Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, segir nú miðað við að framkvæmdir við að setja hluta Sæbrautar í stokk hefjist árið 2027. Þá sé nú miðað við að verklok verði árið 2030. Forhönnun sé lokið og verkhönnun að hefjast en það sé lokastigið í hönnunarferlinu

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, segir nú miðað við að framkvæmdir við að setja hluta Sæbrautar í stokk hefjist árið 2027. Þá sé nú miðað við að verklok verði árið 2030. Forhönnun sé lokið og verkhönnun að hefjast en það sé lokastigið í hönnunarferlinu.

Að sögn Davíðs verður leitast við að hraða verkinu eins og kostur er til að lágmarka tafir á umferð. Þótt útbúnar verði hjáleiðir muni óhjákvæmilega hægja á umferðinni. M.a. þess vegna sé til skoðunar hvort það henti að nota forsteyptar einingar í stokkinn og flýta þannig verkinu.

„Framkvæmdum við stokka fylgir mikið rask. Því þarf að útbúa öflugar hjáleiðir en jafnvel þótt það sé gert verður talsvert rask. Þess vegna er mikilvægt að stytta framkvæmdatímann eins mikið og hægt er. Gert er ráð fyrir hjáleiðum sem eru 2+2. Þ.e.a.s. með tveimur akreinum í hvora átt eins og Sæbrautin er í dag. En þótt útbúin sé hjáleið getur ekki verið sami umferðarhraði eins og er á veginum í dag. Því munu fylgja einhverjar tafir. Því miður. En til lengri tíma litið verður þetta mikil framför,“ segir Davíð.

Fyrstu íbúðirnar komnar í sölu

Tilefnið er að sala íbúða á Eirhöfða er hafin en það er fyrsta fjölbýlishúsið sem kemur í sölu á þéttingarreit í Höfðahverfinu. Umbreyta á Ártúnshöfða úr atvinnusvæði í íbúðahverfi en gert er ráð fyrir að borgarlína liggi um hverfið og svo áfram austur í fyrirhugað hverfi í Keldnalandi. Það kallar á að Sæbrautin fari í stokk á kafla svo að borgarlínan geti ekið frá Suðurlandsbraut og yfir fyrirhugaða brú yfir Elliðaár.

Einnig stendur til að setja hluta Miklubrautar í göng. Gert er ráð fyrir að gangamunninn verði við Landspítalann að vestanverðu en austan Grensásvegar að austanverðu. Munu ökumenn þá geta ekið undir gatnamótin við Lönguhlíð, Kringlumýrarbraut, Háaleitisbraut og Grensásveg en borgarlínan aka á yfirborðinu.

Davíð segir aðspurður að samkvæmt samgöngusáttmálanum, sem uppfærður var síðasta sumar, sé miðað við að gangagerðin á Miklubraut hefjist árið 2032 og ljúki árið 2036.

Varðar líka borgarþróun

Varðandi fyrirhugaða þéttingu byggðar meðfram Miklubraut og Safamýri segir Davíð að sú uppbygging sé á hendi skipulagsyfirvalda í Reykjavík.

„Við fjárfestum í umferðarmannvirkjunum og svo er það sveitarfélagið á hverjum stað sem ákveður skipulagið í kring, þar með talið við Miklubraut. Þetta er áminning um að verkefni okkar – borgarlínan, Miklubrautargöng og Sæbrautarstokkur og svo framvegis – eru ekki aðeins samgöngumannvirki. Þetta eru borgarþróunarverkefni,“ segir Davíð.

Eykur lífsgæðin

Hann vekur svo athygli á því að uppbyggingin snúist ekki aðeins um að bæta samgöngur og bregðast þannig við stóraukinni bílaumferð samhliða mikilli íbúafjölgun, heldur auki hún lífsgæði íbúa á þessum köflum Miklubrautar og Sæbrautar.

Gangagerðin á Miklubraut mun greiða fyrir umferð við Nýja Landspítalann en stefnt er að því að taka nýjan meðferðarkjarna í notkun árið 2029.

Höf.: Baldur Arnarson