Friðrik Rafnsson hefur þýtt allar bækur rithöfundarins Milan Kundera á íslensku en þær eru sextán alls.
Friðrik Rafnsson hefur þýtt allar bækur rithöfundarins Milan Kundera á íslensku en þær eru sextán alls. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ætlunin er að vera þarna með reglulega viðburði um evrópska menningu, aðallega bókmenntir, einkum skáldsöguna sem var líf og yndi Milans, og fá gesti héðan og þaðan úr heiminum til að fjalla um það efni.“

Í bókasafni í Brno í Tékklandi, heimabæ rithöfundarins Milans Kundera, hefur verið komið á fót sérstakri deild með bókum og ljósmyndum úr eigu rithöfundarins og ráðgert er að koma listaverkasafni hans einnig þar fyrir. Ennfremur hefur verið stofnuð þar menningarmiðstöð sem ber nafn Kundera þar sem meðal annars verður boðið upp á viðburði sem tengjast evrópskum bókmenntum og menningu. Friðrik Rafnsson hefur þýtt allar bækur Kundera á íslensku en hann skoðaði safnið í byrjun mars síðastliðins og hélt fyrirlestur um áhuga Kundera á íslenskri menningu, sögu og tungu og hvernig hann birtist í nokkrum bóka hans.

Kundera og Ísland

Kundera lést fyrir rúmum þremur árum 94 ára að aldri og eiginkona hans, Vera, lést á síðasta ári. „Milan átti tugi þúsunda bóka, meðal annars allar þýðingar á verkum sínum. Hann átti einnig gott málverkasafn og sjálfur teiknaði hann nokkuð.

Tékkneska landsbókasafnið hefur höfuðstöðvar í Prag og er með stórt útibú í Brno sem er fæðingarborg Kundera og önnur stærsta borgin í Tékklandi. Tekinn var frá talsverður hluti af safninu í Brno sem er hugsaður sem bóka- og ljósmyndasafn, heimildaskrá og gagnagrunnur um Kundera, ævi hans og verk. Listaverkin sem hjónin áttu, meðal annars verk eftir íslenska listmálarann Kristján Davíðsson, verða sömuleiðis geymd þarna og teikningar eftir Kundera verða til sýnis, en hann var ágætlega drátthagur og hafa sumar teikninganna verið notaðar á kápur bóka hans víða um heim, meðal annars hérlendis,“ segir Friðrik.

Hann segir að verið sé að marka stefnu varðandi menningarstarfsemi í safninu. „Ætlunin er að vera þarna með reglulega viðburði um evrópska menningu, aðallega bókmenntir, einkum skáldsöguna sem var líf og yndi Milans, og fá gesti héðan og þaðan úr heiminum til að fjalla um það efni.“

Í byrjun mars tók Friðrik ásamt bókaútgefandum Jakobi F. Ásgeirssyni þátt í dagskrá í safninu í Brno þar sem þeir ræddu um Kundera á Íslandi, útgáfusögu bóka hans og móttökur og umfjöllun um bækur hans hér á landi. Jakob hefur gefið út allnokkur verk Kundera í þýðingu Friðriks hjá bókaforlagi sínu Uglu.

„Áður en Kundera kom fyrst hingað til lands árið 1992 kom Ísland fyrir á nokkrum stöðum í bókum hans og enn meira eftir það og ég ræddi um það á þessum viðburði,“ segir Friðrik. „Þetta var mjög notaleg stund. Búist hafði verið við tuttugu manns en það mættu hátt í hundrað manns, þetta átti að vera klukkutíma dagskrá en varð tveir tímar. Það var greinilega mikill áhugi á Milan en efnið þótti líka forvitnilegt.“

Samkeppni um minnismerki

Einn angi af verkefninu í Brno er að erlendir listamenn, þar á meðal íslenskir, geti dvalið í borginni í ákveðinn tíma og listamenn þaðan geti komið hingað til lands og dvalið í húsum sem Rithöfundasamband Íslands hefur umsjón með, til dæmis í Gunnarshúsi eða Gröndalshúsi.

„Ég vonast líka til að forstöðumaður safnsins, Tomas Kubicek, komi hingað til landsins og kynni starfsemina og segi frá þessari arfleifð og samstarfinu við Ísland, Frakkland og Taívan. Áhugi Taívanbúa á bókum Kundera er ört vaxandi kannski vegna þess að þeir eiga nokkuð ógnvænlegan nágranna, Kína, sem virðist vera að sýna tennurnar um þessar mundir. Þannig er staða þeirra að mörgu leyti hliðstæð stöðu Tékka og annarra smáþjóða í Mið-Evrópu og því sækja þeir í verk Kundera til að skilja hana betur. En skáldsögur Kundera eru fyrst og fremst tímalaus listarverk sem glíma við síbreytilegar kringumstæður mannsins í flóknum, hverfulum en líka vonandi fallegum heimi.

Ég er búinn að fara tvisvar til Brno sem er geysifalleg borg, ekki síður en höfuðborgin Prag sem margir Íslendingar þekkja, og það er gaman að sjá hversu mikill metnaður eru lagður í að halda hans nafni á lofti. Nú stendur til dæmis yfir samkeppni um minnismerki sem reist verður á gröf þeirra Kundera-hjónanna,“ segir Friðrik.

Þann 8. apríl verður Halldór Björn Runólfsson listfræðingur með fyrirlestur í safninu í Brno um íslenska myndlistarsögu og áherslan verður sérstaklega á Kristján Davíðsson og Kjarval sem eru þeir íslensku listamenn sem Kundera hreifst mest af í ferðum sínum hingað á sínum tíma. Friðrik segir að í íbúð Kundera í París hafi tvær myndir eftir Kristján Davíðsson hangið á heiðursstað við hlið tveggja verka eftir breska listmálarann Francis Bacon.

Passaði tímann

Bækur Kundara hafa hlotið góðar viðtökur Íslendinga og komu út hér á landi fljótlega eftir útkomu í Frakklandi þar sem rithöfundurinn bjó, sumar jafnvel sama ár.

„Seinni bækur hans komu út sama ár eða ári eftir að þær komu út í Frakklandi. Fáfræðin kom fyrst úr hér á landi, svo á Spáni og síðan í Frakklandi. Það að hún skyldi koma fyrst út á Íslandi var smá grín á milli okkar Kundera og hann var líka að þakka íslenskum lesendum fyrir að hafa tekið sér svo vel,“ segir Friðrik sem tekur sérstaklega fram að Morgunblaðið hafi alla tíð sinnt bókum rithöfundarins sérlega vel. „Ég held að Einar Falur Ingólfsson hafi skrifað um þær allar og allt frekar jákvætt, en hann er frábær gagnrýnandi og greinandi. Í tíð Matthíasar Johannessen sem ritstjóra Morgunblaðsins þýddi ég jafnóðum greinar sem Kundera birti um ýmis efni og Matthías var alltaf boðinn og búinn að birta þær í blaðinu. Mér finnst Morgunblaðið eiga mikinn heiður og þakkir skildar fyrir að hafa sinnt verkum Kundera svo vel.“

Friðrik og Kundera voru vinir í langan tíma, hittust fyrst árið 1984 þegar Óbærilegur léttleiki tilverunnar kom út á íslensku. „Þau hjónin voru bæði yndislegar og hlýjar manneskjur. Við borðuðum oft saman hádegisverð og það var alltaf glatt á hjalla og mjög gaman og gefandi að hitta þau. Kundera talaði aldrei um sjálfan sig og aldrei um verk sín og geispaði ef maður fór að tala um þau.

Hann var ekki mannblendinn, fór ekki mikið út á meðal fólks og vildi ekki láta taka myndir af sér opinberlega. Honum fannst mjög óþægilegt að vera innan um ókunnugt fólk á opnunum og samkomum. Vera var mikið að verja hann, svaraði til dæmis alltaf í símann. Hún var andlit hans og rödd út á við. Hann var vandfýsinn, sérstaklega þegar árin liðu. Hann passaði tímann vel enda er hann ekki endalaus eins og við vitum.

Hann átti ekki marga vini en var traustur vinur vina sinna. Hann var óskaplega greiðvikinn. Ég bað hann einu sinni að skrifa aftan á Penguin-útgáfu Íslendingasagnanna og hann gerði það eins og ekkert væri og það hefur örugglega aukið söluna. Hann var óskaplega hrifinn af Svaninum, skáldsögu Guðbergs Bergssonar, og skrifaði frábæran dóm um hann í stórt franskt fréttarit. Hann skrifaði óskaplega fallega um Kristján Davíðsson í sýningarskrá yfirlitssýningar í Listasafni Íslands í tilefni níræðisafmælis listamannsins.“

Tímalaus listaverk

Spurður um uppáhaldsbók sína eftir Kundera segir Friðrik: „Fyrsta bókin sem ég þýddi eftir hann var Óbærilegur léttleiki tilverunnar og hún skipti sköpum varðandi það að ég gat haldið áfram að þýða bækur hans. Mér þykir ákaflega vænt um þá bók.

Það er gaman að sjá að bæði skáldsögur Kundera og ritgerðir virðast lifa mjög góðu lífi og virðast ná til nýrra kynslóða. Síðasta bókin sem ég þýddi eftir hann, Vesturlönd í gíslingu, kom fyrst út árið 1983 og hefur komið út á hátt í 40 tungumálum á tveimur árum. Hún fjallar í stuttu máli um sögu og menningu smáþjóða í Mið-Evrópu og stöðu þeirra gagnvart stórveldum eins og Þýskalandi og Rússlandi og margítrekaðan yfirgang þeirra síðarnefndu í gegnum tíðina.

Þýðingar mínar á verkum Kundera eru drjúgur þáttur af ævistarfinu, 16 bækur alls. Sumir halda að ég hafi eingöngu þýtt verk eftir hann, sem er svo sem í góðu lagi, en staðreyndin er sú að ég hef alls þýtt hátt í 50 bækur úr frönsku, mest skáldsögur og ritgerðir. Auðvitað er ég stoltur og þakklátur, bæði fyrir að hafa verið treyst fyrir þessum þýðingum en sömuleiðis fyrir viðtökur fjölmiðla og lesenda og vona að verk höfunda eins og Kundera, Houellebecq, Laclos, Diderot, Némirovsky og Slimani, svo nokkir höfundar séu nefndir, lifi áfram. Ég vona að útkoma þeirra hafi auðgað menningu okkar og bókmenntir því allt eru þetta tímalaus listarverk sem glíma við síbreytilegar kringumstæður mannsins í flóknum og hverfulum en líka fallegum heimi.“