi á framhaldsstigi í aðferðafræði félagsvísinda og kennslufræði háskólastigsins frá Háskóla Íslands.

Spurð hvort það skipti máli að rektor Háskóla Íslands sé kona svarar Silja Bára: „Ekki endilega en það skiptir máli að konur séu sýnilegar í áhrifastöðum í þjóðfélaginu. Þegar ég byrjaði að kenna í Stjórnmálafræðideild fyrir tuttugu árum hafði kona ekki kennt í deildinni í nokkurn tíma. Nemendur mínar, ungar konur, sögðu mér seinna að þær hefðu ekki séð fyrir sér að fara í framhaldsnám fyrr en þær komu í tíma hjá mér. Það að kennari þeirra væri kona með framhaldsmenntun í þessum fræðum opnaði augu þeirra fyrir því að þær gætu líka gert þetta.

Sjálf man ég vel eftir því að þegar ég byrjaði í grunnnámi í Bandaríkjunum skipti máli fyrir mig að einn af aðalkennurum mínum var ung kona. Sem barn ólst ég upp í umhverfi þar sem ég þekkti enga háskólamenntaða manneskju en í skólastofunni í Bandaríkjunum uppgötvaði ég að þarna væri verkefni sem ég gæti tekist á við og passað inn í.“

Heyrir þú eins og margar konur einhverja karlmenn segja að konur séu orðnar of valdamiklar og stjórni of mörgum stofnunum?

„Já, já, fólk sem vann fyrir mig í rektorsframboði mínu heyrði daglega: Ég ætla ekki að kjósa enn eina konuna. Það að ég er kona var ekki að vinna með mér hjá öllum.“

Víkjum aðeins aftur að rektorskosningunni, sem hefur greinilega skilið eftir sár, eins og kosningaúrslit gera reyndar ansi oft, og alls kyns ásakanir hafa komið fram. Það hefur jafnvel verið talað um hugsanlegan klofning innan háskólasamfélagsins vegna úrslitanna. Hver eru viðbrögð þín við slíku tali?

„Í persónukjöri sem þessu er óhjákvæmilegt að það snúist um fólkið sem er í framboði og umræðan getur orðið persónuleg og jafnvel óvægin, því miður. Slík umræða var þó sannarlega ekki í mínu umboði. Ég lagði skýrar línur strax í upphafi um að þau sem ynnu með mér í framboðinu myndu ekki tala niður mótherjana heldur leggja áherslu á það sem ég hefði fram að færa í starfið. Við vildum taka þetta á jákvæðni og leyfa fólki að gera upp hug sinn á þeim forsendum. Öll þau sem buðu sig fram voru vel hæf til að gegna starfinu og það sýnir mannauðinn í Háskóla Íslands hve mörg við vorum sem vorum tilbúin að takast á við þetta stóra verkefni. Ég mun leggja mig alla fram til þess að vera rektor allra í Háskóla Íslands, enda er það hlutverk rektors.“

Skemmtilegasta fagið

Það vekur forvitni blaðamanns að Silja Bára segist ekki hafa þekkt til háskólaumhverfis í uppvextinum. Blaðamaður spyr um bakgrunn hennar.

„Ég fæddist á Ólafsfirði. Pabbi var vélstjóri á togara þegar ég var lítil og mamma, sem var lærður íþróttakennari, kenndi ýmislegt eins og myndlist, ensku, dönsku og leikfimi. Ég fór oft með mömmu í tíma þegar ég var lítil og það má segja að ég hafi alist upp í íþróttasalnum og sundlauginni á Ólafsfirði.

Mamma fór svo í háskólanám rúmlega þrítug. Elsti frændi minn fór í lögfræði og yngsti bróðir mömmu fór í arkitektúr. Ég var farin að sjá fyrirmyndir en háskólanám var samt ekki augljóst fyrir krakka úti á landi á áttunda áratugnum.

Mamma og pabbi skildu þegar ég var tíu ára, Ég bjó með mömmu á Akureyri í tvö ár og kom svo suður árið sem ég fermdist og bjó þá hjá pabba.“

Silja Bára gekk í Álftamýrarskóla í Reykjavík og lauk stúdentsprófi af nýmálabraut frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hvenær ákvað hún að læra alþjóðasamskipti?

„Frá því ég var lítil vissi ég að mig langaði til að vinna við einhvers konar alþjóðasamskipti en vissi ekki hvernig það væri hægt. Lögfræði virtist augljós leið, það var embættisnám þar sem maður fékk titil og starfsréttindi. Ég hugsaði: Ég fer í lögfræði og svo í þjóðarrétt, vissi ekki að til væru aðrar leiðir til að nálgast nám í alþjóðasamskiptum. Ég byrjaði í lögfræði og fannst það gaman, sérstaklega félagslega – á enn góða vini sem ég kynntist þar. Prófafyrirkomulagið hentaði mér hins vegar ekki, eitt stórt próf sem réði úrslitum og þar mátti ekkert út af bera. Í framhaldsnámi kom í ljós að ég er með athyglisbrest og svona námsmat hentar oftast ekki fyrir okkur sem erum þannig.

Á þessum tíma kynntist ég einhverjum sem höfðu farið í nám í alþjóðasamskiptum og ég fann skóla í Oregon í Bandaríkjunum sem ég fékk góðan styrk frá. Þar var dásamlegt umhverfi, bæði náttúran og námið. Áhersla var á kennslu í litlum hópum og valfrelsið var mikið, þannig að ég var í námi í alþjóðasamskiptum sem var nátengt stjórnmálafræðideildinni svo að við vorum með skyldunámskeið í bæði bandarískum stjórnmálum og samanburðarstjórnmálum, en ég heillaðist fyrst og fremst af kenningum í alþjóðasamskiptum. Þarna voru deildarmúrarnir ekki jafn sterkir og við HÍ, þannig að þegar ég tók námskeið í rússneskum utanríkismálum var litið jákvætt á það að læra rússnesku samhliða, sem ég hafði reyndar lært í framhaldsskóla, og enn skemmtilegra að hafa námskeið í rússneskum bókmenntum með. Þannig voru áherslur í náminu þannig að ég fékk dýpri tengingu við svæðin sem ég var að stúdera. Svo datt ég ofan í Miðausturlanda-áfanga og endaði á að skrifa BA-ritgerðina mína um Jórdan-árfarveginn og vatnspólitík sem hluta af hernámi Ísraels á Palestínu. Eftir það fór ég í framhaldsnám í alþjóðasamskiptum. Ég er enn sannfærð um að þetta er skemmtilegasta fag í heimi.“

Vill styðja við fjölbreytileikann

Nú hefurðu verið kosin rektor Háskóla Íslands, hver verða helstu áherslumálin?

„Mig langar til að styðja við fjölbreytileikann í skólanum. Ég vil til dæmis gera skólann aðgengilegri og meira aðlaðandi fyrir ungmenni af erlendum uppruna. Við erum með samfélagslegt nýsköpunarverkefni, Sprett, sem undirbýr nemendur með innflytjendabakgrunn til að stunda háskólanám og ég vil sjá það eflast og dafna. Ég vil líka að fjölbreytileikinn nái til fleiri hópa, eins og hinsegin samfélagsins og fólks með fötlun. Ég er til dæmis með doktorsnema sem notar hjólastól og það er áhættuatriði fyrir hana að koma til mín á skrifstofuna. Undir slíkum kringumstæðum er eðlilegt að fólki finnist það ekki tilheyra og við þurfum að sporna gegn því.

Síðustu áratugina hefur samfélagið í háskólanum gjörbreyst úr kennslustofnun yfir í öfluga rannsóknarstofnun og núna er komið inn í DNA-ið í okkur sem störfum hér að rannsóknir séu einn stærsti þátturinn í starfi okkur og áherslurnar hafa verið þar. Fyrir vikið hefur kennslan kannski nokkuð setið á hakanum. Ég vil að við horfum á kennsluna sem mikilvægt verkefni og uppfærum kennsluhætti. Það er fjöldinn allur af kennurum sem eru að gera frábæra hluti en hjá sumum er kennslan afgangsstærð.

Svo er hluti af því að skapa samfélag að nemendum finnist þeir þurfa að koma í tíma. Það dugar ekki að lesa bara bækurnar, heldur eiga þeir að vera þátttakendur í námssamfélaginu sem við reynum að skapa þeim. Starfsfólkið á sömuleiðis að finna tilgang og mikilvægi í því að vera á staðnum og taka þátt – þótt stundum geti auðvitað verið gott að vinna heima eða á kaffihúsi. Háskóli er fyrst og fremst samfélag og það skiptir mig miklu máli að hlúa að samfélaginu sem hér er.“

Hvað finnst þér að þyrfti helst að laga hjá Háskóla Íslands?

„Það sem þarf að laga í sambandi við Háskóla Íslands er fjármögnunin, en hann hefur verið vanfjármagnaður um árabil. Skólinn er opinber stofnun og reiðir sig fyrst og fremst á opinbert fé. Við höfum fengið loforð frá ýmsum ríkisstjórnum um að við myndum ná meðaltali OECD-ríkjanna og jafnvel meðaltali Norðurlandaríkjanna, sem er það sem við viljum. Fjárframlög hafa þó ekki verið í samræmi við það. Við þurfum að þrýsta á stjórnvöld að fjármagna okkur þannig að við getum staðið við skyldur okkar við samfélagið. Okkur ber að mennta nemendur í ákveðnum greinum og þurfum að skila fólki út í samfélagið til að gegna ábyrgðarhlutverkum, sumum með löggild starfsréttindi, fyrir utan að skapa þekkingargrunn fyrir almenna umræðu og gagnrýnið hugsandi samfélag. Til þess að standa skil á þessum verkefnum þurfum við að fá töluvert meira fé. Það munar tugum prósenta að við séum á pari við hin Norðurlandaríkin. Ég vona að núverandi stjórnvöld séu tilbúin í samtal um þetta.

Þá eru ýmis fjárframlög hins opinbera skilgreind sem framlög til rannsókna og háskólastigs en fara til einkageirans. Það þarf að ræða hvernig eigi að beina þessu fé sem er sett í rannsóknir þannig að háskólinn verði ekki undirfjármagnaður meðan einkageirinn, sem er jafnvel að greiða út arð, fær þetta fé til sín. Við viljum breyta þessu, grunnrannsóknirnar fara fram í háskólum og þær þarf að fjármagna. Það krefst þess að við leggjumst öll á árarnar og vinnum saman að því markmiði.

Til viðbótar við það fé sem HÍ fær frá hinu opinbera sækjum við umtalsvert sjálfsaflafé í gegnum rannsóknarstyrki. Sjóðirnir hér heima hafa rýrnað mjög mikið að raunvirði á síðustu árum, þannig að það þarf að bæta í þá og styðja um leið við það að við getum sótt í alþjóðlega sjóði. Við verðum líka að horfa á hvaða tækifæri ólíkar greinar hafa til að sækja sjálfsaflafé. Það hafa ekki öll svið sambærileg tækifæri til að fá styrki og það þarf að tryggja stöðu þeirra sérstaklega.“

Verja þarf mannréttindi

Ástand í heimsmálum er afar ótryggt. Þar eru þrír stórhættulegir menn við völd: Trump í Bandaríkjunum, Pútín í Rússlandi og Netanjahú í Ísrael. Þegar þú sem alþjóðastjórnmálafræðingur horfir á ástandið í heiminum, hvernig blasir það þá við þér?

„Við erum á mjög skrýtnum stað í mannkynssögunni. Það sem fyrst og fremst sameinar Pútín og Trump, en er líka einn angi í ísraelskri pólitík, er hvernig líkamar fólks eru notaðir í ákveðnum tilgangi. Þannig er til dæmis grafið undan aðgengi að þungunarrofi og réttindum samkynhneigðra. Netanjahú notar sömu pólitíkina en á annan hátt. Ísrael verndar réttindi hinsegin fólks og þar er ýtt undir kyn- og frjósemisréttindi og aðgangi að tæknifrjóvgun fyrir samkynhneigða. Þar benda gagnrýnir hópar hinsegin samfélagsins á að þau séu notuð til að hvítþvo stefnu stjórnvalda. Í öllum þessum tilvikum eru stjórnvöld að nota líkama fólks, sjálfsvitund og kynhneigð til að ná fram markmiðum sínum.

Þegar ég flutti til Bandaríkjanna kynntist ég því hvernig rétturinn til þungunarrofs var verndaður en stóð samt veikt, eins og sýndi sig þegar Trump varð fyrst forseti. Réttindi fólks eru hluti af því sem við í háskólasamfélaginu þurfum að vera meðvituð um og í Bandaríkjunum er verið að pressa á háskóla að rannsaka ekki ákveðna hluti. Þetta minnir okkur á stöðuna í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar. Það er ábyrgð okkar sem háskóla- og þekkingarsamfélag að verja mannréttindi.“

Alvarleg árás

Silja Bára mun taka við annasömu embætti en mun vonandi hafa tíma til að sinna áhugamálum sínum. Blaðamaður las á einum stað að meðal áhugamála hennar væru útsaumur og kraftlyftingar. Silja Bára segist hafa byrjað að sauma út eftir að ráðist var á hana í Bandaríkjunum. Hún rekur þá sögu fyrir blaðamanni.

„Ég kom að manni í glugganum í íbúð minni í Los Angeles. Ég veit ekki hver ásetningur hans var því hann náðist ekki. Hann komst ekki inn heldur lagði á flótta eftir að henda í mig grjóti. Ég fékk höfuðáverka og þurfti að fara í mikla þjálfun til að geta notað hægra augað aftur. Ég náði að hringja í sjúkrabíl, vissi ekki mikið af mér en var svo heppin að ég var með það mikilli rænu að ég gat sagt að ég væri með tryggingar. Ég fór á besta spítalann sem var í boði, sem háskólinn minn rak, og fékk alveg framúrskarandi umönnun. Læknirinn var reyndar mjög svekktur að ná ekki að jafna dæld á enninu, sem ég ber enn. Síðan tók við sálfræðimeðferð og sjónmeðferð. Það var nokkurra ára verkefni og ég fór að þjálfa hægra augað með útsaumi, sem er mikil nákvæmnisvinna. Þannig byrjaði ég að sauma út og dunda mér enn við það af og til. Ég hef helst saumað jólasokka fyrir börnin í kringum mig – systkinabörnin mín eru loksins að fá sína sokka á þessu ári – en hef líka gert eins konar textaverk handa vinum og þau eru þá sniðin að viðtakandanum.

Kraftlyftingarnar hafa setið á hakanum síðasta árið. Ég meiddist í hnjám en er að vonast til að komast aftur inn í þá rútínu því það gerir manni mjög gott að lyfta. Það er mikil beinþynning í ættinni þannig að það skiptir máli að styrkja beinin, og svo er það mikilvægt fyrir allar konur á mínum aldri. Það er líka mjög gagnlegt að vera sterk eigandi litla frændur sem fá sínar hugmyndir um kynhlutverkin úr dægurmenningu. Þá er gaman að vera sterka frænkan – systir mín fól mér meira að segja sérstaklega það hlutverk að brjóta upp hugmyndir sona sinna um hlutverk kynjanna. Ég tek það mjög alvarlega.“