Leikarinn í hlutverki sínu í Shogun.
Leikarinn í hlutverki sínu í Shogun.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hann sagðist í áratugi haft skömm á sjálfum fyrir sér fyrir að hafa ekki treyst sér til að vera hann sjálfur vegna þess að hann vildi vernda karlmennskuímyndina.

Leikarinn Richard Chamberlain lést á dögunum níræður að aldri. Hann varð frægur 27 ára gamall fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Dr. Kildare (1961-1966) þar sem hann lék góðan og umhyggjusaman lækni á einstaklega sannfærandi hátt. Seinna lék hann bæði í sjónvarpi og kvikmyndum og átti langan og farsælan feril.

Hann fæddist árið 1934 í Beverly Hills. Faðir hans var sölumaður, alkóhólisti, sem synir hans tveir óttuðust vegna erfiðra skapsmuna hans og drykkju. Chamberlain sagði að sem barn hefði illgirnislegt glott föður hans og andlegt ofbeldi valdið því að honum leið eins og verið væri að rista sig á hol með sveðju. Hann var hins vegar afar elskur að móður sinni sem sýndi honum og bróður hans mikla umhyggju.

Chamberlain lærði listasögu og fór í myndlistarnám en var síðan kvaddur í herinn. Eftir herskyldu náði leiklistin tökum á honum og hann var gestaleikari í nokkrum sjónvarpsþáttum. Hann varð stjarna þegar hann fékk hlutverk í sjónvarpsþáttunum Dr. Kildare árið 1961 en þættirnir urðu alls 190 og árið 1962 vann hann Golden Globe-verðlaunin fyrir leik sinn í þeim.

Á árunum 1963-1965 valdi tímaritið Photoplay hann vinsælustu karlkyns stjörnu heims. Chamberlain, sem hafði góða söngrödd, söng kynningarlag Kildare-þáttanna inn á plötu sem komst á metsölulista. Seinna lék hann á sviði í söngleikjum eins og My Fair Lady, The Sound of Music, Scrooge, The King and I og Monty Pythons Spamalot.

Á hátindi frægðar sinnar fékk hann tólf þúsund aðdáendabréf á viku og ungar konur eltu hann á röndum. „Mér leið dálítið eins og það væri setið um mig,“ sagði hann eitt sinn.

Eftir að Kildare-þáttunum vinsælu lauk lék hann á sviði og í sjónvarpi og leikur hans í BBC-sjónvarpsþáttunum The Portrait of a Lady ávann honum virðingu gagnrýnenda sem margir höfðu áður afgreitt hann sem lítið meira en snoturt andlit.

Árið 1969 lék hann Hamlet í uppsetningu í Birmingham og fékk afar jákvæða dóma. „Hver sá sem kemur á sýninguna tilbúinn að hæðast að vinsælum sjónvarpsleikara, Richard Chamberlain, í hlutverki Hamlets, mun verða fyrir vonbrigðum,“ sagði gagnrýnandi The Times.

Hann lék í vinsælum kvikmyndum eins og hinni bráðskemmtilegu Skytturnar þrjár þar sem hann lék Aramis og framhaldsmyndinni Skytturnar fjórar. Hann var óheiðarlegur verkfræðingur í hinni stjörnum prýddu stórmynd The Towering Inferno og lék hinn ógæfusama Dantes í Greifinn af Monte Christo. Það hlutverk sem reyndi kannski einna mest á hann var í mynd Ken Russells, The Music Lovers, þar sem hann var í hlutverki hins samkynhneigða og þjáða tónskálds Tsjajkovskíjs.

Síðustu áratugina lék Chamberlain aðallega í sjónvarpi og á sviði og tók að sér gestahlutverk í þáttum eins og Will & Grace og Desperate Housewives. Sjónvarpsþættirnir Shogun (1980) og The Thorn Birds (1983) slógu rækilega í gegn og hann hlaut Golden Globe-verðlaun fyrir leik sinn í þeim. Í þeim síðastnefndu lék hann þjáðan kaþólskan prest sem á í ástarævintýri. Þættirnir fengu 60 prósent áhorf í Bandaríkjunum og voru tilnefndir til sextán Emmy-verðlauna. Síðasta kvikmyndahlutverk hans var í myndinni Finding Julia árið 2019.

Chamberlain var samkynhneigður en leyndi því áratugum saman. Árið 1989 opinberaði franskt tímarit samkynhneigð hans en leikarinn staðfesti ekki að svo væri raunin. Það var ekki fyrr en í sjálfsævisögu sinni, Shattered Love, sem kom út árið 2003, sem hann sagðist vera samkynhneigður. Hann sagðist hafa verið dauðhræddur við að koma út úr skápnum og sagði mikið frelsi fylgja því að þurfa ekki lengur að geyma það leyndarmál. Hann sagðist í áratugi haft skömm á sjálfum fyrir sér fyrir að hafa ekki treyst sér til að vera hann sjálfur vegna þess að hann vildi vernda karlmennskuímyndina. Með því að opinbera samkynhneigð sína sagðist hann loks hafa vingast við lífið.

Árið 1977 hófst samband hans við leikarann og framleiðandann Martin Rabbett sem var tuttugu árum yngri. Þeir bjuggu saman á Havaí en skildu árið 2010 og Chamberlain flutti til Los Angeles. Þeir tóku þó saman aftur og bjuggu á Havaí þar sem Chamberlain lést í hárri elli.

Rabbett minntist sambýlismanns sína og sagði í yfirlýsingu að hann hefði verið frábær og kærleiksrík sál. „Okkar ástkæri Richard er nú meðal englanna. Hann er frjáls og svífur í átt til þeirra ástvina okkar sem hafa kvatt þennan heim.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir