Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Það kom okkur mjög á óvart. Þetta eru tillögur sem voru bornar upp á íbúafundi fyrir rúmum tveimur vikum, fóru þá í ferli og athugasemdum við þær má skila inn til 5. maí. Fresturinn átti að renna út 11. apríl en við fengum hann framlengdan fram í maí. Við skiljum ekki af hverju þetta er gert núna, á meðan fresturinn er enn ekki liðinn,“ segir Elísabet Gísladóttir, formaður Íbúasamtaka Grafarvogs, í samtali við Morgunblaðið.
Álits hennar var leitað á samþykkt meirihluta borgarráðs sem gerð var sl. fimmtudag, en þar var samþykkt að veita vilyrði fyrir uppbyggingu félagslegra íbúða á fyrirhuguðum þéttingarreitum í Grafarvogi. Þétting byggðar í Grafarvogi hefur verið gagnrýnd harkalega af íbúum hverfisins og hafa borgaryfirvöld þegar dregið nokkuð í land með þéttingaráform sín.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði greiddu atkvæði gegn tillögunum og sagði Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, í Morgunblaðinu í gær að Sjálfstæðisflokkurinn vildi falla frá öllum uppbyggingaráformum meirihlutans í hverfinu.
Ósáttir og óöruggir
„Íbúar Grafarvogshverfis eru mjög ósáttir og óöruggir og vilja fá að vita meira um hvernig skipulagið á að vera, ekki síst á reitnum við Sóleyjarrima sem er einn þeirra þéttingarreita sem liggja hér undir,“ segir Elísabet.
Hún segist ekki gera athugasemdir við það í sjálfu sér að að um félagslegar íbúðir sé að ræða, en það að koma fyrir 52 félagslegum íbúðum á sama blettinum sé mjög umhugsunarvert. Löngu úrelt sé að setja slíkan íbúðaflokk á einn og sama staðinn. Þróunin hafi frekar verið sú að dreifa slíkum íbúðum víðar.
Með ólíkindum
„Okkur finnst þetta með ólíkindum tímalega séð. Við erum búin að bíða eftir því í tvær vikur að fá samtal við borgarstjóra,“ segir Elísabet og vísar þar til fundarbeiðni fulltrúa Íbúasamtakanna og fulltrúa hverfanna í Grafarvogi, enda séu öll hverfi Grafarvogs undir í þéttingarmálinu.
„Þetta er gríðarlega yfirgripsmikið og ráðist er að hverfinu í heild sinni, á meðan innviðir þess eru ókláraðir. Ég vil líka benda á þetta skipulagsklúður sem íbúar í Gufunesi búa við. Þar eru engar samgöngur, engin bílastæði, þannig að þjónustan við íbúana þar er fyrir neðan allar hellur. Þarna vantar bílastæði, bílum er lagt uppi á gangstéttum og hvar sem bíl verður komið fyrir og íbúar þarna eru farnir að upplifa bílastæðakvíða,“ segir Elísabet
„Það er ekki hægt að horfa upp á svona vinnubrögð. Þarna á að vera bíllaus lífsstíll en fólk kemst ekki út úr hverfinu, enda engar samgöngur fyrir fólk, hvorki hjólastígar ná strætisvagnasamgöngur. Það er ekki neitt slíkt í Gufunesi. Það eru allir innviðir sprungnir í hverfum Grafarvogs og þá bendi ég fyrst og fremst á samgöngurnar. Við mótmælum öllum fyrirhuguðum framkvæmdum í Grafarvogi fyrr en samgöngur og aðrir innviðir eru komin í lag,“ segir hún.