Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Hvað getur verið betra en að byrja daginn á góðum brag eftir Magnús Halldórsson:
Að standa við strokk sinn og glingra,
er staða sem forðum var kunn.
Og margt líka þjóðinni þyngra,
að þrælast við árar og hlunn.
Nú afkastafólkið er yngra,
sem alnetið þambar í grunn.
Það er snertiskjá snarótt að fingra
með snuð sitt og veiphólk í munn.
Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli Jónassyni:
Á slípirokkum oftast er,
uppi' á þaki sjaldan hér,
hún er mínu úri á,
undir bolta hana sá.
Eins og vísnaáhugamenn þekkja felst merking lausnarorðsins í hverri línu gátunnar. Það þvælist ekki fyrir Úlfari Guðmundssyni:
Rokksins skífa vinnur vel.
Varla skífur henta hér.
Stóra skífu trausta tel.
Tekur skífa ró með sér.
Lausnarorðið er skífa. Guðrún Bjarnadóttir er með á nótunum:
Af slípirokki slys án skífu
og slattaflott er skífa á þaki.
Úrskífan úr efni stífu.
Sú undir bolta dreifir taki.
Þá Harpa á Hjarðarfelli:
Skífa á rokkinn skrúfuð er.
Skífa upp á þakið fer.
Skífa á úri skondin, nett.
Skífa undir boltann sett.
Þá Helgi Einarsson:
Með skífu á rokknum ryðið fer.
Rauðleit skífa á þakinu er.
Skífa er mínu úri á,
einnig skífa er bolta hjá.
Magnað er hversu margar útgáfur er hægt að prjóna til svars. Helgi Jensson yrkir:
Föst við rokkinn skífan skal,
skífu sjaldan þakið ber,
úrin skreytir skífuval,
skífa undir bolta er.
Loks Skúli Pálsson:
Skífa getur skorið blikk,
skýlir húsi plata þykk,
skífuklukka skrafar „tikk“,
skrúfu gerir fasta-pikk.
Þá er það vísnagáta Páls fyrir næstu viku:
Stundum þínu eyra á,
ekki traustur piltur sá,
kind sem gömul ekki er,
amerískur trukkur hér.