Kynningarfundur Fjölmenni var á fundinum þar sem fulltrúar Carbfix og sveitarstjórnar kynntu verkefnið.
Kynningarfundur Fjölmenni var á fundinum þar sem fulltrúar Carbfix og sveitarstjórnar kynntu verkefnið. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íbúar Húsavíkur og nærsveita fjölmenntu á íbúafund í fyrradag þar sem Carbfix, dótturfyritæki OR, og sveitarstjórn Norðurþings kynntu viljayfirlýsingu um uppbyggingu niðurdælingarstöðvar fyrir koldíoxíð á Bakka við Húsavík auk annarra verkefna sem snúa að nýtingu innviða í héraðinu

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Íbúar Húsavíkur og nærsveita fjölmenntu á íbúafund í fyrradag þar sem Carbfix, dótturfyritæki OR, og sveitarstjórn Norðurþings kynntu viljayfirlýsingu um uppbyggingu niðurdælingarstöðvar fyrir koldíoxíð á Bakka við Húsavík auk annarra verkefna sem snúa að nýtingu innviða í héraðinu.

Hjálmar Bogi Hafliðason, varaformaður byggðaráðs Norðurþings, segir við Morgunblaðið að fundurinn hafi verið jákvæður og fram hafi komið krefjandi spurningar gagnvart verkefninu.

„Carbfix hafði samband við okkur fyrir nokkrum mánuðum og við erum búin að gefa út óskuldbindandi yfirlýsingu um að skoða möguleikann á uppbyggingu í tengslum við grænan iðngarð á Bakka,“ segir Hjálmar Bogi.

Grænn iðngarður á Bakka

Grænn iðngarður á Bakka við Húsavík hefur verið í undirbúningi í meira en áratug í samstarfi við PCC um að nýta heita vatnið, höfnina og þá innviði sem byggðir hafa verið á Bakka, en þar er eins og kunnugt er starfsemi PCC, kísilmálmvers.

„Þetta fer vel saman með grænum iðngarði eða hringrásargarði þar sem fyrirtækin nota straum hvort frá öðru. Þetta getur mögulega fangað losun á kolefni frá PCC. Á uppbyggingartíma er gert ráð fyrir allt að 500 störfum og 80-100 störfum eftir að framkvæmdum lýkur. Störfin sem skapast eru fjölbreytt kvenna- og karlastörf. Sveitarfélagið er jákvætt fyrir uppbyggingu Carbfix og þverpólitískur stuðningur er um málið.“ Ekki liggur fyrir á þessari stundu hver kostnaðurinn verður en gert er ráð fyrir að rekstur geti hafist árið 2029.

„Ef af þessu verður þarf sveitarfélagið að bregðast við með úthlutun lóða fyrir íbúðir og byggingu leikskóla, en grunnskólinn getur tekið við fleirum. Það eru til íbúðalóðir þar sem við erum stækkandi samfélag og samkvæmt okkar húsnæðisáætlun þurfum við að byggja meira,“ segir Hjálmar Bogi.

200 manns fylgdust með fundi

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags og fundarstjóri á fundinum, segir að tilefni fundarins hafi verið að kynna íbúum verkefnið.

Fundurinn var að sögn Aðalsteins vel sóttur og auk þess var honum streymt til hátt í tvö hundruð manns. Fyrir svörum sátu Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar, Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix og Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri sem sagði frá aðkomu sveitarfélagsins að málinu.

Aðalsteinn segir fundarmenn hafa lagt fram spurningar sem forsvarsmenn verkefnisins leituðust við að svara eftir bestu getu.

„Ekki var annað að heyra á fundargestum en þeir hefðu verið ánægðir með fundinn og mun fróðari um verkefnið en áður,“ sagði Aðalsteinn.

Höf.: Óskar Bergsson