Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Mér sýnist ekki vanþörf á því að ríkisstjórninni sé og verði veitt öflugt aðhald,“ segir Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir þingmaður Miðflokksins. Flokkurinn jók fylgi sitt verulega í kosningunum í nóvember síðastliðnum og þingmenn flokksins, sem áður voru tveir, eru nú átta. Síðustu mánuðir segir Nanna að hafi meðal annars farið í að stilla saman strengi í þingflokknum og vinna að gerð ýmissa tillagna og frumvarpa sem lögð hafa verið fram á Alþingi. Einnig þurfi, aðhaldsins vegna, að fara vel yfir þau mál sem stjórnarmeirihlutinn leggur fram.
„Í raun er býsna merkilegt að þegar ríkisstjórnin hefur setið við völd í rúmlega 100 daga séu fyrst nú að koma frá henni þingmál. Hingað til hefur lítið komið, nema þá frumvörp frá fyrri ríkisstjórn án þess að tilraunir séu gerðar til að bæta þau,“ segir Nanna Margrét. Hún er þingmaður Suðvesturkjördæmis og varafomaður í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
Ísland sé utan tollastríðs
Þegar litið er á þau þingmál Miðflokksins sem fyrir liggja er einföldun hins opinbera kerfis þar nokkuð áberandi. Lögð er áhersla á einföldun regluverks, skýr afstaða gegn bókun ESB 35 þar sem erlend lög eru tekin fram yfir íslensk og talað fyrir eflingu innlendrar matvælaframleiðslu, meðal annars út frá öryggissjónarmiðum. Einnig leggja þingmenn Miðflokksins til sveigjanlegri tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi, einföldun á endurnýjun ökuskírteina eldra fólks og afnám jafnlaunavottunar.
„Við höfum einnig brýnt stjórnvöld til að tryggja hag Íslands í þeirri breyttu stöðu sem komin er upp í alþjóðastjórnmálum. Við viljum halda Íslandi fyrir utan möguleg tollastríð stærstu viðskiptasvæða okkar, Evrópu og Bandaríkjanna,“ segir Nanna.
Hagræðingin ekki marktæk
Á dögunum skipaði fjármálaráðherra nýjar stjórnir nokkurra hlutafélaga sem eru í eigu ríkisins og teljast opinber hlutafélög. Þetta er fyrirkomulag sem Nanna segist hafa miklir efasemdir um svo og að þetta sé kallað fagleg skipan. Því miður sé slíkt oft á kostnað lýðræðisins. Þegar færa eigi vald sem lengst frá kjörnum fulltrúum taki embættismannakerfið við, sem sé vafasöm þróun. Með þessu verði opinberu fyrirtækin eins konar ríki í ríkinu.
„Dæmi um þetta eru til dæmis kaup Landsbankans á TM. Þar var alveg skýrt að þau voru ekki í samræmi við stefnu eigandans og í óþökk hans, en búið var að aftengja félagið svo frá eigandanum að hann gat illa gripið inn. Allt þetta býður heim þeirri hættu að ráðherra hvers tíma skipi hæfisnefndir og stjórnarmenn úr ranni síns eigin flokks. Viljum við það?“ segir Nanna sem kveðst áfram um að á vettvangi stjórnmálanna séu málin leyst út frá hugmyndafræði.
„Í hagræðingartillögum ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru á dögunum voru engar tillögur sem byggðust á pólitískum álitaefnum. Stefnu og pólitíska sýn vantaði. Á endanum voru tillögurnar innan við 1% af ríkisútgjöldum, sem er ekki einu sinni marktækt sem hagræðing.“
Gegndarlaus aukning opinberra umsvifa
Fjármálaáætlun ríkisstjórnar var kynnt nú í vikubyrjun og eitt af stefjum hennar er að nú er ráðgert að ríkissjóður verði hallalaus strax árið 2027. Nanna segist vonast til að svo verði en því miður séu litlar upplýsingar um hvernig slíkt eigi að nást og margt óskýrt varðandi þau markmið stjórnarinnar að forgangsraða í þágu heilbrigðis-, félags- og samgöngumála.
„Mér virðist fjármálaáætlunin unnin í flýti og greiningar sem ættu að liggja til grundvallar mikilvægum tillögum vantar. Í mikilvægum atvinnugreinum, ferðaþjónustu og sjávarútvegi, er skattahækkunum hent fram án þess að fyrir liggi hver áhrifin verða á hagkerfið, að ég tali nú ekki um byggðir landsins. Ekki er ljóst hvar hagræðingin á að eiga sér stað og ríkisstjórnin vill ekki hreyfa við stórmálum eins og lögum um opinbera starfsmenn,“ segir Nanna og að síðustu:
„Ég tel sömuleiðis mikilvægt að greina vel þarfir þeirra sem leita til heilbrigðiskerfisins, enda þarf tilhögun þjónustu að byggjast á slíkum upplýsingum. En samkvæmt skriflegu svari frá heilbrigðisráðherra eru afar litlar upplýsingar til um hverjir nýta þjónustu kerfisins. Útilokað er að gera áætlanir í heilbrigðiskerfinu ef við vitum ekkert um mögulega þróun í fjölda þeirra sem nýta vissa þjónustuþætti. Í fjármálaáætlun sést að auka á útgjöld til heilbrigðismála um 6,8 milljarða króna. Gott og vel; að baki því getur þó ekki verið mikil greining enda takmarkaðar upplýsingar að hafa. Heilbrigðiskerfið er hér bara eitt dæmi og sama á við víðar. Ekki er farið í rót vandans sem endurspeglast í gegndarlausri aukningu opinberra umsvifa.“