Hún er 1,2 metra breið yfir axlirnar, tæplega tveir metrar að lengd og vegur um 180 kíló. Það er loðfílskálfurinn sem vísindamenn gáfu nafnið Jana og er einn best varðveitti loðfíll sögunnar.
Jana litla var rúmlega eins árs þegar hún drapst, en það var fyrir um 130 þúsund árum að því er vísindamenn telja. Ekki er enn vitað úr hverju hún drapst. Hún var grafin upp á síðasta ári á Sakha-svæðinu í Síberíu þar sem hræ hennar hefur varðveist gríðarlega vel í sífreranum.
Á dögunum gerðu vísindamenn á rannsóknarstofu í Sankti Pétursborg krufningu á Jönu og söfnuðu þar ýmsum sýnum. Vonast þeir til að geta greint fornar örverur og eins ætla þeir að gera erfðarannsókn á plöntum og gróum sem Jana át.