Gunnar Valgeirsson
Gunnar Valgeirsson
Margir eru hissa á að helmingur kjósenda í Bandaríkjunum skuli hafa kosið Trump í ljósi hegðunar hans og fyrri ákvarðana í embætti.

Gunnar Valgeirsson

Eftir sigur Donalds Trump í forsetakosningunum í nóvember síðastliðnum voru margir hér vestra hissa á að helmingur kjósenda skyldi hafa endurkosið hann eftir veru hans í embættinu á fyrra kjörtímabili hans. Það þurfti hins vegar lítið annað en að fylgjast með almennum fréttum til að sjá hvað þessi úrslit myndu þýða næstu fjögur ár og eflaust lengur.

Musk og vélsögin

Eitt af fyrstu verkum forsetans var að ráða ríkasta mann heims, Elon Musk, til að skera niður eins mikið af störfum í alríkisgeiranum og hægt væri. Markmiðið var sagt að ná tökum á fjárlagahalla Bandaríkjanna, sem er alvarlegt vandamál fyrir þjóðina til lengri og skemmri tíma. Vandamálið við þessar aðgerðir Musks er að þær eru hrein sýndarmennska. Aðeins 15% af útgjöldum alríkisins hér vestra fara í þá málaflokka sem Musk er að skera. 85% af fjárlögum fara í heilsugæslu fyrir aldraða og þá fátæku, herinn, vexti af ríkisskuldum og almannatryggingar aldraðra. Musk hefur ekki snert þá málaflokka, en í staðinn ráðist á ríkisstarfsfólk sem sinnir veðurspá, gagnasöfnun af öllum toga, þjóðgarðsverði, sérfræðinga í læknarannsóknum, og hann skar út heilu deildirnar í skattastofnun alríkisins – þær sem endurskoða framtöl þeirra ríku og stórfyrirtækja. Þessi síðasti niðurskurður afhjúpar augljóslega að þessar aðgerðir eru ekki til þess að minnka fjárlagahallann af nokkurri alvöru.

Repúblikanar gagnrýna mikið ríkisbáknið svokallaða og vissulega er ávallt tími til að hagræða á þeim bænum. Flestir skattgreiðendur vilja að ríkisgeirinn fari vel með skattfé, hvar sem þeir búa. Þegar Repúblikanar taka svo við völdum í Washington gengur þeim oft illa að takast á við vandann, sem hlýtur að benda til þess að forysta flokksins líti kannski minna á þetta sem vandamál en hún lætur í veðri vaka. Aftur á móti skar stjórn Bills Clinton um 400.000 störf hjá alríkinu á sjö árum, sameinaði 800 stofnanir og fjarlægði yfir 600 þúsund síður af reglum. Þetta var hægt án mikils skaða, þar sem ferlið var framkvæmt af ábyrgð og í samvinnu stofnana og þingsins.

Sem sagt alvöru pólitík.

Af efnahag og eggjum

Ef litið er á efnahagsmál í víðara samhengi hafa flestar ákvarðanir forsetans til þessa leitt til óstöðugleika, sérstaklega hvað varðar aðgerðir stjórnar hans varðandi innflutningstolla og ákvarðanir hans um að reka sautján eftirlitsstjóra ríkisstofnana. Hlutverk þeirra embætta er að meta hvernig ráðuneyti alríkisins eru að fara eftir landslögum og þá sérstaklega fjárlögum.

Afleiðingarnar af ákvörðunum stjórnarinnar voru þær í byrjun að fjárfestar á Wall Street töpuðu fimm þúsund milljörðum dollara fyrstu þrjár vikurnar á kjörtímabilinu, og eftir að innflutningstollarnir voru settir á 2. apríl kom svo annar skellur. Í sjálfu sér hefðu margir litlar áhyggjur af þessu tapi, þar sem flestir fjárfestar eru í ríkari kantinum og ekki endilega hópurinn sem áhyggjur ætti að hafa af. Hins vegar er hér einnig um að ræða þúsundir eftirlaunasjóða, þar sem eftirlaun milljóna millistéttarfólks eru fjárfest beint og óbeint á fjárfestingarmarkaðnum. Við erum því að tala hér um efnahagslega framtíð milljóna millistéttarfjölskyldna.

Ofan á þessi mál bætist svo að innflutningstollarnir og aðrar ákvarðanir Trump-stjórnarinnar munu líklega leiða til þess að verðbólgan hér vestra muni aukast frekar en hitt á næstu mánuðum – enn eitt mál sem mun koma sér illa fyrir flesta landsmenn. Í þessu sambandi er rétt að benda á að Trump og varaforsetaframbjóðandinn J.D. Vance hömruðu á hækkun á verði á eggjum síðustu vikurnar í kosningabaráttunni og Trump lofaði í hverri ræðunni á fætur annarri að fyrsta verkefni sem hann myndi einbeita sér að um leið og hann tæki við embættinu yrði að lækka verð á eggjum og matarkostnað almennt.

Þjóðin er enn að bíða eftir því að hann og Vance beini athygli sína að málinu. Í millitíðinni hækkar verð á eggjum daglega.

Kostnaður hvar sem litið er

Fyrir utan þessa málaflokka er augljóst að mikill skaði mun verða af breytingum í stefnu Bandaríkjanna í alþjóðamálum. Stríð, sjúkdómar, stuðningur við einræðisherra og aukinn óstöðugleiki kosta sitt á misjafnan hátt þegar til framtíðar er litið.

Árás forsetans á umhverfisvernd á sér fá fordæmi en var fyrirsjáanleg af því sem hann sagðist myndu gera í þessum málum í kosningabaráttunni. Komandi kynslóðir hérlendis munu greiða kostnaðinn af meiri mengun og umhverfisspjöllum um áratugi.

Það hafði víst lítil áhrif á um helming kjósenda, þrátt fyrir að flestir Bandaríkjamenn séu hliðhollir umhverfisvernd.

Í raun hefur forsetinn eytt mestum tíma sínum og athygli þessa fyrstu tvo mánuði í menningarstríð og árásir á alla sem hann telur að séu ekki honum hliðhollir. Þetta sést af árásum hans á fjölmiða, einstaka dómara, háskóla, vísindafólk, listafólk, innflytjendur og venjulega þegna sem mótmæla ákvörðunum stjórnar hans með löglegum hætti. Þessar árásir munu á endanum hafa mikil áhrif á sérfræðikunnáttu og hana er erfitt að byggja upp aftur þegar einstaklingarnir í þessum störfum hafa annaðhvort hætt eða flutt úr landi.

Árásir Trumps á opinberar stofnanir eru til þess gerðar að hlífa honum frá „kerfinu„ þegar hann ákveður að gera ólöglega eða ósiðferðilega hluti, eða gera hluti sem eru stórfyrirtækjum og ríku fólki í hag, sem skaðar þá minni máttar í hvaða hópi sem þeir kunna að vera.

Þetta elskar hins vegar stuðningsfólk hans – þar til það bitnar á því.

Nýr fjölmiðlaheimur

Á endanum lendir þó allt þetta á almenningi hér í landi, því um helmingur kjósenda kaus Trump þrátt fyrir allt sem gengið hefur á. Fyrir marga íslenska vini mína og vandamenn er erfitt að skilja gapið á milli sögulegra bandarískra gilda („bandaríska trúin„ eins og sænski félagsfræðingurinn Gunnar Myrdal kallaði það) – það sem þjóðin er sögð standa fyrir – og ákvarðana kjósenda að styðja mann eins og Trump, sem virðist andsnúinn þessum undirstöðugildum þjóðarinnar.

Stuðningsfólk Trumps styður hann þar sem það telur hann vera að „gera“ hluti, ólíkt því sem það sér hjá öðrum forsetum. Fyrir um helming kjósenda er sýnileg „framkvæmd“ mikilvægari en alvöru stjórnun byggð á samvinnu og praxís.

Áhrif falsfrétta og notkun gervigreindar til að láta líta út fyrir að fréttir á samfélagsmiðlum séu frá hefðbundnum miðlum með menntað fjölmiðlafólk er nokkuð sem skrifað hefur verið um í leiðurum þessa blaðs undanfarið. Skoðanakannanir stjórnmálafræðinga hafa sýnt að því minna sem kjósendur vissu um hvað væri í raun að gerast í þjóðfélaginu, því líklegra voru þeir að kjósa Trump og Repúblikana.

Þetta notfærði Trump sér vel á meðan Demókratar voru langt á eftir að sjá áhrif þessara nýju miðla á skoðanir fólks.

Þessi þáttur hafði kannski meiri áhrif á kosningaúrslitin en það sem frambjóðendur voru að segja í kosningabaráttunni, til að mynda hvar væri að gerast í þjóðfélaginu, hvað þeir stæðu fyrir og hvað þeir vildu gera.

Ef svo er, hvað segir það okkur um lýðræðið?

Höfundur er félagsfræðingur búsettur í Los Angeles.

Höf.: Gunnar Valgeirsson