Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Það er komið í ljós hversu misráðið það var að færa eftirlit með póstþjónustu frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar, samhliða því sem Byggðastofnun eigi að framkvæma byggðastefnu stjórnvalda. Jafnframt liggur fyrir að gríðarlegt tap hefur orðið af alþjónustu Íslandspósts.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í erindi Félags atvinnurekenda (FA) til innviðaráðuneytisins og fleiri aðila í stjórnkerfinu, þar með talið Samkeppniseftirlitsins.
Til upprifjunar er kveðið á um það í lögum um póstþjónustu (nr. 98/2019) að allir notendur póstþjónustu á Íslandi skuli eiga rétt á alþjónustu sem uppfyllir gæðakröfur og er á viðráðanlegu verði.
„Félag atvinnurekenda (FA) hefur vaxandi áhyggjur af að það hafi reynzt rétt sem félagið varaði við í umsögn til Alþingis, er lagt var fram frumvarp um flutning eftirlits með póstmarkaði til Byggðastofnunar á 151. löggjafarþingi, að það gæti reynzt stofnuninni erfitt að sinna samtímis framkvæmd byggðastefnu stjórnvalda og hlutlægu eftirliti með samkeppni á póstmarkaði,“ segir í erindinu sem var ritað af Ólafi Stephensen framkvæmdastjóra FA.
Skal stuðla að samkeppni
Samkvæmt lögum um póstþjónustu (nr. 98/2019) skal Byggðastofnun meðal annars „stuðla að samkeppni á sviði póstþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti með því að vinna gegn röskun eða takmörkun samkeppni á póstþjónustumarkaði“.
Félag atvinnurekenda telur hins vegar að á grundvelli óljósra reglna stofnunarinnar hafi Íslandspósti ohf. (ÍSP) verið veitt fjárframlög úr ríkissjóði frá árinu 2020 sem teljast í milljörðum, þvert á ákvæði laganna.
Undirverðlagning skýringin
„Ekki verður annað séð en að stór hluti fjárframlaga til handa ÍSP frá byrjun árs 2020 sé tilkominn vegna undirverðlagningar á samkeppnismörkuðum,“ segir í erindinu frá Félagi atvinnurekenda.
Skuli vera viðráðanleg
Síðan eru tiltekin ýmis dæmi sem talin eru staðfesta hversu illa Byggðastofnun hafi gengið að fóta sig í lögbundnu eftirlitshlutverki sínu á póstmarkaði. Rifjuð er upp 1. mgr. 17. gr. áðurnefndra laga um póstþjónustu en þar sé mælt fyrir um að gjöld fyrir alþjónustu skuli vera „viðráðanleg“ fyrir notendur þannig að þeir geti notfært sér þjónustuna. Jafnframt sé í 3. mgr. sömu greinar kveðið á um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af „raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði“.
Sýnilega vel undir kostnaði
„Þrátt fyrir að mælt sé fyrir um það í 3. mgr. 17. gr. laganna að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði liggur fyrir að gríðarlegt tap hefur verið af alþjónustu ÍSP. Af þessu má ljóst vera að gjaldskrá ÍSP fyrir alþjónustu hefur ekki uppfyllt skilyrði 3. mgr. 17. gr. enda er verðlagning félagsins sýnilega vel undir kostnaði. Þá verður ekki séð að ástæðu þess að gjaldskráin tekur ekki mið af kostnaði af því að veita alþjónustuna sé að rekja til þess að gjöld yrðu óviðráðanleg fyrir notendur ef þau uppfylltu skilyrði lagaákvæðisins,“ segir enn fremur í erindinu.
Meðvitað undir kostnaði
Það sé einnig ljóst, ef horft er til ákvarðana Byggðastofnunar, að stofnunin hafi aldrei komist að niðurstöðu um hvað teljist vera viðráðanlegt verð, samanber 1. mgr. 17. gr. laganna. Það liggi nú fyrir að alþjónustuveitandi, þ.e.a.s. Íslandspóstur, hafi um langt árabil tekið ákvörðun um að verðleggja gjaldskrár innan alþjónustu undir kostnaði við að veita þjónustuna, án athugasemda eftirlitsaðilans.
Þá er vikið að aðferð Byggðastofnunar við ákvörðun gjaldskrár. Stofnunin fylgi þeirri aðferðafræði við mat á gjaldskrá Íslandspósts fyrir alþjónustu „að bera nýjar gjaldskrár fyrirtækisins saman við eldri gjaldskrár og meta hvort hækkanir séu í samræmi við breytingar á launavísitölu og vísitölu neysluverðs“. Það veki sérstaka athygli í ljósi þess að með því sé verið að festa í sessi verðlagningu innan alþjónustu sem sé langt undir kostnaði.
Niðurstaðan sé að Byggðastofnun hafi vanrækt lögbundið hlutverk sitt. „Svo virðist sem stofnunin, sem á að hafa eftirlit með samkeppni á póstmarkaðnum, dragi iðulega taum ríkispóstfyrirtækisins á kostnað keppinauta,“ segir þar að lokum.