Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Fiskiskipum hefur hefur fækkað töluvert á undanförnum árum og voru 1.531 í árslok 2024. Til samanburðar voru fiskiskip hér á landi 1.814 talsins árið 2014.
Þetta kemur fram á heimasíðu Hagstofu þar sem vitnað er til talna frá Samgöngustofu.
Flest skipin á síðasta ári voru smábátar eða 820 og hefur fjöldi þeirra haldist mjög svipaður síðustu árin. Flestir smábátar eru á bilinu frá 3-7 tonn og um 88% smábátanna eru yfir 20 ára gamlir að sögn Hagstofunnar.
Togurum fækkar
Togurum hefur hins vegar fækkað jafnt og þétt á síðustu árum en þeir voru 70 árið 2004 en voru 37 á síðasta ári. Þá hefur vélskipum einnig fækkað með árunum, voru 869 árið 2004 en eru nú 675 talsins.
Lesa má úr gögnum Hagstofunnar að flest skip eru á Vestfjörðum, eða 398, og þar af eru smábátar 248. Næst flest eru skipin á Vesturlandi, 272, þá á Norðurlandi eystra, 204 og 198 skip eru skráð á Austfjörðum.
Af togurunum 37 eru níu á Norðurlandi eystra, fimm á höfuðborgarsvæðinu, Austurlandi og Suðurlandi, fjórir á Suðurnesjum og þrír á Vesturlandi, Vestfjörðum, og Norðurlandi vestra.