Jón Þormar Pálsson fæddist 25. júní 1966. Hann lést 22. mars 2025.

Útför fór fram 4. apríl 2025.

Þrír bræður í stórum systkinahópi á Hvassafelli, undir einu fallegasta fjalli á Íslandi, Steinafjallinu undir Austur-Eyjafjöllum. Jón Þormar er einn úr þessum hópi yngri deildarinnar og minningin er afar sterk og ég svo heppinn að hafa fengið að vera eins og heimagangur með góðum vinum. Hún Bogga móðir þeirra vissi alveg til hvers þvottavélar voru notaðar, því drengirnir hennar voru þó nokkuð göslusamir og létu sér fátt óviðkomandi.

Jón Þormar varð snemma eftirminnilegur, uppátækjasamur, atorkumikill og snemma góður að svara fyrir sig. Þrátt fyrir að málhelti í formi stams hafi alla tíð verið hans fylgifiskur gat hann notað það sem hárbeitt vopn ef svo bar undir og tilsvör hans eru mörg hver ódauðleg og óborganleg. Það varð snemma ljóst að Jón sóttist ekkert eftir því að fara endilega sömu slóð og aðrir í kringum hann, gerði hreinlega í því að vera með aðeins önnur áhugamál og prófa sem flest og það fylgdi honum svo alla tíð að vera ekki að dvelja allt of lengi við sama hlutinn, nema að sjálfsögðu fjölskylduna og vinina.

Jón Þormar var einstaklega fjölhæfur maður sem gat allt sem hann tók sér fyrir hendur og það fékk ég svo sannarlega að reyna við þau störf sem hann vann fyrir mig á árum áður í hestaferðum þar sem Jón sá um matinn fyrir stóra hópa ferðafólks og trússaði líka auk þess að vera skemmtilegasti félaginn á kvöldvökunum.

Hann vann líka hjá mér í sláturhúsi SS á Selfossi og það var ógleymanlegur tími. Jón gekk til verka án vandamála eins og hann átti kyn til og var hrókur alls fagnaðar, hafði gaman að að æsa menn upp og halda fram málstað sem hann vissi að myndi efla samræðurnar. Um tíma fann hann mjög viðkvæman blett á sauðfjárbændum og talaði gjarnan um ullarpöddurnar og-eða þjóðarbölið, enda brást það ekki að hann náði mönnum í hæstu hæðir og hló svo sínum eftirminnilega hlátri þar sem sást hreinlega ofan í maga.

Jón varð samt að lokum sauðfjárbóndi af mikilli áststríðu og mörgum fremri þar eins og í svo mörgu öðru.

Á gleðistundum brást það varla að Jón sönglaði lagstúfinn með sínu einstaka lagi „og svo hittumst við aftur á miðri leið“ og það er ég líka viss um að það verða hátíðarfundir í efra þegar enn einn gleðipinninn kemur þar og knýr dyra í himnaríki.

Huldu Karólínu, börnunum og systkinum sendum við Sigga okkar innilegustu samúðarkveðjur með þökk fyrir ómetanlega vináttu og hjálpsemi alla tíð.

Hermann Árnason.

Það var mikið gæfuspor þegar ég ungur drengur á 14. ári tók er ég mætti í fyrsta sinn að Böðmóðsstöðum vorið 2007. Þau gæfuspor urðu að miklum, kærum og góðum vinskap við kæran frænda og vin sem nú þegar hefur kvatt þessa jarðvist.

Jón Þormar frændi minn og Hulda Kalla hafa alla tíð síðan þá reynst mér afskaplega vel eftir að ég gerðist vinnumaður hjá þeim þá um sumarið. Ég eignaðist aðra fjölskyldu og annað heimili og hef ég alltaf getað sótt til þeirra jafnt á við mína eigin foreldra. Traust þeirra gagnvart ungum piltinum byggði upp mikið sjálfstraust sem verður ekki aftur tekið. Það voru því mjög erfið tíðindi er Hulda hringdi í mig og tjáði mér að frændi væri fallinn frá, bráðkvaddur.

Hugurinn fór strax á flug hugsandi um liðna tíma og yndislegar minningar sem ég hef skapað með kærum vin. Hvort sem það eru utanlandsferðir bæði þegar ég fór með fjölskyldunni til Færeyja í fimmtugsafmælisferðina eða þegar við frændurnir fórum ásamt Styrmi Snæ til að fylgjast með útskrift Huldu úr dýralæknanáminu í Slóvakíu. Hreindýraveiðiferð austur á land í góðra vina hópi. Eða þegar við sátum svo ótal sinnum í sitthvorum hægindastólnum með kaffibolla og mola að fara yfir veðurspána í textavarpinu eða eins og síðast er við hittumst og sátum yfir einum köldum og áttum skemmtilegar rökræður um blessað kjötmatið og lífdómana á sauðfénu. Allt eru þetta dýrmætar minningar sem maður býr að um ókomna tíð. Kæri frændi, ég vil þakka þér fyrir samfylgdina sem var svo skemmtileg og það verður svo mikill söknuður að hún skyldi ekki hafa getað verið lengri.

Kæru vinir Hulda Kalla, Hulda Jóns, Vilborg Hrund, Emil, Styrmir Snær, Soffía Ýr og Hrannar Snær. Mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Bjarki Freyr Sigurjónsson.