Ballaða Á 11. breiðskífu bandaríska málmbandsins Machine Head, Unatoned, sem kemur út 25. apríl, verður að finna píanóballöðu, Scorn að nafni. Robb Flynn, gítarleikari og söngvari, kveðst vera veikur fyrir slíkum lagasmíðum og nefnir Elton John og Chris Stapleton sérstaklega í því sambandi í samtali við hlaðvarpsþáttinn The Garza Podcast. „Ykkur að segja þá hef ég verið að reyna að semja píanóballöðu fyrir síðustu fjórar plötur en það gekk aldrei upp. Núna negldi ég það loksins á þessari plötu,“ segir Flynn sem naut fulltingis Joels nokkurs Wanaseks. Unatoned er, að sögn Flynns, alls ekki þyngsta plata Machine Head en mikil áhersla ku vera á melódíska framvindu.