Guðrún Bjarkadóttir fæddist 1. apríl 1974. Hún lést 20. mars 2025.
Útför Guðrúnar fór fram 3. apríl 2025.
Í dag kveð ég kæra vinkonu, Guðrúnu Bjarkadóttur. Við kynntust fljótlega eftir að Guðrún flutti til Íslands frá Svíþjóð að loknu stúdentsprófi. Við unnum saman á Hrafnistu og urðum fljótt góðar vinkonur. Guðrún var einstaklega hjartahlý, brosmild og vinur vina sinna. Traustari vin var varla hægt að hugsa sér. Tíminn okkar á Hrafnistu var yndislegur, við unnum einstaklega vel saman, höfðum svipuð markmið og nutum vinskapar bæði utan sem innan vinnu. Við fórum svo saman í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands haustið 1995 og tengdi það böndin okkar enn betur. Guðrún var eins og klettur, stóð alltaf við bakið á manni. Hún var einstaklega vel gefin og langmesti prófessorinn af okkur öllum. Hún grúskaði í ótrúlegustu hlutum og kom með vitneskju til okkar sem náði margar aldir aftur í tímann. Guðrún var einnig mikil málamanneskja og kunni tungur margar og þrátt fyrir mikil veikindi síðustu mánuði gerði hún sér lítið fyrir og lærði velsku. Hún gafst aldrei upp þó svo að á móti blési.
Það voru forréttindi að fá að kynnast Guðrúnu og njóta vinskapar hennar og tryggðar í yfir 30 ár. Góðar minningar lifa í hjörtum okkar sem kynntumst henni.
Ég þakka Guði löngu liðinn dag
sem lét mig eignast þig að ævivin.
Og öll þau blóm sem uxu á þinni leið
með ilm og fegurð hresstu og glöddu mig.
Og birtan sem þú breiddir yfir allt
sló bjarma á lífið allt í kringum þig.
(Oddný Kristjánsdóttir)
Elsku Sunneva, Sæmundur og Snorri. Hugsanir mínar og bænir eru hjá ykkur á þessum erfiðu tímum. Ég votta ykkur og aðstandendum mína dýpstu samúð.
Jóhanna S. Kristjánsdóttir.