Þórunn Sveinbjörnsdóttir
Þórunn Sveinbjörnsdóttir
Æði margir telja að það sé í lagi að nota svefnlyf til langs tíma. En það er mikill misskilningur.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Átt þú erfitt með svefn? Átakinu „Sofðuvel“ sem nú er hafið er ætlað að aðstoða fólk við að draga úr notkun svefnlyfja og bæta svefn.

Á Íslandi notum við mun meira af svefnlyfjum en t.d. nágrannar okkar Danir og Norðmenn. Munar þar til dæmis um að Íslendingar nota sex sinnum meira af svefnlyfjum en Danir samkvæmt rannsóknum. Svefnlyfjanotkun eykst með aldri. Því er líklegt að svefnlyf séu ofnotuð hérlendis og snertir það elsta fólkið okkar helst, sem þarf því hjálp við að höndla betur svefnleysi og tengd vandamál.

Til þess að bregðast við þessum vágesti ákvað Landssamband eldri borgara að eiga stóran þátt í að koma þessu verkefni af stað. Anna Birna Almarsdóttir, prófessor í lyfjafræði við Kaupmannahafnarháskóla, leiðir verkefnið og saman hafa hún og LEB sótt um og fengið styrki til verkefnisins. Hún hefur rannsakað notkun lyfja og viðhorf sjúklinga til þeirra í áratugi og gjörþekkir þennan málaflokk. Tók meðal annars þátt í ráðstefnunni „Lyf án skaða“ í október 2024 hér á landi. Í kjölfarið var leitað til Kanadamanna, en átak þeirra „Sleepwell“ tókst mjög vel og dró verulega úr notkun svefnlyfja, eða um heil 46%.

Æði margir telja að það sé í lagi að nota svefnlyf til langs tíma. Það er mikill misskilningur. Slík lyf ætti aðeins að ávísa í mjög skamman tíma til að hjálpa fólki að ná aftur takti í svefn sinn. Lyfin eru líka löngu hætt að virka, en trúin á að þetta hjálpi við svefnvanda er svo rík. Því þarf fólk að finna nýjar lausnir og er farið yfir ýmsa möguleika í öðrum af bæklingum átaksins, „Að endurheimta gæðasvefn“. Þar má finna ýmis góð ráð sem sannað hafa gildi sitt. Hinn bæklingurinn er „Hvernig má hætta á svefnlyfjum?“ Reynslusögur og mikilvægar upplýsingar má finna í þessum stuðningsbæklingum sem unnir voru í Dalhousie University í Halifax, en prófessorar þar auk fjölda fagaðila unnu verkefnið sem sett var í loftið 2022. Íslensku bæklingarnir eru þýddir með leyfi þeirra og hafa þau einnig stutt við íslenska átakið.

Nú er komið að okkur að styðja vel við það fólk sem er í viðjum svefnlyfja og benda líka á hætturnar sem fylgja svefnlyfjum, en meðal þeirra eru minnistap, óstöðugleiki, fallhætta/byltur sem valda oft beinbrotum, skert geta til að stjórna ökutækjum, ávanabinding og fráhvarfseinkenni. Óteljandi slys má rekja til notkunar svefnlyfja. Enn frekari upplýsingar má finna á heimsíðu verkefnisins sofduvel.is

„Sofðuvel“ er íslenska heiti verkefnisins. Átakið er nú í fullum gangi og er hægt að snúa sér til heilsugæslu og apóteka, en þar eru bæklingarnir fáanlegir og starfsmenn á þessum stöðum eru með í átakinu.

Heilbrigðisráðherra hefur mælt með að við tökum höndum saman um að taka til í þessum málaflokki og endurheimtum bættan svefn og líðan. Allar frekari upplýsingar og leiðbeiningar við að endurheimta gæðasvefn eru í þessum tveimur bæklingum. Það er til mikils að vinna að ná tökum á auknum lífsgæðum.

Höfundur er fyrrverandi formaður Landssambands eldri borgara og í starfshópi um verkefnið.

Höf.: Þórunn Sveinbjörnsdóttir