Suður-Kórea Forsetinn fyrrverandi fyrir dómstól fyrr á árinu.
Suður-Kórea Forsetinn fyrrverandi fyrir dómstól fyrr á árinu. — AFP/Jeon Heon-Kyun
Yoon Suk Yeol hefur verið leystur úr embætti forseta Suður-Kóreu. Stjórnlagadómstóll landsins komst að þeirri niðurstöðu í gær, en þingið hafði áður samþykkt vantraust á Yoon. Vantraustið var samþykkt í desember og var hann þá fyrst leystur úr embætti

Yoon Suk Yeol hefur verið leystur úr embætti forseta Suður-Kóreu. Stjórnlagadómstóll landsins komst að þeirri niðurstöðu í gær, en þingið hafði áður samþykkt vantraust á Yoon.

Vantraustið var samþykkt í desember og var hann þá fyrst leystur úr embætti. Áður hafði Yoon reynt að koma herlögum í gegnum þingið.

Stuðningsmenn og andstæðingar Yoon fylgdust með beinni útsendingu fréttamiðla á götum úti í Seúl.

„Í ljósi víðtækra brota hans á stjórnarskránni og alvarlegra áhrifa þeirra höfum við komist að því að Yoon Suk Yeol skuli víkja úr embætti forseta,“ sagði skipaður dómari við dóminn.

Ákvörðunin tekur gildi strax, og verður eftirmaður Yoons kjörinn í kosningum sem verða að fara fram fyrir 3. júní.

Í dómnum segir að Yoon hafi brotið grunnreglur lýðræðisins. Þá braut hann gegn þeirri reglu að her landsins skuli starfa óháð pólitískum línum þegar hann skipaði vopnuðum hermönnum að fara inn í þinghúsið í tilraun til að koma í veg fyrir að þingmenn kysu um vantraust gegn honum.

Í tilkynningu sem Yoon sendi frá sér í kjölfar dómsins baðst hann afsökunar á því að hafa ekki staðið undir væntingum þjóðarinnar.

Ji Yeon Hong, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Michigan, segir við AFP-fréttaveituna að Yoons verði líklegast minnst sem leiðtoga sem var í grunninn ekki tilbúinn, og mögulega ekki í stakk búinn, til að gegna embætti forseta. „Hann áttaði sig engan veginn á því valdi sem honum var treyst fyrir og sýndi að hann hafði hvorki grunnskilning á lýðræðinu né leiðtogahæfileika til að gegna embættinu,“ sagði prófessorinn.