Ester Rafnsdóttir snyrtifræðingur fæddist í Reykjavík 18. mars 1972. Hún lést 3. mars 2025.

Foreldrar hennar eru Auður Kristjánsdóttir, fv. starfsmaður sundlaugarinnar í Breiðholti, f. 24. júlí 1947, og Rafn Sævar Heiðmundsson stálsmiður, f. 4. maí 1946. Eiginkona Rafns er Auður Jónsdóttir, fv. bankastarfsmaður, f. 9. júlí 1946. Ester var einkabarn móður sinnar, hún á þrjú systkini samfeðra, þau eru: 1) Þórdís lyfjafræðingur, f. 26. apríl 1966, dóttir hennar er Ylfa Helgadóttir matreiðslumeistari, f. 13. júlí 1988, sonur Ylfu er Helgi Pétur Alfreðsson, f. 4. desember 2019, hans faðir Alfreð Pétur Sigurðsson, f. 21. janúar 1983. 2) Magnús Rannver verkfræðingur, f. 21. janúar 1971, börn hans eru Einar Rafn, f. 19. október 2002, og Auður Rán, f. 19. ágúst 2005, móðir þeirra Sigrún Brynja Einarsdóttir, f. 3. febrúar 1973. 3) Heiða teiknari, f. 20. september 1974, hennar maður er Rafn Hilmar Guðmundsson, f. 30. desember 1973, og eiga þau tvö börn: Óskar, f. 5. apríl 2006, og Þórdísi, f. 27. desember 2007.

Ester ólst upp hjá móður sinni í Efra-Breiðholti. Hún gekk í Fellaskóla og lauk grunnskólaprófi árið 1988 með hæstu einkunn. Eftir það fór hún í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og lauk stúdentsprófi af málabraut árið 1993, sem dúx skólans. Á framhaldsskólaárum sínum fór hún til London til að sinna börnum og dvaldi þar í nokkra mánuði. Hún hóf síðan nám í Háskóla Íslands við hugvísindasvið og lagði stund á spænsku frá árinu 1994. Að því loknu lá leið hennar til Madrídar, þar sem hún lærði og starfaði á árunum 1994-1996. Næstu árin starfaði hún á skrifstofu Vistaskipta og náms, þar sem hún aðstoðaði íslensk ungmenni við að finna fjölskyldur sem leituðu eftir aðstoð við barnagæslu eða viðeigandi nám. Síðar starfaði hún fyrir flugfélagið Air Atlanta og tók þátt í pílagrímsflugi, meðal annars til Nígeríu, Sádi-Arabíu og fleiri ríkja. Hún lauk störfum hjá Air Atlanta árið 2001 og hóf nám í snyrtifræði. Hún útskrifaðist árið 2005 og hóf störf hjá snyrtistofunni Helenu fögru sama ár. Þar vann hún næstu sautján ár.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Elsku hjartans Ester okkar, við trúum því varla enn að þú sért farin frá okkur og sorgin er óbærileg. Þú sem varst tekin frá sjálfri þér og okkur öllum svo snöggt en í raun og veru samt svo hægt. Hvernig geta vegir lífsins endað á þann veg, við spyrjum.

Samband okkar, sem efldist með unglings- og fullorðinsárunum og varð nánara, erum við svo þakklát fyrir. Þáttur þinn í lífi okkar og barnanna okkar er óendanlega dýrmætur.

Við eigum öll eftir að sakna þín svo ógurlega mikið. Við eigum eftir að sakna samverustundanna og heimsóknanna í sveitina og á snyrtistofuna og við vitum að þú munt halda áfram að fylgjast með okkur og öllu sem er í gangi eins og þú alltaf gerðir af þínum einlæga áhuga.

Nú ertu komin á friðsælan stað og við sjáum þig fyrir okkur ganga um í borg eða á kyrrlátri strönd og golan leikur um fallega rauða hárið þitt og þú ert svo sæl.

Við munum þig eins og þú alltaf varst og geymum þig í huga og hjarta okkar ávallt.

Vertu yfir og allt um kring,

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring,

sænginni yfir minni.

(SJ)

Hvíl í ró og friði.

Þín systkini,

Þórdís, Magnús og Heiða.

Að ég hafi kvatt Ester frænku í hinsta sinn er óraunverulegt og sorglegt. Síðan ég kvaddi frænku mína fer margt í gegnum hugann. Það er svo margt sem er manni um megn að skilja til fulls.

Ester frænka og Auður föðursystir mín hafa alltaf verið stór hluti af lífi mínu. Vesturbergið, heimili þeirra í Reykjavík, var alltaf opið fyrir okkur fjölskylduna þegar við komum í bæinn. Við bjuggum á Hvolsvelli og síðan í Skógum undir Eyjafjöllum. Kristján afi okkar Esterar bjó einnig í Vesturberginu þar til 1979. Alltaf var þar líf og fjör, þar voru flatsængur í stofunni og ávallt bestu móttökur sem hægt var að hugsa sér. Auður og afi dekruðu við okkur öll. Við Ester vorum á svipuðum aldri og lékum mikið saman. Það var mjög spennandi að fara með Ester að þvælast um Breiðholtið, við fórum m.a. í Straumnes að kaupa græna frostpinna, fórum oft í bakaríið að kaupa kringlur og dýfa í heitt kakó, fórum reglulega í snyrtivörubúðina og gerðum margt fleira spennandi og skemmtilegt. Við lékum úti og inni. Ég sagði að ég kynni á Reykjavík þar sem Ester kenndi mér að taka tólfuna, frá Breiðholtinu á Hlemm og þaðan löbbuðum við Laugaveginn niður á Lækjartorg og tókum strætó heim. Við komum reglulega við hjá Auði sem vann þá í Hörpu málningarverksmiðjunni. Ég var voða ánægð að kunna á Reykjavík, allt Ester að þakka. Auður og Ester komu einnig reglulega austur til okkar. Pabbi minn og mamma tóku þeim ávallt opnum örmum og reyndust þeim mjög vel. Pabbi bauð Ester með okkur í sund, bíó og hvað eina sem honum datt í hug. Ester minntist pabba reglulega með miklum hlýhug og henni fannst hann með eindæmum skemmtilegur hann frændi sinn. Þeim mæðgum var boðið í allar okkar veislur, afmæli, brúðkaup og skírnir barna okkar, þær voru hluti af fjölskyldunni.

Ester var mjög dugleg, hæfileikarík og sjálfstæð. Þegar hún hóf nám í snyrtifræði kom ég nokkrum sinnum til hennar í skólann og æfði hún á mér andlitshreinsun, handsnyrtingu, ilmolíunudd o.fl. Ester var einn besti nuddari sem ég fór til. Ég fór til hennar á snyrtistofuna og þar tók hún alltaf vel á móti mér, vel undirbúin og mjög vandvirk. Hún var fagmaður fram í fingurgóma og gerði allt vel sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var einnig flugfreyja um tíma hjá Air Atlanta og þvældist um heiminn. Hún talaði mörg tungumál. Þær mæðgur ferðuðust mikið saman og áttu óteljandi góðar stundir.

Síðastliðin þrjú ár voru Ester frænku mjög erfið. Hún barðist við erfið veikindi. Við reyndum eftir fremsta megni að aðstoða hana, við vorum aðstandendur. Ég hafði heimili mitt opið fyrir Ester og sótti hún í að koma til mín og fann ákveðna ró hjá mér um tíma. Ég reyndi mitt besta að aðstoða Ester og mömmu hennar, en því miður yfirbuguðu veikindi hennar hana að lokum. Eftir sitjum við sorgmædd, máttlítil og berskjölduð. Við erum einnig fróðari að fenginni reynslu um mikilvægi þess að geðheilsa er undirstaða lífsgæða og lífsánægju. Einnig hversu brýnt er að forgangsraða rétt og sinna geðheilbrigðismálum almennilega.

Við erum ákveðin í að minnast Esterar frænku og allra hennar styrkleika. Við minnumst góðu stundanna. Við kveðjum frænku sem var góð í ótrúlegustu hlutum. Frænku sem vildi öllum vel og vildi standa sig vel. Elsku frænka, ég vona svo innilega að þú hafir fundið frið.

Þín frænka,

Linda Björk Halldórsdóttir.

Ester er farin frá okkur, allt of fljótt. Tilfinningarnar eru söknuður og sorg en einnig hjálparleysi. Gleði þegar maður rifjar upp allar góðu stundirnar.

Ég bjó heima hjá Ester og móður hennar Auði í Vesturberginu á menntaskólaárunum mínum, en Auður er föðursystir mín. Ég er sex árum eldri en Ester. Ester var lífsglöð stúlka og naut þess að leika sér með vinkonum sínum. Hún var listræn og góður námsmaður. Hún tók ekki að sér verkefni nema að vinna það vel. Hún hafði mikinn áhuga á tónlist og ferðalögum. Ég man að hún átti pennavini þegar hún var um tíu ára gömul. Hún hafði mikinn áhuga á tungumálum og lærði þau nokkur, m.a. spænsku og kínversku. Hún lærði snyrtifræði og fékk verðlaun fyrir bestan árangur á sveinsprófi í snyrtifræði. Ester hóf vinnu hjá snyrtistofunni Helenu fögru. Þar eignaðist hún marga fastakúnna, sem sýnir hve fagleg hún var. Ester elskaði að ferðast og kunni best við sig í stórborgum. Það má segja að Madrid hafi verið uppáhaldsborgin hennar, en þar bjó hún um skeið. Ester var alltaf smekkleg til fara og fylgdist vel með tískunni.

Það mynduðust sterk tengsl milli mín og þeirra mæðgna Auðar og Esterar á menntaskólaárunum mínum. Þau tengsl héldust áfram. Þær voru duglegar að koma í heimsókn, ekki síst eftir að sonur minn kom í heiminn. Þær sýndu systrum mínum og börnum þeirra sama áhuga og voru duglegar að heimsækja þær.

Ester bjó hjá móður sinni mestallan hluta ævi sinnar. Maður minntist nánast aldrei á aðra þeirra án þess að nefna hina í leiðinni, maður talaði um að fara til Auðar og Esterar. Þangað var alltaf gott að koma og vel tekið á móti manni. Auður mundi ótrúlegustu hluti og Ester kom svo með sinn skemmtilega vinkil á tilveruna. Hún hafði gaman af að hella upp á gott kaffi eða te og maður naut þess að drekka og fá skýringar á uppruna og gæðum kaffisins.

Eftir að ég flutti norður heyrðumst við Ester reglulega í síma. Ferðalög voru sameiginlegt áhugamál okkar. Ester ræddi líka oft að ég yrði að kynnast hálfbróður hennar, honum Magnúsi. Það er óhætt að segja að hún hafi verið nokkuð stjórnsöm.

Haustið 2022 fór að verða vart við sjúkdóm hjá Ester sem ágerðist og tók loks öll völd. Sjúkdómurinn reyndi mjög á Ester og Auði og alla nána ættingja og vini.

Ég minnist elskulegrar og hæfileikaríkrar frænku sem verður sárt saknað. Hvíl í friði elsku Ester.

Þinn frændi,

Kristján.

Það var sannkölluð paradís fyrir börn að alast upp í Breiðholtinu. Alls staðar voru börn að leik. Við fórum í brennó, renndum okkur á skautum, sóttum Dansskóla Heiðars Ástvaldssonar, versluðum í KRON og hlupum í Straumnes til að kaupa grænan frostpinna. Í þessu umhverfi kynntist ég bestu vinkonu minni í æsku, Ester Rafnsdóttur.

Ester var einstaklega glæsileg. Hún var hávaxin, með fallegasta rauða hárið og breiðasta brosið í Breiðholtinu. Það kom síðar lítið á óvart að tískutímaritið Vogue skyldi biðja hana að sitja fyrir, þegar hún bjó í Madríd. Það var mikill hæðarmunur á okkur vinkonum. Mörgum í hverfinu fannst þetta fyndið, en við urðum bara enn meiri vinkonur fyrir vikið.

Ester var hlý og traust vinkona. Við gerðum allt saman í æsku og klæddumst eins. Vorum í Henson-göllum, pífupilsum sem mamma mín saumaði, hlustuðum á Kool & the Gang, dönsuðum í eldhúsinu í Vesturbergi 8, stofnuðum hverfisblaðið ELL og nutum þess að fá okkur samloku með skinku og osti í örbylgjuofni, ásamt appelsínugulum Svala-drykk. Það kom aldrei neitt upp á milli okkar; alltaf ríkti traust og einlæg vinátta. Vináttu okkar er best lýst með orðum Cicerós: „Fegurstu samskipti vaxa af sjálfum sér og eru eftirsóknarverð í sjálfu sér og sjálfs síns vegna.“ Gæfan fylgdi mér í þessari vináttu, því þegar fyrsta vináttan er svona hreinlynd býr maður að slíku ævilangt. Viðmótið á heimili Esterar var líka einstaklega örlát og hlýtt. Auður, móðir hennar, vildi alltaf allt fyrir okkur gera. Foreldrar mínir báru einnig mikið traust til Esterar – meðan þeim fannst ég stundum of uppátækjasöm, þá var ákveðið skjól í Ester. Einnig var hún afar hjartahlý gagnvart litlu systur minni.

Ester var samviskusöm, dugleg og vel innrætt. Hún hafði alltaf forgangsröðina á hreinu. Ég man sérstaklega að ég gat aldrei fengið hana með mér út að leika fyrr en hún hafði lokið heimanáminu – enda varð hún dúx í Fellaskóla. Eftir grunnskóla fór hún í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og svo Háskóla Íslands, í spænskunám. Síðar lærði hún snyrtifræði og starfaði við það stærstan hluta starfsævi sinnar. Viðskiptavinir hennar voru afar ánægðir með hana. Ester vann til verðlauna og viðurkenninga allan sinn námsferil. Síðast var ég viðstödd þegar hún fékk viðurkenningu fyrir hæsta sveinsprófið á landinu í snyrtifræði.

Ester var mikil heimskona, talaði fjölda tungumála og ferðaðist víða. Uppáhaldsborg Esterar var Madríd, þar sem hún dvaldi um hríð. Spænskan hennar var svo góð að innfæddir töldu hana jafnvel betri en þá sjálfa í málinu.

Ester átti farsæla hálfa öld en glímdi við grimm veikindi síðustu árin. Geðheilbrigðisþjónustan veitti henni aðstoð og skjól en því miður dugði það ekki til. Fjölskylda hennar og vinir, einkum Auður móðir hennar, studdu hana eins mikið og frekast var unnt. Það er sorg sem býr í hjörtum okkar vegna fráfalls elsku Esterar. Ég vil þakka Ester fyrir dýrmæta vináttu í gegnum lífið. Megi minningin um þessa einstaklega góðu og fallegu vinkonu lifa.

Þín vinkona,

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.

Það er mér þungbært að kveðja elsku dásamlegu vinkonu mína Ester Rafnsdóttur. Það er erfitt að skrifa minningarorð um mína bestu vinkonu og reyna að koma orðum að því hvað það er sárt að hún sé fallin frá. Ég hef verið gjörsamlega eyðilögð frá því ég frétti af andláti hennar. Í gegnum veikindi hennar fann ég til með henni en ég áttaði mig ekki á því að henni liði svona illa en ég hélt í vonina að hún næði bata, ég hafði von en allt kom fyrir ekki.

Ég reyndi eins og ég gat að styðja hana, ég gafst aldrei upp en er þakklát fyrir það sem ég náði fyrir okkar vináttu.

Dagarnir líða og ég veit ekki hvernig ég á að takast á við þessa óbærilegu sorg. Með sorg í hjarta vil ég rifja upp góðar minningar sem ylja mér mikið. Margs er að minnast. Þegar við vorum í háskólanum saman í spænskunni og við gerðum verkefni sem við unnum upp á tíu, það var auðvelt að vinna með Ester, hún var klár og úrræðagóð, fann lausnir við öllu enda mikill tungumálasnillingur. Samverustundirnar okkar í Madrid, fluffulífið er mér mjög minnisstætt, t.d. þegar við fórum saman í El Corte Ingles og áttum skemmtilegar stundir, tókum myndir, mátandi föt inni í mátunarklefa og höfðum gaman, skellihlógum saman og létum ekkert trufla okkur.

Ester dúxaði í snyrtifræðinni, nuddnáminu og framtíðin blasti við þessari glæsilegu dömu. Ester var einstaklega mannleg í öllum samskiptum, hún sýndi ætíð áhuga á því sem aðrir voru að gera og kunni að hrósa því sem vel var gert. Hún hafði ákveðnar skoðanir og lét þær hiklaust í ljós. Hún var vandvirk og nákvæm í starfi sínu alla tíð. Hún var fagmaður.

Mamma hennar, Auður, stóð alltaf þétt við bakið á henni, hún var kletturinn í hennar lífi.

Það var svo innilegt hvernig Ester tjáði sig þegar við hittumst eða slógum á þráðinn, þá var það fyrsta sem hún spurði hvernig synir mínir Alex og Róbert hefðu það, ég kunni að meta það, góðmennskan var einlæg og ekki skorti kærleikann og ástina.

Söknuðurinn er sár en minningin lifir og kærleikur sem hún gaf heldur áfram að gefa um ókomin ár. Nú kveð ég vinkonu mína og geymi í hug og hjarta allar okkar ánægjustundir saman.

Þín vinkona,

Helga.