Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Skálholtskirkja er stórkostlegt tónlistarhús, hljómurinn í henni er á heimsmælikvarða, hann er guðdómlegur. Samt hefur aldrei í langri sögu kirkjunnar verið almennilegt píanó þar. Reyndar er lítið rafmagnspíanó til í kirkjunni, en það er alls ekki sæmandi fyrir þetta sögufræga hús og þann vinsæla tónleikastað sem Skálholtskirkja er. Ævinlega þegar koma gestir til að halda tónleika í kirkjunni, bæði innlendir og erlendir, þá spyrja þeir í forundran: Er ekki píanó hér? Þörfin er því augljóslega mikil,“ segir Jón Bjarnason tónlistarstjóri Skálholts og stjórnandi Skálholtskórsins, sem fer fyrir veglegum fjáröflunartónleikum í Salnum í Kópavogi í dag, laugardag, með það að markmiði að ná lokatakmarkinu í söfnun fyrir Steinway-flygli sem til stendur að kaupa af Salnum fyrir Skálholtsdómkirkju.
„Í kirkjunni þarf að vera besta mögulega hljóðfærið og flygill er sú gerð píanóa sem oftast er notuð á tónleikum, hann hefur þann tónstyrk sem hentar fyrir stóra sali. Þetta verður rosaleg bylting þegar flygillinn verður kominn í kirkjuna, sem er svo miklu meira en kirkja, þar sem fer fram helgihald, hún er orðin ómissandi tónleikahús. Tónlistarlíf í Skálholti er mjög öflugt, á hverju ári eru haldnir fjölmargir tónleikar þar og Skálholt er einn eftirsóttasti staður á Íslandi fyrir kórtónleika, bæði með innlendum og erlendum kórum. Oft er píanóundirleikur nauðsynlegur með kórtónlist og því er mjög mikilvægt að Skálholtsdómkirkja geti boðið upp á slíkt hljóðfæri í hæsta gæðaflokki þegar á þarf að halda. Flygill kemur sér einnig vel í helgihaldi staðarins með sálmasöng, en hann nýtur sín einkar vel með píanóundirleik.“
Hún ætlar að syngja Ave María
Jón hefur ásamt fleirum unnið ötullega að því undanfarin ár að safna fyrir Steinway-flyglinum sem kostar 16 milljónir.
„Við fengum gott start fyrir nokkrum árum þegar Kirkjubyggingarsjóður frá Laugarvatni lagði grunninn að söfnuninni með rausnarlegu framlagi, fimm milljónum. Undanfarið ár hafa verið haldnir fjölmargir tónleikar í Skálholtskirkju þar sem gestir hafa lagt fram frjáls framlög í sjóðinn. Nýlega buðu Karlakórinn Fóstbræður og Karlakór Selfoss upp á magnaða tónleika í kirkjunni þar sem söfnuðust um tvö hundruð þúsund krónur. Ríkisstjórn Íslands veitti fjórar milljónir í sjóðinn í lok síðasta árs, eftir stóru jólatónleikana í Skálholti, þangað sem við buðum ráðherra að hlusta og njóta. Aðgangseyrir að þeim tónleikum skilaði auk þess milljón í sjóðinn, en þetta voru æðislegir jólatónleikar þar sem nokkrir kórar komu fram auk Skálholtskórsins. Þar söng Vörðukórinn, Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna og Kór Menntaskólans að Laugarvatni. Allt þetta fólk er til í að leggja okkur lið með vinnu sinni og listrænu framlagi,“ segir Jón og bætir við að einnig hafi einstaklingar gefið í söfnunarsjóðinn, m.a. ein milljón í minningu Helgu Ingólfsdóttur sem stofnaði Sumartónleika í Skálholti.
„Við erum alveg að ná takmarkinu okkar, við erum komin með 12,7 milljónir og vonumst til að okkur takist að safna rest með fjáröflunartónleikunum í Salnum í dag. Auk Skálholtskórsins ætla þar að koma fram Karlakór Selfoss og einsöng mun Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran syngja, en ég hef unnið mikið með henni. Hún æltar að syngja Ave María með kórunum og aðra Ave Maríu þar fyrir utan. Einhverjir meðlimir Karlakórsins Fóstbræðra ætla líka að vera með, Jóhann I. Stefánsson leikur á trompet og Matthías Birgir Nardeau á óbó. Allt þetta fólk hefur sungið og spilað í Skálholti í gegnum tíðina, svo málefnið stendur þeim hjarta nær.“
Á efnisskrá tónleikanna eru verk sem spanna sögu tónbókmenntanna frá J.S. Bach, Beethoven, Chopin, Lizst og allt til okkar ástsælu Páls Ísólfssonar og Sigvalda Kaldalóns. „Ég er mjög spenntur fyrir tónleikunum og líka söngfólkið mitt í Skálholtskórnum, en við erum ný komin heim úr kórferðalagi frá Cambridge þar sem kórinn var með þrenna tónleika. Kórinn verður í góðu formi þegar hann stígur á stokk í Salnum,“ segir Jón sem hefur stjórnað Skálholtskórnum undanfarin sextán ár.
Málið varðar okkur öll
Þegar Jón er spurður að því hvers vegna pípuorgelið sem er í Skálholtskirkju dugar ekki sem undirleikshljóðfæri, segir hann að flygill og pípuorgel séu afar ólík hljóðfæri.
„Munurinn á þessum tveimur hljóðfærum er gríðarlega mikill, nánast eins og svart og hvítt, og liggur fyrst og fremst í hljómnum. Munurinn snýst um eðli hljóðfæranna, en þegar leikið er á píanó þá er slegið á strengi og þá stjórnar hljóðfæraleikarinn styrknum og öðru með áslættinum. Þegar leikið er á orgel þá opnast fyrir pípur sem eru mismunandi raddir. Fólk heyrir gjörólíkan hljóðheim koma frá píanói eða orgeli. Vissulega bæta þessi tvö hljóðfæri hvort annað upp og ég sé fyrir mér að stórkostlegt væri ef spilað væri á bæði hljóðfærin í einu við tónlistarflutning í kirkjunni. Láta þau hljóma samtímis,“ segir Jón og bætir við að það virðist örlagakennt að einmitt þegar Kópavogsbær ákveði að selja annan flygil Salarins til þess að fjármagna kaup á nýjum flygli, þá sé Skálholtsstaður að safna fyrir slíku hljóðfæri.
„Ég hvet alla velunnara Skálholts til að koma á tónleikana og styrkja okkur til að koma þessu glæsilega hljóðfæri til okkar. Málið varðar okkur öll, þjóðina, því Skálholtskirkja er kirkja okkar allra og tónlistarhús okkar allra. Ég er spenntur að fá að spila á verðandi flygil Skálholtskirkju á tónleikunum í Salnum í dag og lofa að láta flygilinn njóta sín, ég mun spila píanóverk helstu tónskálda píanóbókmenntanna.“
Sveitakarl úr Skagafirði
Jón segir ástæðu þess að hann sótti um starf tónlistarstjóra í Skálholti fyrir 16 árum fyrst og fremst hafa verið þá að hann langaði að flytja út á land, komast út úr borginni.
„Ég, sveitakarl, fæddur og uppalinn í Skagafirði, og konan mín, Bergþóra Ragnarsdóttir, er líka úr sveit, frá Hornafirði. Okkur líður því vel úti á landi og okkur finnst gott að vera hér í Biskupstungum, mitt á milli okkar sveita. Ég hafði starfað sem organisti í sex ár í Seljakirkju þegar þessi staða var auglýst og við ákváðum að stökkva til, enda meira en til í að flytja úr borginni og sjáum ekki eftir því. Þar fyrir utan er stutt héðan í borgina, tekur rétt klukkutíma að skjótast, ég fer stundum tvisvar til Reykjavíkur á dag og þrjár ferðir á Selfoss í millitíðinni. Ég keyri um 60 þúsund kílómetra á ári, en mér finnst gaman að keyra og ég nýti tímann til að hlusta.“
Söfnunartónleikarnir, undir yfirskriftinni Frá Salnum í Skálholt, verða haldnir í dag, laugardag, í Salnum í Kópavogi, 5. apríl, klukkan 18. Hægt er að kaupa miða á tix.is eða við innganginn.