Við húsið Á þessum drögum arkitekta má sjá hvar biðstöðin verður.
Við húsið Á þessum drögum arkitekta má sjá hvar biðstöðin verður. — Teikning/A2F/Gríma arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við kynningu á breyttu deiliskipulagi vegna uppbyggingar í Safamýri 58-60 tóku fulltrúar borgarinnar fram að gott aðgengi væri að þjónustu strætó á lóðinni. Það er nú komið í ljós með því að verið er að reisa aðra hæðina í nýju fjölbýlishúsi í…

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Við kynningu á breyttu deiliskipulagi vegna uppbyggingar í Safamýri 58-60 tóku fulltrúar borgarinnar fram að gott aðgengi væri að þjónustu strætó á lóðinni. Það er nú komið í ljós með því að verið er að reisa aðra hæðina í nýju fjölbýlishúsi í Safamýri 58-60, en á mynd hér til hliðar má sjá hvernig nýbyggingin er samsíða strætóskýlinu við Háaleitisbrautina.

Þegar breytingar á deiliskipulagi í Safamýri voru kynntar í nóvember 2023 var einmitt getið um nálægð við almenningssamgöngur:

„Deiliskipulagstillagan styrkir svæðið með fjölgun íbúða, til samræmis við stefnu um þéttingu byggðar í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Með tillögunni fjölgar íbúum á svæðinu sem stuðlar að betri nýtingu á núverandi innviðum borgarinnar og styrkir verslun á svæðinu. Staðsetning byggingarinnar er góð með tilliti til opinberrar þjónustu og tengist vel helstu göngu- og hjólaleiðum innan borgarinnar. Jafnframt eru almenningssamgöngur góðar í næsta nágrenni svæðisins, m.a. með stoppistöð strætó við austanverð lóðamörk,“ sagði þar orðrétt. Þess má geta að sama skipulag er á þéttingarreitnum Snorrabraut 62, en þar er biðstöð Strætó líka rétt upp við austurhliðina.

Almenningssamgöngur munu verða enn tíðari í Safamýri ef fyrirhuguð borgarlína verður að veruleika og með því tíðari áætlunarferðir á Miklubraut.

Fjölbýlishúsið í Safamýri 58-60 er með steyptum grunni og sett saman úr forsteyptum einingum. Fyrsta skóflustungan var tekin 9. október 2024 og er áætlað að íbúðirnar verði tilbúnar til leigu í júní 2026.

Fjölbýlishúsið var hannað með tilliti til nálægðar við umferðargötu, en skammt frá eru fjölfarin gatnamót á mörkum Háaleitisbrautar og Miklubrautar. Kemur það meðal annars fram í því að húsið skiptist í tvær samtengdar álmur, en sú hönnun skapar skjól í inngarði.

Fram kom í samtali Morgunblaðsins við Björn Traustason, framkvæmdastjóra Bjargs, 1. nóvember síðastliðinn að verkefnið í Safamýri væri í dýrari kantinum fyrir félagið.

Aðstæður til uppbyggingar væru erfiðar og auknar kröfur um hljóðvist kostuðu sitt. Ákjósanlegra væri að brjóta nýtt land eða byggja á ódýrari svæðum.

Höf.: Baldur Arnarson