Hildur Björnsdóttir
Hildur Björnsdóttir
Það er löngu tímabært að snúa við áralangri óheillaþróun í rekstri og umhverfi borgarinnar – og við erum klár í verkefnið.

Hildur Björnsdóttir

Sjálfstæðisflokkurinn er á mikilli siglingu í Reykjavík. Í nýlegri könnun Gallup sem framkvæmd var fyrir Viðskiptablaðið mælist flokkurinn með 33,9% fylgi í borgarstjórn. Við höfum skynjað mikinn meðbyr með málflutningi okkar undanliðna mánuði og ánægjulegt að fá stuðninginn staðfestan í mælingu.

Heilbrigður húsnæðismarkaður

Á dögunum kynnti meirihlutinn áform um húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík. Sjónum virðist eingöngu beint að félagslegu, óhagnaðardrifnu eða öðru niðurgreiddu húsnæði. Lítil áhersla er lögð á húsnæði fyrir meginþorra fólks sem reiðir sig á hinn almenna húsnæðismarkað. Hugmyndafræði meirihlutans vanmetur getu og vilja fólks til að standa á eigin fótum. Freistar þess að festa fólk í kerfum í stað þess að skapa samfélag þar sem fólk getur komið undir sig fótunum með dugnaði og áræðni – verið sinnar eigin gæfu smiðir.

Á næstu árum skiptir sköpum að tryggja ríkulegt lóðaframboð svo að skapa megi heilbrigðan frjálsan húsnæðismarkað sem mætir eftirspurn og fjölbreyttum þörfum. Skipulögð verði ný hverfi samhliða hóflegri þéttingu innan hverfa sem hafa til þess svigrúm. Endurhugsuð verði illa ígrunduð þéttingaráform innan rótgróinna hverfa á borð við Grafarvog og Breiðholt.

Skólakerfi í fremstu röð

Rekstur sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla hefur reynst þungur í Reykjavík. Rótgrónir sjálfstæðir grunnskólar í borginni horfa fram á mögulega lokun námsbrauta vegna takmarkaðra fjárframlaga frá borgaryfirvöldum. Alvotech leyfist ekki að reka leikskóla í höfuðborginni og reykvískir nemendur fá ekki lengur að stunda fjarnám á unglingastigi í sjálfstæðum skóla. Grunnskólabörn ná ekki viðunandi árangri í lykilnámsgreinum í samanburði við jafnaldra annarra þjóða og fjölskyldum bjóðast ekki leikskóla- eða daggæslulausnir að loknu fæðingarorlofi.

Við eigum að sýna mun meiri metnað þegar skólakerfið er annars vegar. Setja fjölskyldur, börn og menntun þeirra í forgang. Vinna að því að koma íslensku skólakerfi í röð 10 fremstu innan OECD fyrir árið 2040 og notast við samræmt námsmat til að mæla árangur nemenda. Tryggja fjölbreyttar leiðir sem mæta fjölskyldum að loknu fæðingarorlofi og fagna frumkvæði einkaaðila sem vilja bjóða lausnir og úrræði.

Greiðar samgöngur

Samgönguvandi höfuðborgarsvæðisins hefur farið vaxandi á undanliðnum árum. Ófremdarástand hefur skapast á álagstímum og stundunum sem fólk sólundar í umferðinni fer fjölgandi. Þó að samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins feli í sér margar nauðsynlegar samgöngubætur mun þurfa fleiri og stærri skref til framtíðar.

Greina má aukinn vilja til að leggja stofnvegi innan höfuðborgarsvæðisins í jarðgöng. Á næstu árum verður Miklabraut sett í göng og áður en langt um líður verður ákveðið hvort Sundabraut skuli þvera Kleppsvík á brú eða í göngum. Gríðarleg tækifæri geta falist í frekari jarðgangagerð í Reykjavík í einkaframkvæmd. Með slíkum lausnum má greiða verulega fyrir umferð neðanjarðar, en tryggja rólegri umferð ofanjarðar, pláss fyrir virka ferðamáta og mannvænna umhverfi fyrir fólk.

Sjálfstæðisflokkur í forystu

Tíðindin í könnuninni eru ekki síst þau að fimm flokka vinstri meirihlutinn er kolfallinn og stærstur hluti borgarbúa vill Sjálfstæðisflokkinn aftur í forystu. Nú eru þrettán mánuðir til borgarstjórnarkosninga og baráttan sannarlega hafin. Það er löngu tímabært að snúa við áralangri óheillaþróun í rekstri og umhverfi borgarinnar – og við erum klár í verkefnið – að tryggja Reykjavík sem virkar.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Höf.: Hildur Björnsdóttir