Í ljósi umræðu um mögulega sameiningu Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst er mikilvægt að tryggja að fyrrnefndi skólinn haldi sérstöðu sinni og styrk svo að hann verði áfram drifkraftur menntunar, rannsókna og samfélags á Norðurlandi. Þetta segir í ályktun bæjarstjórnar Akureyrar frá því nú í vikunni.
Háskólinn á Akureyri er burðarás á Norðurlandi, segir bæjarstjórn. Með víðtæku framboði á námi og staðbundinni þekkingarsköpun styður hann við byggðaþróun, jafnræði í menntun og nýsköpun. Hefur skólinn og reynst lykill að því að halda ungu fólki í heimabyggð, laða að nýja íbúa og skapa fjölbreyttari atvinnumöguleika.