Grindavík er óvænt komin í 2:0 gegn Haukum í átta liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta eftir 87:73-heimasigur í öðrum leik liðanna í gærkvöldi. Haukar unnu deildarmeistaratitilinn með sannfærandi hætti á meðan Grindavík rétt komst í úrslitakeppnina. Deildarmeistararnir eru hins vegar með bakið upp við vegg og geta farið í sumarfrí er liðin mætast í þriðja leik á þriðjudagskvöld.
Haukar voru í góðri stöðu í fyrsta leik þegar hin bandaríska Diamond Battles meiddist. Við það færðist aukin trú í Grindavíkurliðið en Haukar lentu í vandræðum. Leikurinn í gær var framhald af því. Haukar fundu ekki svör án Battles og Grindavík gekk á lagið.
Isabella Ósk Sigurðardóttir átti annan stórleik fyrir Grindavík, skoraði 22 stig og tók 18 fráköst. Daisha Bradford gerði einnig 22 stig. Lore Devos var langbest hjá Haukum, skoraði 39 stig og tók tíu fráköst.
Keflavík er einnig einum sigri frá undanúrslitum eftir útisigur á Tindastóli, 90:78. Rétt eins og í fyrsta leik voru Keflvíkingar með undirtökin nær allan tímann og virðast ríkjandi meistararnir of sterkir fyrir Skagfirðinga, sem voru nýliðar í efstu deild í vetur.
Jasmine Dickey skoraði 30 stig fyrir Keflavík og Sara Rún Hinriksdóttir gerði 25. Randi Brown skoraði 23 stig og tók tíu fráköst fyrir Tindastól. Brynja Líf Júlíusdóttir bætti við 15 stigum.