Glaumur og gleði einkenndi fas nemenda á peysufatadaginn sem haldinn var samkvæmt hefð hjá Kvennaskóla Reykjavíkur í gær. Venjan á rætur að rekja til stofnunar skólans árið 1874 þegar hefð skapaðist fyrir því að nemendur væru í íslenskum búningi í skólanum. Það var svo árið 1921 sem sú hefð hófst að nemendurnir kæmu klæddir peysufötum í skólann. Síðan þá hefur peysufatadagurinn jafnan verið endurtekinn einu sinni á skólaári með vaxandi viðhöfn. Þessi hefð er því orðin rúmlega hundrað ára gömul og þykir ómissandi liður í skólastarfinu að því er kemur fram á vefsvæði skólans.
Veður lék við viðstadda og eins og sjá má voru nemendur brosmildir þegar þeir stigu dans og nutu samverunnar.