Fyrir utan Skalla Guðlaug ásamt borgarstjórahjónunum og forsetahjónunum í opinberri heimsókn forsetahjónanna til Reykjavíkur árið 2023.
Fyrir utan Skalla Guðlaug ásamt borgarstjórahjónunum og forsetahjónunum í opinberri heimsókn forsetahjónanna til Reykjavíkur árið 2023.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðlaug Steingrímsdóttir fæddist í Reykjavík 5. apríl 1945 og ólst upp til tíu ára aldurs á Stað á Seltjarnarnesi og gekk þar í Mýrarhúsaskóla. Þá fluttist fjölskyldan í Árbæinn og hefur Guðlaug búið þar meira og minna síðan

Guðlaug Steingrímsdóttir fæddist í Reykjavík 5. apríl 1945 og ólst upp til tíu ára aldurs á Stað á Seltjarnarnesi og gekk þar í Mýrarhúsaskóla. Þá fluttist fjölskyldan í Árbæinn og hefur Guðlaug búið þar meira og minna síðan.

Hún gekk í Laugarnesskóla og síðan Réttarholtsskóla eftir að hún flutti í Árbæinn. „Á þessum tíma var Árbæjarhverfið í uppbyggingu og engir barnaskólar komnir þar svo það var frekar langt fyrir okkur að sækja skóla, en okkur fannst ekki mikið mál að rölta þetta því skólabíllinn, sem var stundum í boði, var ekki alltaf á heppilegum tíma.

Ég átti svolítið merkilegan fermingardag, ég er elst í sex systkina hópi og þannig var að ekkert af systkinum mínum hafði verið skírt svo foreldrar mínir ákváðu að slá þessu öllu saman; fermingunni minni og skírn fimm yngri systkina minna – ég var nú ekkert mjög sátt með þetta en held að þetta þætti nokkuð merkilegt í dag.

Upp úr fermingu fór ég í sveit að Vindási á Rangárvöllum til Jóns og Karenar og var þar nokkur sumur.“

Guðlaug fór út á vinnumarkaðinn strax eftir gagnfræðaskóla. „Ég starfaði fyrst í matvöruverslun og um það leyti sem ég átti eldri börnin vann ég sem gangastúlka á Landakoti á næturvöktum. Seinna fór ég svo að vinna hjá Axeli Sigurgeirssyni kaupmanni í Axelsbúð í Barmahlíð 8.

Árið 1974 keyptum við af honum verslunina og hef ég verið í verslunarrekstri síðan, rekið Nesval á Seltjarnarnesi, Kjörbúð Hraunbæjar í Árbænum og endaði síðan í Skalla í Hraunbæ fyrir 41 ári og hef verið Gulla á Skallanum síðan!

Hestamennskan er fjölskyldusportið og eigum við hesthús í Víðidalnum og frá árinu 1984 höfum við byggt okkur upp aðstöðu á Breiðabakka við Ytri-Rangá þar sem við erum með hestana á sumrin og njótum sveitasælunnar með fjölskyldu og vinum.“ Guðlaug hefur verið viðloðandi félagsstörf á vegum hestamannafélagsins Fáks gegnum árin, setið í aðalstjórn og stjórn kvennadeildar og hlotið viðurkenningar fyrir störf hennar hjá félaginu. „Ég hef kynnst þar ógrynni af yndislegu fólki.”

Fjölskylda

Eiginmaður Guðlaugar er Jón Kristján Ólafsson húsasmíðameistari, f. 21.12. 1947, og búa þau núna í Grandahvarfi við Elliðavatn eftir að hafa búið alla tíð í Árbænum. „Við gáfum okkur góðan reynslutíma og giftum okkur eftir 43 ára sambúð þann 21.12. 2012. Foreldrar Jón Kristjáns voru hjónin Ólafur Kristjánsson bifreiðarstjóri, f. 16.3. 1920, d. 20.11. 1993, og Margrét Jónsdóttir, hattagerðarkona og húsmóðir, f. 17.11. 1918, d. 4.7. 1990.

Fyrri maki var Ellert Steingrímsson verkamaður, f. 26.7. 1943, d 18.1. 2016.

Börn Guðlaugar: 1) Ragnheiður Hulda Ellertsdóttir, f. 21.6. 1963, búsett í Reykjavík, maki: Daði Georg Arngrímsson, f. 23.2. 1961, synir þeirra eru Guðlaugur, f. 17.10. 1991 og Skorri, f. 25.12. 1996, og stjúpbörn Ragnheiðar Huldu, börn Daða, eru Óskar, f. 14.4. 1982, Guðrún Freyja, f. 27.4. 1986, og Erla Vinsý, f. 31.7. 1987. Barnabörn þeirra eru tíu; 2) Steingrímur Ellertsson, f. 13.12. 1965, búsettur í Reykjavík, maki: Kristrún Ágústsdóttir, f. 5.9. 1970, börn þeirra eru Birgitta, f. 28.9. 1991, og Ellert, f. 25.8. 2001, barnabörn þeirra eru þrjú; 3) Ólafur Kristján Jónsson, f. 5.1. 1972, búsettur í Reykjavík, maki: Júlíana Baldursdóttir, f. 29.6. 1974, börn þeirra eru Jón Kristján, f. 19.12. 1999, og Unnur Margrét, f. 13.5. 2004; 4) Margrét Jónsdóttir, f. 7.1. 1977, d. 10.1. 1977, og 5) Davíð Jónsson, f. 12.3. 1979, búsettur á Skeiðvöllum í Landsveit, maki: Katrín Ólína Sigurðardóttir, f. 22.3. 1973, börn þeirra eru Sigurður Smári, f. 4.2. 1998, og Guðlaug Birta, f 1.5. 2006.

Systkini Guðlaugar: Steingrímur Steingrímsson, f. 13.10. 1946, búsettur í Reykjavík; Sveinbjörg Steingrímsdóttir, f. 15.6. 1949, d. 8.8. 2024; Hrafnhildur Steingrímsdóttir, f. 15.2. 1951, búsett í Reykjavík; Elísa Steingrímsdóttir, f. 11.4. 1955, búsett í Garðabæ, og Auður Steingrímsdóttir, f. 19.9. 1956, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Guðlaugar voru hjónin Steingrímur Elíasson frá Oddhól á Rangárvöllum, f. 7.5. 1920, d. 5.5. 1996, sjómaður í Reykjavík, og Hulda Thorarensen frá Kirkjubæ á Rangárvöllum, f. 11.12. 1922, d. 16.12. 2005, húsfreyja í Reykjavík.